Hækkun póstburðargjalda
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Svo sem kunnugt er gerðist það hinn 16. okt. sl. að póstburðargjöld hækkuðu fyrir bréf, póstkort og prent innan lands og til Norðurlandanna úr 18 kr. í 19 kr. eða um 5,55%. Hækkun þessi var ákveðin í júlí sl., þ.e. fyrir gildistöku bráðabirgðalaga nr. 83 28. sept. 1988, en í bráðabirgðalögum nr. 14 frá 20. maí 1988 segir í 7. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frá gildistöku laga þessara skulu hækkanir á gjaldskrám ríkisfyrirtækja háðar samþykki ríkisstjórnarinnar.``
    Þessu ákvæði er breytt með bráðabirgðalögunum nr. 83 því 16. gr. þeirra hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,7. gr. bráðabirgðalaga nr. 14 20. maí 1988 orðast svo:
    Gjaldskrár ríkisfyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu ekki hækka til 28. febr. 1989. Þó skal heimilt að taka tillit til hækkana á verði innfluttra aðfanga, enda liggi fyrir mat Verðlagsstofnunar á þeirri þörf.``
    Forráðamenn Pósts og síma hafa í fjölmiðlum reynt að réttlæta þessar hækkanir, en ekki reyndu þeir þó að halda því fram að orsökin væri hækkun á innfluttum aðföngum, heldur einungis með því að hækkunin hefði verið ákveðin og birt fyrir gildistöku verðstöðvunarlaganna. Þó má öllum vera ljóst að gjaldskrá sem þessi hlýtur að víkja fyrir lögum. Verðstöðvunarlögin ógilda hækkunarákvæði þau sem voru í gjaldskrá Pósts og síma nr. 346 12. júlí 1988 og á það má benda að í birtum samningum opinberra starfsmanna, sem gerðir voru fyrir gildistöku fyrri bráðabirgðalaganna, voru ákvæði um hækkun sem ekki komu til framkvæmda. Þess vegna er þessi mismunun illskiljanleg. Það hljóta að vakna spurningar hjá almenningi um hvað búi að baki slíkri ráðstöfun. Því hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. samgrh. á þskj. nr. 81:
    ,,Hvaða forsendur eru fyrir hækkun póstburðargjalda þrátt fyrir verðstöðvun samkvæmt lögum?``