Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þeirra gagnrýnisradda sem fram hafa komið um að svör við fyrirspurnum berist seint og jafnframt að skýrslur berist líka seint þegar um þær er beðið, þá hlýtur forseti að upplýsa að engin tímamörk eru á því að skýrslur berist samkvæmt beiðni um þær. Það má vera að forseti gangi ekki nógu rækilega eftir því að menn biðji um skýrslur í stað þess að bera fram skriflegar fyrirspurnir þegar mál eru þess eðlis að nær væri að biðja um skýrslu og forseti mun gæta þess framvegis. Það er ekki hægt að ætlast til að ráðherrar skili skriflegu svari við fsp. sem felur í sér margra vikna og jafnvel mánaða vinnu fyrir starfsmenn ráðuneytanna. Þess vegna skal gengið betur eftir því að hv. þm. biðji fremur um skýrslu en beri fram fyrirspurnir sem krefjast skriflegra svara á svo skömmum tíma.
    Forseti vill jafnframt upplýsa að forsetar hafa reynt að hafa samstarf við þingflokkana og eftir því verður gengið að þinghald fari fram í góðri samvinnu við formenn allra þingflokka.
    Ég vænti þess nú að þessari umræðu um þingsköp fari að ljúka.