Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Það er réttmæt athugasemd hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni að æskilegt væri að hægt væri að svara fsp. hér eins fljótt og óskað er eftir. Sumar af þeim fsp. sem til mín hefur verið beint eru þess eðlis að ég hef talið nauðsynlegt að afla upplýsinga til að geta svarað þeim á þann hátt að svörin veiti einhverja marktæka lýsingu á því sem beðið er um. Ég get fullvissað hv. þm. um að ekki er á neinn hátt verið að tefja fyrir og ætlun mín er að svo fljótt sem unnt er verði veitt svör við þessum fsp. ( FrS: Hefur hæstv. ráðherra lesið þingskapalögin?) Já, hæstv. ráðherra hefur lesið þingskapalög og þau eru nokkuð skýr. Ég gæti uppfyllt formsatriði þingskapalaganna og komið og veitt svör sem ekki eru eins tæmandi og ég veit að hv. þm. óskar eftir og ég óskaði eftir og tel það eðlilegra hvað málsmeðferð snertir, enda hefur það oft og iðulega gerst bæði á þessu þingi og þinginu þar á undan og er ekki nýtt.
    Varðandi meðferð tekjuöflunarfrv. sagði hv. þm. Pálmi Jónsson fyrir nokkru að fulltrúar Sjálfstfl. óskuðu eftir því að tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar yrðu öll fram komin þegar fjárlagafrv. kæmi til 2. umr. Ég sagði þá að það yrði orðið við þeirri ósk. Við það verður staðið. Mér finnst mikilvægt að það sé ekki verið að breyta þeim kröfum frá einum degi til annars svo að við vitum í raun og veru hvað við erum að tala um.
    Hitt er svo sérmál hvort menn vilja óska eftir því að tekjuöflunarfrv. séu öll afgreidd áður en fjárlagafrv. kemur til 3. umr. Það er mál sem ég hef ekki haft tækifæri til að hugleiða eða ræða og finnst rétt að bíða með afstöðu til þess, en varðandi það atriði sem hv. þm. Pálmi Jónsson óskaði eftir hefur verið ákveðið að verða við þeirri ósk.
    Eins og hér hefur komið fram á Alþingi hefur ríkisstjórnin óskað eftir því að eiga viðræður við flokka stjórnarandstöðunnar um tekjuöflunarfrv. og efnislega meðferð þeirra. Ég var að hefja núna á þessari stundu viðræður við fulltrúa þingflokkanna og hafði rætt við fulltrúa þingflokks Kvennalistans, var að leita að formanni þingflokks Sjálfstfl. og formanni þingflokks Borgfl., var tjáð að formaður þingflokks Sjálfstfl. væri erlendis og ætlaði þá að ræða við varaformann þingflokksins eða formann flokksins um tímasetningu þeirra funda í dag. Það er ákvörðun okkar í ríkisstjórninni að óska eftir þeim fundum í dag og ég vona að það gefist tími til þess þótt annir séu miklar að slíkur fundur geti orðið í dag og þá annar á morgun og laugardag eftir því sem þörf er þannig að stjórnarandstaðan og ríkisstjórnin geti í sameiningu áttað sig á stöðu mála og náð samkomulagi um hvernig best sé að haga meðferð þeirra. Þetta vona ég að greiði bæði fyrir þingstörfum og líka fyrir þeirri eðlilegu ósk hv. þm. Friðriks Sophussonar og fleiri þingmanna Sjálfstfl. og annarra að fá fram hver staðan er hér í þinginu gagnvart einstökum tekjuöflunarfrv.