Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil geta þess vegna ræðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur að ég setti þegar í gang vinnu til að geta svarað þeim tveimur fsp. sem hún vék að og beint var til mín. Þær voru mjög viðamiklar og kröfðust ítarlegrar upplýsingaöflunar og embættismenn fjmrn. hafa tjáð mér eftir að hafa ráðfært sig við sérfræðinga og embættismenn annarra stofnana að það sé því miður margra vikna, kannski fáeinna mánaða verk að taka saman þær upplýsingar sem þar er beðið um. Ég er alveg reiðubúinn að ræða það utan fundar við fyrirspyrjanda í þessu máli til þess að það fari ekkert á milli mála í hverju vandinn er fólginn til að veita þær ítarlegu upplýsingar sem þarna var beðið um.
    Ég vil svo vegna þeirrar ræðu sem hér var flutt síðast geta þess, eins og ég hef reyndar sagt áður, að ríkisstjórnin hefur á þeim skamma tíma sem hún hefur haft til stefnu bæði unnið að mótun tekjuöflunarfrv. og tillagna um niðurskurð. Ríkisstjórnin hefur talið sér skylt í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu að skoða frekari tillögur um niðurskurð. Enn fremur að skoða einnig mjög ítarlega tillögur um tekjuöflun. Ég þekki ekki náið til vinnubragða í fjvn. í gegnum tíðina vegna þess að ég hef ekki setið þar. Mér var þó tjáð af formanni fjvn. að sá fundur sem haldinn var í gær væri með eðlilegum hætti og til þess að veita möguleika á því að þingmenn einstakra kjördæma gætu í dag fjallað um skiptingu fjárveitinga í skólamál, heilbrigðismál og aðra málaflokka í viðkomandi kjördæmum. Mér hefur verið tjáð af mörgum að slíkir fundir verði í einstökum kjördæmum í dag sem er eðlilegur þáttur í undirbúningi 2. umr. um fjárlagafrv.
    Vandinn er mikill og stjórnarandstöðuflokkarnir þurfa auðvitað líka að taka þátt í þeim vanda. Þess vegna held ég að sá tími sem liðið hefur undanfarna daga hafi líka verið gagnlegur, vona ég, fyrir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna, að þeir hugleiði og skoði hver hjá sér hvaða tillögur um niðurskurð eða hvaða tillögur um tekjuöflun þeir kynnu að hafa. Ég er ekkert að mana þær tillögur fram hér og nú. Ég hef sagt það áður að mér finnist eðlilegt að þær komi fram á sínum tíma vegna þess að það er alveg ljóst að ef menn ætla ekki að halda áfram á þeirri braut að reka okkar þjóðarbú, velferðarkerfi og aðra þjónustu fyrir erlent lánsfé þarf að taka mjög erfiðar ákvarðanir bæði í tekjuöflun og niðurskurði. Ég hef lýst því sem mínum vilja að ég tel að það eigi að vera sameiginlegt verkefni allra þingflokka eftir því sem hægt er og þær viðræður, sem við höfum hafið og ég lýsti hér áðan úr ræðustól að við væntum að geti haldið áfram í dag þrátt fyrir miklar annir og á morgun og næstu daga, geti orðið vettvangur þar sem menn geta rætt þetta nánar utan þingfunda. Það verður hins vegar staðið við það loforð, sem gefið var hv. þm. Pálma Jónssyni, að tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar munu liggja fyrir þegar 2. umr. um fjárlögin fer fram.
    Ég vona að hv. Alþingi sjái sér fært að afgreiða

þessi mál fyrir jól. Ég tel að það sé kannski fyrst og fremst spurning um pólitískan vilja og almennt verklag og það eigi að vera hægt ef við lítum yfir reynslu undanfarinna ára.