Vörugjald
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur að ég hafi sagt í blaðaviðtali að þetta vörugjald færi ekki út í verðlagið. Ég hef að vísu ekki lesið allar blaðafregnir af þeim ummælum sem ég hafði við fjölmiðla um þetta efni. Ég sagði á þeim fundi alveg skýrt að samkvæmt hefðbundnum útreikningum fyrri ára væri hægt að ætla það að þetta frv. leiddi til um 1 / 2 % hækkunar framfærsluvísitölu og um 3% hækkunar byggingarvísitölu og það sagði ég m.a. hér í minni framsöguræðu. Það er því alveg skýrt. Ég hef ekki dregið neina dul á það.
    Ég benti hins vegar á það þá, eins og ég var að gera hér fyrir nokkrum mínútum síðan, að reynsla undanfarinna mánaða gefur hins vegar tilefni til að ætla að svo verði ekki hvað allar þessar tölur snertir. Það geti orðið mun minna, líkt og varð með gengisfellinguna. Þetta er bara efnahagsleg staðreynd sem menn þurfa að horfa á og gerir það að verkum að hefðbundnar útreikningsaðferðir þensluáranna duga ekki til þess að setja fram spá um þetta efni.
    Varðandi það sem ég sagði áðan um gengisbreytinguna, það er byggt á einhverjum misskilningi. Ég tók þetta sem hliðstæðu, ekki að það væri hið sama, heldur að það væri hliðstæða, að lögin gera ráð fyrir því að skattlagning af þessu tagi veiti rétt til þess að hækka verð vörunnar í þeim mæli og er þess vegna ekki um brot á lögunum eða framkvæmd verðstöðvunar að ræða. Ég held hins vegar að þetta sé efni sem sé betra að skýra út og fjalla nánar um í nefnd þannig að allur vafi sé tekinn af um það efni þótt við séum ekki að eyða tíma hér á fundunum til þess að fara út í það mjög nákvæmlega, enda er þá rétt að hafa lagatexta og annað við hendina.