Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Skattheimtufrv. þessarar hæstv. ríkisstjórnar gerast æ kynlegri eftir því sem þau verða fleiri og eftir því sem hæstv. fjmrh. flytur fleiri framsöguræður. Satt best að segja liggur við að hægt sé að hafa þau orð um þetta frv. að það sé nokkur ósvífni af hæstv. ríkisstjórn gagnvart almenningi í landinu að bera það fram hér á Alþingi og ætlast til þess að fá það samþykkt.
    Vegna fsp. sem hv. síðasti ræðumaður var að bera fram til hæstv. ráðherra um það hvort þeir stefndu að því að lækka laun fólksins í landinu og rýra kjörin og koma atvinnulífinu á kné er staðreynd málsins sú að það er óþarfi að kalla eftir svörum við þeim. Staðreyndin er sú að þeir hafa með framlögðum frv. lýst því yfir að þetta sé stefna þeirra og þarf ekki að kalla fram nein munnleg svör um þau efni. Þetta er stefnan: Að keyra atvinnulífið niður og rýra lífskjör fólksins í landinu.
    Það vantaði hins vegar ekki að hæstv. fjmrh. gerði tilraun til þess, og ber auðvitað að virða það, að færa rök fyrir flutningi frv. Höfuðrökin voru þau að nú ætti að innleiða manneldisstefnu, alveg sérstaka góðmennsku, með álagningu þessara skatta. Hvernig víkur því við? Er verið að marka einhverja sérstaka stefnu í því efni að leggja skatt á sykurvörur? Nú má auðvitað ræða það alveg sérstaklega hvort það er rétt og skynsamlegt en kannski ekki ástæða til þess að fara um það mörgum orðum vegna þess að það er ekkert í frv. sem gerir ráð fyrir að hér sé verið að leggja á skatt út frá þeim sjónarmiðum. Hér er aðeins hluti, og það sennilega verulegur minni hluti, af iðnaðarsykri sem á að skattleggjast með frv. Ætli það sé nema einn fjórði eða einn þriðji af iðnaðarsykri sem skattlagður er með þessu frv.? Það er ekkert óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvers vegna þessir tilteknu vöruflokkar eru valdir, vegna þess að það liggur fyrir í frv. að ekki er verið að leggja á almennan sykurskatt út frá þeim sjónarmiðum að leggja eigi skatt á sykurvörur til þess að hafa einhver áhrif með skattlagningu á neyslu manna í þeim tilgangi að draga úr sykurneyslu. En hvers vegna skyldi vera lagður skattur á þessa vöruflokka en ekki aðra sem hafa sykurinnihald? Hvers vegna ekki á meiri hluta þeirrar vöru sem framleidd er í landinu, eða seld í landinu, með miklu sykurinnihaldi? Það er sjálfsagt ekki hægt að hafa uppi neinar fullyrðingar í því efni. Það skyldi ekki vera að hæstv. fjmrh. hafi valið úr fyrirtæki svona af einhverju handahófi og sleppt öðrum sem hann hefur meiri velþóknun á. Um þetta er auðvitað ekkert hægt að segja en þegar mál er flutt inni á Alþingi með þessum hætti hljóta spurningar af þessu tagi að kvikna. Og það er eðlilegt að almenningur í landinu spyrji sig slíkra spurninga og það er ekki óeðlilegt að starfsfólk þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga hljóti að spyrja slíkra spurninga því að það er verið að ögra atvinnuhorfum þess fólks með frv.
    Í annan stað er verið að leggja skatta á heimilistæki, sennilega í nafni félagshyggjunnar.

Hæstv. fjmrh. hefur heldur dregið úr notkun sinni á því orði. Eftir því sem hann hefur mælt fyrir fleiri skattafrv. hefur hann heldur fækkað þeim skiptum sem hann notar orðið félagshyggja til stuðnings sínum málstað. En það skyldi þó ekki vera að það að skattleggja heimilistækin flokkist undir félagshyggju? Og að skattleggja byggingarvörurnar með þeim hætti sem hér er ráð fyrir gert, skattleggja unga fólkið í landinu sérstaklega umfram aðra, unga fólkið sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið, þarf að vinna meira og ætlar að afla meiri tekna. Nú á að ná því úr öllum áttum. Það á að hækka tekjuskattinn á unga fólkinu sem þarf að leggja á sig aukavinnu til þess að hafa upp í byggingarkostnaðinn. Það á að ná unga fólkinu og ungu fjölskyldunum þar í nafni félagshyggjunnar. Og svo á sérstaklega að hækka byggingarkostnaðinn, allt efnið sem fólkið þarf að nota til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Úr öllum áttum á að ná sérstaklega í þennan hóp, í nafni félagshyggjunnar.
    Allt er þetta með þeim hætti að undrun vekur í því efnahagsástandi sem við búum nú við. Hitt er svo athyglisvert að þessi hæstv. ríkisstjórn skuli bera frv. af þessu tagi fram, með því að Alþfl. á aðild að þessari ríkisstjórn. Þegar skattkerfisbreytingarnar voru gerðar á síðasta ári voru með alveg órjúfanlegum hætti tengdar saman breytingar á óbeinni skattheimtu, breytingar sem gerðar voru á álagningu söluskatts, álagningu söluskatts á matvæli og hins vegar lækkun og einföldun á tollum og vörugjöldum. Með órjúfanlegum hætti var þetta tengt saman. Rökin fyrir því að leggja söluskatt á matvæli voru þau að með lækkun tolla og vörugjalda væri ekki verið að hækka framfærslukostnað hinnar almennu fjölskyldu í landinu heldur væri almennt verið að stuðla að einföldun í skattakerfinu. Álagning söluskatts á matvæli var þannig rökstudd með lækkun vörugjalda og tolla.
    Nú kemur Alþfl. og kokgleypir allt. Það stendur ekki steinn yfir steini á þessu sviði fremur en öðrum. Ég þykist alveg vita það að hæstv. viðskrh. kunni að flytja hér hjartnæma ræðu um að Alþfl. hafi rétt til þess að taka kollsteypur í þessu máli sem öðrum. En það væri fróðlegt að vita hvað hinn almenni þingmaður Alþfl. segir í þessu efni. Alþýðuflokksmennirnir sem árum
saman hafa verið að berjast fyrir lækkun tekjuskatta og einföldun tolla- og vörugjaldakerfisins. Mennirnir sem hafa stutt foringja sinn í einföldun skattakerfisins. Það var ekki svo lítið viðhaft í umræðum hér í haust þegar formaður Alþfl., sem nú er erlendis, --- ég skil mætavel að hann skuli hafa tekið þá ákvörðun að bregða sér úr landi meðan þessi umræða fer fram og ég hygg að hver einasti þingmaður hafi fullan skilning á því og gagnrýni ekki hæstv. utanrrh. fyrir, því það liggur nokkuð í augum uppi að honum væri varla vært að vera viðstaddur þessa umræðu eftir öll stóru orðin sem höfð voru uppi. Það var ekki einasta að þetta væri stærsta afrek hæstv. utanrrh. meðan hann var fjmrh. heldur skilst manni að eina afrek samráðherra hans í þeirri ríkisstjórn hafi verið að

