Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Suðurl. fyrir að hefja þessa umræðu um þingsköp og þakka svör hæstv. ráðherra við þeim fyrirspurnum sem bornar voru fram hérna. Við kvennalistakonur deilum sannarlega áhyggjum með þingmönnum bæði stjórnarandstöðu og vafalaust stjórnarflokkanna líka yfir þeim tímaskorti sem þingið er nú að lenda í þar sem mjög mörg mál eru óafgreidd og ég vil enn fremur taka undir þau orð hv. 1. þm. Reykv., og við höfum reyndar lýst sömu afstöðu hér áður, að það sé ófært að ætla sér að reyna að afgreiða fjárlögin án þess að það liggi ljóst fyrir hvað verði um þau tekjuöflunarfrv. sem lögð hafa verið fram og hljóta að vera undirstaða þess að takist að afgreiða fjárlögin.
    Það var minnst hérna á nokkur af þeim stóru málum sem eru óafgreidd og þar á meðal var minnst á frv. um verðbréfasjóði og verðbréfafyrirtæki og eignarleigustarfsemi sem hafa verið til meðferðar í fjh.- og viðskn. frá fyrstu dögum þingsins. Það hefur vissulega verið unnið þar mikið að þeim málum og verið langir og strangir fundir og ég vildi upplýsa þingmenn um það af því að minnst var á þessi mál að þangað hafa borist mjög langar og miklar umsagnir og m.a. miklar athugasemdir frá jafnvel höfundum frv. svo það er kannski ekki að undra að þessi frv. hafa ekki enn verið afgreidd út úr nefndinni og ekki útséð um að það takist fyrir jól ef litið er til þess að formaður nefndarinnar er ekki á landinu eins og er þó að aðrir nefndarmenn muni að sjálfsögðu reyna að vinna. En það er mjög margt annað sem þingmenn þurfa að sinna svo það hefur gengið illa að halda aukafundi í nefndinni.
    Það var minnst hérna á þingmál sem ekki hafa fengið afgreiðslu, fsp. Ég minni af því tilefni á fsp. sem voru lagðar fram mjög snemma og hafa ekki fengist svör við. Þar er fsp. á þskj. 16 til fjmrh. um tekjur einstaklinga frá hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur og Kristínu Einarsdóttur. Þetta þingmál kom fram mjög snemma á þinginu og við því hefur ekki fengist svar. Sömuleiðis fsp. til fjmrh. um tekjuskatt ríkisstarfsmanna sem er 17. mál þessa þings. Og ég minni aftur á skýrslubeiðni sem ég og átta aðrir þingmenn úr þremur þingflokkum lögðu fram og er á þskj. 73, beiðni um skýrslu frá forsrh. um stöðu og rekstur fiskvinnslufyrirtækja. Ég hlýt að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta að hún ýti á eftir því að þessi þingmál verði afgreidd eða þessum fsp. verði svarað.
    Ég vil svo ekki hafa þessi orð um þingsköp lengri nema tilefni gefist til en taka aðeins undir að við hljótum að fara að ganga frá eða reyna að ná einhverju samkomulagi um þinghaldið þar sem tíminn er orðinn mjög naumur með tilliti til allra þeirra stóru mála sem við eigum eftir að afgreiða.