Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég verð nú að lýsa óánægju með svör hæstv. ráðherra. Þau voru fá og gáfu litlar upplýsingar. Ég mun hins vegar fara að ráðum hans og leita nánari svara við flestum þeim spurningum sem ég var með inni í nefndinni. Ég vil samt endurtaka eina af þeim fjölmörgu spurningum sem ég bar fram. Hún var sú hver ætti að taka þessa hækkun á sig. Er það verslunin sem á að bera þetta ein og sér, og þá er væntanlega verið að tala um nýja skattlagningu á herðar versluninni, eða eru það neytendurnir? Á þetta að fara út í verðlagið? Og ef svo er, hvernig stenst það gagnvart þeim verðstöðvunarlögum sem nú eru í gangi? Eru þau þá úr gildi fallin? Aðeins þessi eina spurning í lokin og ég bið ráðherra vinsamlegast að svara henni.