Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu, en að gefnu tilefni vegna síðustu ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar vil ég lýsa því yfir að við munum eðlilega vera reiðubúin að finna okkar viðræðum það form og beita þeim starfsaðferðum sem stuðla að efnislegum umræðum. Það er alveg hárrétt, sem hann sagði, að það eru ekki bara fulltrúar þingflokkanna eða forusta þeirra sem hér á hlut að máli heldur einnig forusta flokkanna. Ég hef hins vegar kosið að setja þessar óskir fram samkvæmt þingvenjum við forustu þingflokkanna, en við munum beita okkur fyrir því að það geti þá orðið það form á þessum efnislegu umræðum sem stuðlar að því að fulltrúar einstakra flokka og ríkisstjórnar geti á auðveldan og fljótvirkan hátt rætt málin efnislega og velji til þess þá fulltrúa og þær aðferðir sem skila jákvæðum árangri.