Tryggingarsjóður sjúklinga
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Virðulegur forseti. Mig langar fyrst til þess að spyrjast fyrir um það hvaða ávarpsorð hv. þingmenn eiga að viðhafa þegar virðulegur forseti sem nú situr er í forsetastól. Ég heyri að menn segja bæði herra og frú, hvorutveggja sameiginlega. Ég vildi gjarnan vita það frá hæstv. forseta hvaða ávarpsorð hún kysi helst að notað væri af hv. þm. ( Forseti: Forseti hefur ekki hugsað það mál ítarlega en vitnar í forvera sinn, fyrrv. hæstv. forseta Sþ., sem hélt því fram að forseta bæri að ávarpa sem hæstvirtan, en öll þau ávörp sem ég hef notið hér hef ég fyllilega sætt mig við svo að ég held að þetta verði að vera að vilja hvers einstaks hv. þingmanns.)
    Þá segi ég: Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram vegna ræðu síðasta ræðumanns að hér er ekki verið að koma af stað umræðu til þess að gagnrýna læknastéttina. Ég held að hún, læknastéttin sem slík, geti haft gott af slíkri umræðu. Það sé henni nauðsynlegt að vita af því að fólk fylgist með verkum lækna eins og annarra manna í þjóðfélaginu. Því aðeins er hægt að bæta um að menn hafi aðhald og til þess er þessi fsp. sett fram, vegna þeirrar reynslu sem mér finnst að ég hafi gengið í gegnum og margir fleiri kannski miklu verri en ég hef sjálfur reynt. Ég vil ekki tjá mig um það hvaða aðferð er æskilegust til að koma þessu í lag. Ég hef ekki þekkingu til þess. Það kann vel að vera að það þurfi ekki að vera tryggingasjóður af hálfu ríkisins sem slíkur. Það getur verið hægt að koma því fyrir á margan hátt, en númer eitt er að slík tilfinning vakni hjá þeim sem ráða ferðinni að hér verði bót á ráðin þannig að einstaklingar sem fyrir þessu verða gangi ekki frá, auk þjáninga, slyppir og snauðir fjárhagslega. Það er númer eitt að hægt sé að tryggja þeim, ja ég vil nú ekki segja mannsæmandi líf, heldur eðlilegt líf í áframhaldi af þeim raunum sem þeir hafa gengið í gegnum vegna slíkra mistaka og það á þjóðfélagið að sjá um.