Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það hefur komið fram hvers vegna hv. 1. þm. Reykv. flytur ekki vantraustið. Það liggur ljóst fyrir að þeir sem mynda stjórnarandstöðuna eru ekki sammála um þá hluti. Talsmaður Kvennalistans lýsti því yfir að það væri ekki áhugi í þeirra herbúðum á að standa að vantrausti eins og mál standa. ( KH: Það hefur ekki verið rætt í stjórnarandstöðunni. Auk þess eru engar herbúðir hjá Kvennalistanum.) Það er náttúrlega enn þá merkilegra af því að þetta eru baráttusamtök að þar skuli engar herbúðir vera. En það er greinilegt að það er margt sem þörf er á að ræða þar innan dyra.
    Hins vegar þótti mér það merkilegra en allt annað að hv. 1. þm. Suðurl. getur haft áhyggjur. Ég hafði á sínum tíma verulegar áhyggjur þegar hann var forsrh. og þær fóru dagversnandi. En ég sá ekki annað en það væri alsæll maður sem yfirgaf þetta land til Vesturheims og teldi að það væri engar áhyggjur að hafa af málum hér heima. Þess vegna þykir mér merkilegt og enn þá merkilegra að þegar lítur út fyrir að það verði afgreidd fjárlög að þeirra eigin dómi í samræmi við aðalstefnu talsmanns Sjálfstfl. í efnahagsmálum, Eykons, þá rísa þeir upp á afturlappirnar og mótmæla slíku og hafa þar með lýst því einnig yfir að það sé einhugur í flokknum. Sé einhugur í flokknum hlýtur þar að vera einhugur um að hér eigi fjárlög að vera með halla því það hefur hvergi frést að hv. 8. þm. Reykv. hafi skipt um skoðun. Hann hefur staðið að þessari skoðun sinni mjög dyggilega og sá sem framkvæmdi skoðun hans í verki á sínum tíma var hv. 1. þm. Suðurl.