Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þau lög sem hér liggja fyrir eru eitt af hinum mörgu skattalögum ríkisstjórnarinnar. Í bráðabirgðalögum sem hafa verið til umræðu í Ed. er ákvæði í 16. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Gjaldskrár fyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu ekki hækka til 28. febrúar 1989. Þó skal heimilt að taka tillit til hækkana á verði innfluttra aðfanga, enda liggi fyrir mat Verðlagsstofnunar á þeirri þörf.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort þau bráðabirgðalög sem ríkisstjórnin samþykkti séu ekki þannig skilin að þau eigi að koma fram sem verðstöðvun í landinu. Og ef svo er, er þá ekki gjaldskrárhækkun á sköttum ólögleg samkvæmt þessum lögum? Er hún ekki ólögleg? Hér er verið að hækka gjaldskrá á sköttum og það hlýtur að vera ólöglegt nema ráðherrar telji að þetta séu innflutt aðföng og má þá spyrja ef svo er, hvort þeir telji þetta innflutt aðföng frá Sovét.
    Ég legg áherslu á það að ef við erum að halda launakjörum föstum og frysta þau, þá hljótum við að halda verðlagi og þar með sköttum líka föstum.
    Í máli hæstv. sjútvrh. við utandagskrárumræðu aðfaranótt þriðjudagsins kom fram að hann teldi að það þyrfti að lækka kaupið hjá fólkinu. Það þyrfti að lækka launin. En eins og allir vita er hann nú settur forsrh. Og nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar? Er það stefna ríkisstjórnarinnar að lækka kaupið? Ef svo er, má þá skoða þetta frv. sem bónus á enn frekari lækkun launa?
    Í þessu frv. er gert ráð fyrir nýju eða hækkuðu vörugjaldi upp á 12,5%, 25% og 31,25%. Í þeim flokkum sem hér er um að ræða er sælgæti og ýmisleg sætindi. Þó er það merkilegt að menn sem tala um manneldisstefnu skuli ætla að skattleggja ölkelduvatn, en það telst frekar til bóta að menn drekki það heldur en hitt, og ávaxtasafa. Falla þessar vörur ekki undir þau manneldissjónarmið sem hæstv. ráðherra hefur boðað? Þá eru ýmsir flokkar af snyrtivörum og síðan eru þarna flokkar ýmissa nauðsynlegra heimilistækja sem ég ætla ekki að telja upp enda of langt mál að gera það. Þetta eru hin algengu heimilistæki sem eru má segja á hverju heimili og í raun notuð daglega. Það hlýtur að vera ábyrgðarleysi ef ríkisstjórnin ætlar að fara að hækka þessi heimilistæki enn frekar en nú er. Þá er einnig ákveðið að skattleggja með þessum hætti ýmis byggingarefni og voru húsbyggingar þó nógu dýrar fyrir. Og væri nú fróðlegt að fá að vita hvað hæstv. félmrh. segir um þetta sem er alltaf að óska eftir meira fé til húsbygginga og, að sagt er, hefur barist hart fyrir meira fjármagni til þessa málaflokks.
    Nú er spurningin: Ef á að hækka byggingarefni þarf þá ekki meira fjármagn í lánasjóði sem veita lán til þessa málaflokks? Og ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hann telji ekki að svo sé. Þá spyr ég líka hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. hvort haft hafi verið samráð við launþegahreyfinguna, Alþýðusambandið, BSRB og

BHM og hvort launþegahreyfingin sé ánægð með þetta. Og í framhaldi af yfirlýsingu sjútvrh. um að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að lækka kaupið vil ég spyrja þessa menn hvort þeir telji þetta vera þannig gert að friður verði á vinnumarkaðinum þegar samningar verða lausir. Þetta er raunverulega árás á launþegahreyfinguna og ég vil ítreka að það hlýtur að vera alvöruefni ef hefja á þessa aðför að launþegum í landinu. Og þá vil ég spyrja hæstv. viðskrh. alveg sérstaklega: Hvar eru nú slagorð Alþfl. frá síðasta Alþingi um einföldun, réttlæti og skilvirkni? Þegar þeir voru að berja í gegn öll frv. sem þeir voru með í fyrra voru þetta aðalslagorðin. Og nú spyr ég hæstv. viðskrh.: Hvað er nú orðið af einfölduninni og réttlætinu og skilvirkninni? Það væri gaman að fá svör við því.
    Mig langar einnig að spyrja hæstv. fjmrh., ef hann er ekki gufaður upp, vegna þess að hann hefur nú undanfarið rætt um tekjuöflun ríkissjóðs: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í tekjuöflun fólksins? Hvað er með tekjuöflun fólksins? Ætlar ríkisstjórnin ekki að tryggja fólki hærri laun til að heimilin nái endum saman? Það eru fleiri en ríkissjóður sem þurfa að ná endum saman. Er það þá meiningin hjá ríkisstjórninni að hækka kaupið svo að endar nái saman? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessu? Ætlar ríkisstjórnin að taka féð frá fólkinu án þess að það nái endum saman? Eða ætlar ríkisstjórnin að verða til þess að stór hluti fólksins verði gjaldþrota?
