Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir jákvæð viðbrögð við þessari beiðni. Ég leyfi mér að líta svo á að hann hafi með svari sínu tekið jákvætt í þá ósk sem hér hefur verið borin fram. Ég tel að vísu að það hefði á þessum tíma verið unnt fyrir hæstv. ráðherra að taka þessa ákvörðun og hafa um það samráð við sína samstarfsmenn í ríkisstjórn. Ég skil mætavel að ráðherrann kjósi að hafa um það samráð við samstarfsflokkana. Það hefði verið æskilegt að niðurstaða hefði verið fengin við þessa umræðu en við það eru ekki gerðar athugasemdir. Ég tek undir að það eru ýmis atriði fleiri en hugmyndir um sérstakt skattþrep á matvæli sem þarna koma til skoðunar og endurmats og liggur í augum uppi að starf slíkrar nefndar þarf að vera nokkuð víðtækt og reyndar lá það fyrir þegar frv. var til afgreiðslu á síðasta þingi.
    En ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þessi jákvæðu viðbrögð og ég vænti þess að áður en þetta mál fær fullnaðarafgreiðslu hér í þinginu að þessu sinni geti hæstv. fjmrh. gefið endanlegt svar við ósk um þetta efni.