Tryggingarsjóður sjúklinga
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Hv. 3. þm. Vestf. hefur ásamt þremur öðrum hv. þingmönnum borið fram fsp. til heilbr.- og trmrh. sem hann hefur gert grein fyrir. Ég mun fyrst og fremst í svari mínu beina orðum mínum að því sem fram kemur í fsp., þ.e. hugmyndum um sérstakan tryggingasjóð, en a.m.k. á þessu stigi leiða hjá mér umræður um hvort og í hve miklum mæli mistök kunna að hafa orðið við læknisaðgerðir, en get þó að sjálfsögðu tekið undir með hv. fyrirspyrjanda að fjöldi slíkra mála hefur komið upp að undanförnu. Trúlega er það mjög vaxandi eins og hann sagði í umræðunni. Mörg þeirra mála hefur verið reynt að leysa á einn eða annan hátt án þess að þau þyrftu að fara í gegnum það erfiða og oft og tíðum tímafreka dómskerfi sem við búum við. Það er kannski ekki rétt að segja erfiða dómskerfi, en það er óhætt að segja tímafreka dómskerfi sem við búum við sem auðvitað vill vinna vel og nákvæmlega. Það tekur allt tíma og það er oft mjög erfitt fyrir þá einstaklinga sem eiga um sárt að binda að fara þessa leið eins og fyrirspyrjandi nefndi, og þess vegna hefur líka oft verið tekið á málum án þess að fara dómstólaleiðina og reynt að leysa þau með öðrum aðferðum.
    Á undanförnum árum hafa átt sér stað jafnt hér á landi sem og í nágrannalöndunum umræður um einhvers konar tryggingar til einstaklinga sem af einhverjum ástæðum hljóta heilsutjón vegna aðgerða eða aðgerðaleysis heilbrigðisstarfsfólks án þess að endilega þurfi að vera um mistök eða vanrækslu að ræða. Er um að ræða tryggingar sem greiða mundu hærri bætur en sjúkratryggingar samkvæmt almannatryggingalögum greiða. Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um það hvort rétt sé að koma á fót sérstakri tryggingu í þessu skyni og hafa verið færð rök fyrir slíku kerfi sem og mótrök. Í nágrannalöndunum hefur verið gripið til trygginga af þessu tagi þótt þær séu ærið ólíkar að umfangi og skipulega séð. Ef litið er til Norðurlandanna eingöngu hafa Svíar starfrækt slíkar tryggingar frá árinu 1975, þ.e. svokallaða ,,patientförsakring``. Þar liggja engin lög að baki heldur er um frjálsa samninga að ræða þar sem eigendur heilbrigðisstofnana, sem eru landsþingin, kaupa tryggingu hjá hálfopinberu fyrirtæki sem rekið er af þremur stærstu tryggingafélögunum og starfar sem sjálfstætt tryggingarfélag. Í Finnlandi hafa hins vegar verið sett lög á þessu sviði, en fjármögnunin er svipuð og í Svíþjóð, þ.e. greidd eru iðgjöld frá eigendum heilbrigðisstofnana og tryggingin eða reglur um bætur eru í stórum dráttum eins. Svipuðu kerfi hefur verið komið á laggirnar í Noregi til reynslu frá 1. jan. sl. og á að reyna það í þrjú ár.
    Hér á landi hafa engin sérstök lög gilt um slík atriði, heldur hefur verið stuðst við reglur almenna skaðabótaréttarins, þ.e. ef um hefur verið að ræða mistök eða vanrækslu í starfi heilbrigðisstétta. Á síðari árum hafa greiðslur verið samþykktar vegna tjóna þótt ekki liggi fyrir að um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða. Þannig má segja að réttur sjúklinga til bóta

hafi verið viðurkenndur og sú viðurkenning nái lengra en reglur almenna skaðabótaréttarins mæla fyrir um. Því er það álitamál hvort ástæða sé til að breyta þeirri framkvæmd sem fylgt hefur verið á undanförnum árum með þeim kostnaði sem því mundi fylgja að koma upp nýju tryggingakerfi því alls ekki er gefið að réttur sjúklingsins verði meiri þrátt fyrir það.
