Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs um þingsköp er ekki ræða síðasta hv. ræðumanns, hæstv. menntmrh. Þó get ég sagt við hann að það voru mjög skemmtileg sinnaskipti hjá Alþb. þegar frv. um verðbréfaviðskipti voru lögð fram og rædd á hinu háa Alþingi því að það frv. var lagt fram til að tryggja þessa verðbréfasjóði í sessi. Alþb. hafði kallað þá okurbúllur áður, en stendur nú að þessu frv. og ætlar sér að fylgja eftir þeirri stefnu sem þar kemur fram. Við munum að sjálfsögðu --- þetta er svar við ræðu hv. síðasta ræðumanns --- ásamt hæstv. menntmrh. fylgja því eftir að þetta mál nái fram að ganga og verða þannig við ósk hans.
    En virðulegur forseti. Það eru tvö önnur mál sem ég vil ræða og varða þingsköp. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að hinn 22. nóv. sl. lagði ég fram tvær fyrirspurnir til hæstv. fjmrh. sem ég sá hér í mýflugumynd rétt áðan en virðist hafa horfið úr salnum aftur. Þessar fyrirspurnir voru annars vegar um sölu spariskírteina og hins vegar um lækkun vaxta á spariskírteinum ríkissjóðs.
    Í. 31. gr. þingskapalaga sem fjallar um fyrirspurnir segir, með leyfi forseta: ,,Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en sex virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Forseti sendir síðan fyrirspyrjanda svarið. Skal prenta fyrirspurn og svar í Alþingistíðindum.`` --- Hér lýkur lestri úr 31. gr. þingskapalaga.
    Nú eru liðnir, a.m.k. hjá almenningi og venjulegum þingmönnum, meira en sex virkir dagar. Fyrri fsp. var sett fram með þeim hætti að óskað var skriflegs svars til þess að hægt væri að svara þeirri síðari. Ég hef ekki orðið var við það, virðulegur forseti, að svarað hafi verið þessari fsp., sem þó er afar auðvelt og tekur mjög stuttan tíma að gera, og ég fer fram á það, virðulegur forseti, að því sé haldið að hæstv. ráðherrum að þeir fylgi þingskapalögum vegna þess að það er mjög mikilvægt að hv. alþm. geti notað þessa þinglegu aðferð en þurfi ekki sýknt og heilagt að vera að biðja um orðið utan dagskrár eða þá um þingsköp vegna þess að hæstv. ráðherrar sinna ekki skyldum sínum. Þetta var annað atriðið og ég skora á virðulegan forseta að beita sér fyrir því að hæstv. ráðherrar sinni sínum skyldum.
    Í öðru lagi, virðulegur forseti, tel ég fulla ástæðu til þess, þar sem ekki hafa fengist nægilega skýr svör um það í umræðum í hv. Nd., að að því sé spurt hvort ekki sé eðlilegt að áliti hæstv. forseta að fyrir liggi þau skattafrv. er hæstv. ríkisstjórn ætlar að fá samþykkt á hinu háa Alþingi og eru forsendur tekjuöflunaráætlunar fjárlagafrv. sem á að ræða við 2. umr. í næstu viku. Ég tel, virðulegur forseti, að það hafi komið skýrt í ljós að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki meiri hluta í Nd. þingsins. Það er ekki verjandi að mínu áliti, og ég óska eftir áliti hæstv. forseta um það, að afgreiða fjárlagafrv. til 3. umr. án þess að fyrir liggi skýrt hvort hv. Alþingi sé tilbúið að samþykkja þá tekjuáætlun og þau skattafrumvörp sem nauðsynlegt er að samþykkja til þess að tekjuáætlun

fjárlaga fái staðist. Ég tel að þetta sé stórmál, ekki sé undir neinum kringumstæðum hægt að búast við því að hv. alþm. gangi í afgreiðslu fjárlaga til 3. umr. fyrr en þetta liggur fyrir.
    Þess heldur legg ég áherslu á þetta atriði, virðulegur forseti, að í útvarpi í gær og í umræðum á Alþingi kom í ljós að Alþfl. styður ekki þau lauslegu áform eða hugmyndir sem hæstv. fjmrh. hefur lýst um tekjuöflun með því að bæta við þrepi í tekjuskatti og enn fremur liggur fyrir að Framsfl., einn stjórnarflokkanna, hefur lýst því yfir að hann styðji ekki svokallaðan happdrættisskatt, öryrkjaskatt, sem hæstv. fjmrh. kýs að kalla spilafíknarskatt. Ég tel þess vegna, virðulegur forseti, fulla ástæðu til að spyrja hvort virðulegum forseta þyki ekki eðlilegt og í anda þingræðisreglunnar að ekki verði lokið 2. umr. fjárlaga fyrr en fyrir liggur skýr vilji þingsins um hvaða skattafrv. eigi að afgreiða þannig að hægt sé að stilla tekjuáætlun 1. gr. fjárlaga við það.