    Á sl. ári hefur kaupmáttur launatekna dregist verulega saman. Og nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Er fólkið til fyrir ríkisstjórnina eða ríkisstjórnin fyrir fólkið? (Gripið fram í.) Ég vil þá sérstaklega koma inn á það að hér í málflutningi hafa verið hafðar í frammi rangfærslur og svartsýnisspár ýmissa forustumanna í ríkisstjórn og einnig í stjórnarandstöðu og í atvinnulífinu. Þessar spár og þessar svartsýnismálanir eru til skammar. Í ár er eitthvert mesta góðæri sem þjóðin hefur lifað við og þá emja menn eins og hér séu móðuharðindi. Vandamál þau sem nú er við að glíma eru afleiðing af auknum sköttum síðustu ríkisstjórnar sem við í Borgfl. vöruðum við. Við margvöruðum við þessari stefnu á síðasta þingi. Og ég spyr: Hafa menn gleymt því að
skattar voru hækkaðir um 50% á milli ára við afgreiðslu fjárlaga 1988? Hafa menn gleymt því? Sjálfstæðismenn geta ekki hlaupið burtu frá þessari staðreynd og ekki heldur þeir flokkar sem voru með þeim í stjórn. Halda menn að þessi skattahækkun á síðasta ári hafi ekki haft áhrif? Hún er að koma fram núna. Hún er að koma fram í því að það er samdráttur, það sem menn voru að vonast til að yrði. Auðvitað veldur það að atvinnuleysi og erfiðleikum hjá fyrirtækjum þegar spennan fellur og samdráttur er. Afleiðingar rangrar efnahagsstefnu og fjármálastefnu síðustu ríkisstjórnar og afleiðingar Ólafslaga, með sjálfvirkni lánskjaravísitölunnar, eru að lama atvinnulífið og fólkið í landinu. Með því að taka peningana frá fólkinu með þessum hætti er verið að taka máttinn frá því. Það er verið að taka

sjálfsákvörðunarrétt fólksins frá því í staðinn fyrir að lofa fólkinu að hafa sem mest á milli handanna til að ákveða hvað það skuli gera við sína peninga.
    Hér á Alþingi er verið að afgreiða fjárlög og forsvarsmenn ríkisstjórnar segja: Við þurfum að ná endum saman. En hvað með launafólkið? Þarf það ekki að ná endum saman? Hvað með þá sem eru með lágar tekjur? Þurfa þeir ekki að ná endum saman? Það eru fleiri en ríkisstjórnin sem búa í þessu landi. Og það hlýtur að vera krafa að fólkið í landinu fái að halda sem mestu eftir af sínum atvinnutekjum því að atvinnutekjurnar, það sem maður vinnur fyrir, eru ekkert minna virði en fjármunatekjurnar sem þó eru með sérstökum hætti verðlaunaðar í þessu landi.
    Það er því krafa að snúið verði burt frá þessari stefnu og hjól efnahagslífsins verði sett í gang með lækkun skatta. Það er þá betra að reka ríkissjóð með halla um tíma því að þær tekjur skila sér til baka þegar til lengri tíma er litið. Alls staðar þar sem skattar hafa verið auknir hefur það haft lamandi áhrif á þjóðlífið. Ég vara við því að hækka skattana með þessum hætti sem hér er gert og bendi á að margar aðrar leiðir eru til til að ná endum saman, m.a. að spara, og mætti þá gjarnan, eins og ég hef komið inn á áður, fara mjög gaumgæfilega yfir eyðslu ríkisins og sjá og heyra hvar spennan hefur orðið mest í ríkisgeiranum og draga úr útgjöldum þar. Það má hagræða og laga rekstur ríkisins á mörgum sviðum án þess að þjónusta minnki. Ég held að þetta eigi að vera meginmarkmið ríkisstjórnarinnar.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að vona að þeir hæstv. ráðherrar, sem sitja undir þessari umræðu, muni svara einhverju af þeim spurningum sem hér hafa verið bornar upp svo að við fáum svör og fólkið í landinu fái svör við því hvað ríkisstjórnin er að hugsa, hvort hún er að hugsa um það að staða heimilanna eigi að vera slík að þar nái ekki endar saman, þar verði fólkið að basla og slá lán. Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar? Við viljum fá svör við því hvort fólkið í landinu á að upplifa það sem hér er verið að gera, að það verði svo dýrt að lifa að það nái ekki endum saman. Var þó nógu slæmt fyrir hjá mörgum láglaunahópunum. Við viljum fá svör við þessu.