Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að verða jafnlangorð og hv. 5. þm. Reykv. sem hafði mikla samúð með hæstv. forseta vegna mikilla umræðna hér. En vegna orða hv. þm. um hugsanlegan kostnað vegna fsp. Kvennalistans og fsp. þingmanna yfirleitt vil ég nú aðeins segja það að auðvitað eiga þingmenn ekki að sýna neitt kæruleysi í þessum efnum og það getur oft verið matsatriði hvort um réttlætanlegan kostnað sé að ræða. Við mátum það svo í þeim tilvikum sem ég nefndi áðan og við eigum satt að segja mjög bágt með að trúa því að þetta sé svo gífurlegt verk og kostnaðarsamt. Annað eins hefur verið unnið í Þjóðhagsstofnun og Hagstofu og hagdeildum. Þarna er beðið um upplýsingar sem eru nauðsynlegar ef menn ætla að ræða af einhverju viti eða jafnvel af skynsamlegu viti, eins og hæstv. forseti orðar það stundum, um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.