Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Þetta var hljómmikil ræða, sérstaklega með tilliti til þess hversu framorðið er eins og sést þegar maður lítur á klukkuna. Hún fjallaði að vísu eiginlega ekkert um það sem hér er til umræðu, frv. um vörugjald. Ég vildi fyrst, þótt ég hefði annars ekki hugsað mér að taka hér til við almennar umræður um efnahags- og skattamál, segja það alveg skýrt, þótt hér séu ekki til umræðu tekju- og eignarskattar eða staðgreislukerfið, þá vil ég segja það í þessari hv. þingdeild skýrum orðum: Alþfl. hefur ekki samþykkt nýtt skattþrep í staðgreiðslukerfinu og mun ekki gera. Þetta vildi ég segja alveg skýrt. Hafi hv. 1. þm. Suðurl. ekki gert sér þetta ljóst vona ég að hann geri það nú.
    Í öðru lagi tel ég að honum hafi skotist þótt skýr kunni að vera þegar hann las stjórnmálaályktun flokksþings Alþfl. sem nýafstaðið er. Þar er einmitt lögð áhersla á það að Alþfl. fylgi þeirri grundvallarstefnu í efnahags- og atvinnumálum að nota markaðsúrræði þar sem þau eiga við og einkaframtak og atvinnurekstur á grundvelli markaðsskipulags sé vel til þess fallið í flestum greinum að efla undirstöðu velferðarríkisins, en eingöngu þannig, því þetta er ekki markmið í sjálfu sér. Hafi hann lesið eitthvað annað út úr þessum samþykktum hlýtur hann að þurfa að lesa betur.
    Ég vildi að lokum vegna ummæla hans um Atvinnutryggingarsjóðinn og þau mál sem þar eru til meðferðar benda honum á einn einfaldan hlut, þann að fyrsta fyrirtækið sem hlaut þar lán til skuldbreytinga og endurskipulagningar á fjárhag og rekstri var fyrirtækið Grandi hf. í Reykjavík. ( ÞP: Ég var að tala um ríkissjóð.)