Sala á sælgæti
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta fyrir það að gera þarna svolitla breytingu á dagskrá, taka þessa fsp. upp strax á eftir hinni og vona að það komi ekki að sök hjá öðrum hv. þingmönnum sem hér eiga þó sín mál á dagskránni.
    Hv. fyrirspyrjandi hefur beint til mín fsp. um sölu á sælgæti og sætum drykkjum sem e.t.v. má velta fyrir sér hvort eigi að beina til heilbr.- og trmrh., kannski fremur til viðskrh., en ljóst er að efnið sem hér er um fjallað hlýtur að vera mál sem verulega varðar heilbrigðisyfirvöld og því fagna ég því tækifæri að fá að láta í ljós skoðanir mínar á þessum málum. Þessar fsp. eru báðar athyglisverðar og beina huganum að vandamáli sem ráðuneytið hefur verið að benda á og reyna að finna leiðir til að breyta og bæta úr á undanförnum árum. Þetta hefur fyrst og fremst verið gert í sambandi við tannverndarstarf ráðuneytisins en einnig í sambandi við þann almenna áhuga sem ráðuneytið hefur á manneldissjónarmiðum og manneldismarkmiðum og á neysluvenjum fólks.
    Hvað fyrri spurninguna varðar er fyrirkomulag verslunarmála almennt og turnasölu sérstaklega ekki á valdsviði heilbr.- og trmrn. eins og ég reyndar nefndi áður. Veiting leyfa til kvöldsölu og staðarval slíkra staða er ákveðin af viðkomandi sveitarfélögum hér á landi. Ráðuneytið hefur látið gera könnun á slíkri kvöldsölu og í nóvember kom í ljós að alls voru kvöldsölustaðir hér á landi 335, þar af voru 170 í Reykjavík en 37 í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Í Reykjavík er einn kvöldsölustaður á 550 íbúa, en víða utan Reykjavíkur er einn slíkur staður fyrir 200--400 íbúa. Til samanburðar hefur ráðuneytið upplýsingar um að í Helsingfors er einn slíkur sölustaður fyrir hverja 1200 íbúa, þannig að allmiklu fleiri slíkir kvöldsölustaðir eru hér hjá okkur.
    Í september 1987 ritaði tannverndarráð sem starfar á vegum ráðuneytisins öllum sveitarstjórnum landsins bréf þar sem vakin var athygli á þessum málum og jafnframt kynnt hvaða reglur gilda um þessi mál í Noregi, en þar er sama fyrirkomulag og hér, að sveitarfélög taka ákvarðanir um staðarval. Ráðuneytið hefur ekki orðið vart viðbragða, því miður, frá sveitarfélögunum við þessari málaleitan og sama máli gegnir reyndar einnig um síðari spurningu hv. fyrirspyrjanda þar sem spurt er um hvort fyrirhugað sé að setja reglur hér á landi um uppstillingu sælgætis í verslunum. Ráðuneytið telur að hér sé um að ræða mál sem verslunaraðilar eigi að taka tillit og afstöðu til og getur á það bent að 1974 voru þessi mál tekin upp í Noregi og verslunaraðilum bent á að staðsetja sælgæti ekki nálægt greiðslukössum verslana þar sem það yrði mest til freistingar fyrir ungmenni.
    Á þetta sama atriði var bent í bréfi því sem sent var til allra sveitarstjórna í september 1987. Ráðuneytið hefur heldur ekki orðið vart neinna viðbragða við þessum ábendingum og athugasemdum.
    Í októbermánuði sl. ritaði ráðuneytið heilbrigðisráði Reykjavíkurborgar í framhaldi af vatnsherferð sem

tannverndarráð beitti sér fyrir fyrr á árinu og óskaði eftir að athugað yrði hvort ekki væri hægt að setja útbúnað til vatnsdrykkju í skóla, í íþróttahús, við sundstaði og aðrar stofnanir borgarinnar. Á það var bent að á þessum stöðum væru víða komnir sjálfsalar fyrir gosdrykki en engin aðstaða til vatnsdrykkju, þ.e. ekki þessir einföldu og sjálfvirku vatnshanar sem mjög mundu hugsanlega geta breytt neysluvenjum fólks. Með þessum ábendingum voru sendar nýlegar ljósmyndir frá Bandaríkjunum þar sem slíkur útbúnaðar þykir sjálfsagður, m.a. í stórmörkuðum og samkomuhúsum. Of snemmt er að segja til um hvort viðbrögð verða við þessum ábendingum en heilbrrn. væntir þess svo sannarlega að svo verði.
    Að öðru leyti verð ég að ítreka það að við höfum ekki í heilbrrn. aðrar aðferðir hvað þessi mál varðar sem hér er spurst fyrir um, en að beina tilmælum til þeirra sem með málin fara og við höfum sannarlega áhuga á því að fylgja því enn betur eftir en okkur hefur þó tekist hingað til.