Grunnskóli
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Sá andi sem fram kemur í þessu frv. virðist okkur kvennalistakonum réttur. Við höfum verið þeirrar skoðunar að bankar sem og önnur fyrirtæki skuli greiða skatta og reyndar virðast flestir sammála um að bankar séu vel aflögufærir og þeir hafi jafnvel fengið að leika lausum hala allt of lengi. Það má reyndar vera að það hafi breyst að undanförnu, jafnvel tekið stökkbreytingum á undanförnum örfáum mánuðum eins og svo margt annað í efnahagslífinu.
    Hæstv. fjmrh. minntist á óhagkvæmni bankakerfisins og er ég honum mjög sammála um að það er greinilegt að þessi litla þjóð hefur ekki efni á allri þeirri uppbyggingu sem er í kringum það. Á undanförnum árum hefur þenslan verið mjög mikil eins og t.d. kom fram í máli hæstv. ráðherra varðandi fjölgun starfsmanna í bankakerfinu á undanförnum árum.
    Þróunin hefur að vissu leyti verið dálítið merkileg. Á meðan verslunum fækkar og þær stækka og stefnt er að samruna fyrirtækja, t.d. í sjávarútvegi, eru bankarnir orðnir eins og nokkurs konar kaupmaður á horninu. Ég hef hins vegar uppi ákveðnar efasemdir um þá sjóði sem upp eru taldir í athugasemd við 1. gr. frv. Það er ljóst að staða sumra þeirra sjóða sem þar eru upp taldir er afar mismunandi og þeir eru misvel eða jafnvel misilla í stakk búnir til þess að sinna því hlutverki sem þeim er ætlað. Tekjur þeirra koma að hluta til úr ríkissjóði og eins og menn vita eru lögbundin framlög til þeirra oft og einatt skert. Það gerir þeim að sjálfsögðu með öllu ókleift að sinna þeim verkefnum sem þeim eru ætluð. Þá vil ég t.d. nefna Hafnabótasjóð, en samkvæmt fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir er hann stórlega skertur. Það er kannski ekkert sem bendir til þess á þessari stundu að ríkið muni auka framlag sitt til hans frekar en svo margs annars sem stórlega er skert í því fjárlagafrv. sem liggur á borðum okkar þingmanna.
    Ég ætlaði bara að gera örstuttar athugasemdir við þessa 1. umr. og mun fá tækifæri til þess að kynna mér málið betur þar sem ég er áheyrnarfulltrúi í fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Ég vildi hins vegar gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hversu miklar tekjur hann áætli að komi í ríkissjóð vegna frv. og ég vil líka spyrja hann hver séu áætluð áhrif á einstaka sjóði, þá sjóði sem upp eru taldir í athugasemd við 1. gr. frv., hvort hann telji að allir sjóðirnir geti borið þennan skatt án þess að til beinnar vaxtahækkunar komi og þá hvernig.