    Hvað sem líður öllum bollaleggingum um sjúklingatryggingar, þar sem vegast á rök og mótrök, hefur landlæknir skilað tillögum að frv. til laga um tryggingasjóð sjúklinga er gert verði að greiða bætur vegna heilsutjóns sem rekja megi til heilbrigðisstofnana eða heilbrigðisstarfsmanna án þess að sannað verði að um vítavert gáleysi sé að ræða. Tillögur þessar voru afhentar ráðuneytinu á sl. sumri og hafa verið til athugunar þar auk þess sem Tryggingaeftirlitið, Tryggingastofnun ríkisins og ríkislögmaður hafa verið beðin um álit.
    Í tillögu landlæknis koma fram tillögur um tryggingasvið og er m.a. reiknað með því að það nái bæði yfir líkamlegt svo og andlegt tjón og er lagt til að nægjanlegt sé að öll líkindi bendi til að tjónið sé þess eðlis að það hafi ekki verið eðlileg afleiðing þeirrar aðgerðar sem nauðsynleg var talin. Þannig er lagt til að bætt verði tjón ef afleiðingar verða óeðlilega miklar miðað við áhættuna en ekki tjón sem samræmist eðlilegri áhættu við rannsókn eða meðferð á slysi eða sjúkdómum sem hefur lífshættu í för með sér eða getur valdið verulegri örorku. Á þennan hátt er landlæknir óbeint að leggja til að lögfestar verði reglur sem nánast taka mið af reglum almenna skaðabótaréttarins, þ.e. ef eitthvað hafi farið úrskeiðis án þess að grafist verði fyrir um ástæðurnar.
    Samkvæmt tillögum landlæknis er reiknað með að svokölluð úrskurðarnefnd, skipuð þremur aðilum, fjalli um og úrskurði bætur undir slíkum kringumstæðum. Reiknað er með að hægt sé að stefna úrskurðum nefndarinnar fyrir almenna dómstóla þannig að dómsstigin yrðu í reynd þrjú þegar upp væri staðið. Hver yrði þá ávinningur að þessu er erfitt að segja til um á þessu stigi.
    Jafnframt er rétt að benda á það að samkvæmt 5. gr. laga nr. 59 frá 1983,
um heilbrigðisþjónustu, er gert ráð fyrir sérstakri kvörtunarnefnd sem ætlast er til að allir geti lagt mál sín fyrir ef þeir telja sig hafa beðið tjón eða verið órétti beittir innan heilbrigðiskerfisins. Vaknar því sú spurning hvort ástæða sé til þess að viðhalda þessu fyrirkomulagi ef sett verða lög um Tryggingasjóð sjúklinga þar sem reynslan hefur sýnt, ekki síst hjá öðrum þjóðum, að kvartanir og kærur á hendur heilbrigðisstéttum byggjast yfirleitt á því að menn fái bætur.
    Eins og áður hefur komið fram hefur ráðuneytið þegar leitað álits þriggja aðila á tillögum landlæknisins og eru þau svör nú að berast ráðuneytinu. Ráðuneytið hefur m.a. farið fram á upplýsingar um fjölda mála sem vísað hefur verið til ríkislögmanns, hvaða afgreiðslu þau hafa fengið hjá ríkislögmanni og hversu mörgum hefur verið stefnt til dómstóla. Ekki er hægt

að ákveða endanlega fyrr en þessi álit liggja fyrir hvort gripið verður til þess ráðs að leggja fram frv. um Tryggingasjóð sjúklinga eða hvort ástæða sé til að leita annarra lausna en landlæknir leggur til.
    Virðulegur forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Víst er að fara verður með mikilli gát í lagasetningu varðandi tryggingar sem snerta ótiltekinn og ótilgreindan hóp einstaklinga. Þetta er það meginmál sem ég vil láta koma fram sem svar við fsp. hv. þm. en ítreka það og árétta að málin eru í skoðun hjá heilbrrn. Við bíðum eftir umsögnum frá aðilum sem eðlilegt er að fjalli um þetta og þegar þær hafa allar borist munum við taka málið til umfjöllunar og ákvörðunar um áframhaldandi málsmeðferð.