koma þessari breytingu fram. En nú á að hækka tekjuskattinn, eyðileggja staðgreiðslukerfið með því að setja inn nýtt skattþrep. Alþfl. hikar ekki við það. Svo á að hverfa til baka frá einföldun vörugjaldakerfisins og hækka vörugjaldið, auka með því kostnað heimilanna án þess að taka söluskatt á matvæli til endurskoðunar.
    Ég geri ráð fyrir því að þetta sé þáttur í því víðtæka samkomulagi sem gert hefur verið milli forustumanna flokkanna um inngöngu Alþfl. í Alþýðubandalagsflokkinn þar sem Alþfl. fórnar stefnu sinni í efnahags-, atvinnu- og skattamálum en fær að halda stefnu sinni, a.m.k. um tíma, í utanríkismálum. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. viðskrh. muni svara þeim fyrirspurnum sem fram eru komnar í þessu ljósi. En það væri fróðlegt að vita hvað hinir óbreyttu þingmenn Alþfl. segja í þessu efni. Hv. skrifari þessarar deildar hefur verið iðnastur þeirra alþýðuflokksmanna að fylgjast með umræðum hér í deildinni. Aðrir hv. þingmenn Alþfl. hafa ekki fremur en aðrir hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar séð mikla ástæðu til þess að fylgja stjórninni eftir í umræðum í þinginu. Það væri fróðlegt að heyra sjónarmið hv. skrifara um stefnubreytingu Alþfl. í þessu efni.
    Hér er um býsna alvarlegt mál að tefla. Ekki aðeins er um umskipti að ræða frá því sem áður var, ekki aðeins nýjar álögur á heimilin í landinu heldur er líka verið að gera hér breytingar sem voru svo órjúfanlega tengdar öðrum ákvörðunum í skattlagningu að þær verða ekki ræddar hér án þess að taka þau mál til endurskoðunar á nýjan leik. Það eru engin rök fyrir því að slíta þessar breytingar í sundur svo skömmu eftir að þessi kerfisbreyting var gerð. Það eru hrein svik við neytendur í landinu, fólkið í landinu, að hækka þessi vörugjöld án þess að taka skattinn á matvæli til endurskoðunar. Með svo skýrum hætti voru þessar ákvarðanir samtengdar þegar skattkerfisbreytingin var gerð í fyrra. Ég er alveg sannfærður um að eftir því sem jafngreindur og námfús maður og hæstv. fjmrh. les fleiri erlend blöð þá komist hann betur að raun um, þ.e. með þeirri fræðslustarfsemi sem hann ástundar á stundum með lestri erlendra blaða, að hér er hann að framfylgja afar óskynsamlegri stefnu í skattamálum sem ég trúi ekki að eigi sér hliðstæðu annars staðar jafnvel þó að hann lesi erlend blöð.
    Herra forseti. Þetta mál sem hér liggur fyrir gefur auðvitað tilefni til langra umræðna en það er býsna mikilvægt að það fái ítarlega athugun og skoðun í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Fjölmörg atriði þarf að athuga og skoða og hljóta að koma hér nánar til umræðu þegar málið kemur aftur til 2. umr. En í heild sinni er hér um býsna mikla bíræfni að ræða af hæstv. ríkisstjórn og sennilega færi best á því að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hann væri tilbúinn að falla frá þessari skattheimtu og væri fróðlegt að heyra viðhorf hans í því efni. Ég minni enn á ummæli hæstv. forsrh. sem lagði að hæstv. fjmrh. að gefa a.m.k. eftir helminginn af fyrirhugaðri skattheimtu og það er spurning til hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki

tilbúinn til þess, í ljósi þessara ummæla, að falla frá því óhæfuverki í skattamálum sem hér liggur fyrir.