Hækkun póstburðargjalda
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það nálgast nú óðum blessuð jólin og fer vel á því þegar rætt er þetta mál um hækkun póstburðargjalda sem gjarnan hefur manna á meðal gengið undir nafninu ,,málið um jólafrímerkin``.
    16. júlí sl. hækkuðu póst- og símaþjónustugjöld að meðaltali um 15%. Þessi hækkun var vegna breytinga á almennum forsendum að undangengnum kostnaðarhækkunum, svo sem vegna kjarasamninga og gengisfellinga sl. vor sem höfðu veruleg áhrif á tilkostnað Póst- og símamálastofnunar. Til að ná jöfnuði í greiðslustöðu stofnunarinnar á árinu 1988 hefði þurft að hækka gjaldskrár um u.þ.b. 24% miðað við óbreytt rekstrarumfang og fjárfestingu frá fjárlögum. Það var hins vegar metið svo að þessa greiðslustöðu fyrirtækisins yrði að lagfæra á lengri tíma og því var ekki stefnt að greiðslujöfnuði í lok þessa árs.
    Tekjur fyrir póstþjónustu eru nú um 25% af heildartekjum Pósts og síma og þar vega langþyngst tekjur af 20 gramma almennum bréfum innan lands og til Norðurlandanna. Fyrir hækkunina 16. júlí sl. voru þessi burðargjöld 16 kr. Þegar hækkun á þessum burðargjöldum, sem mest vægi hafa, er ákveðin er aðallega haft tvennt í huga: Í fyrsta lagi að hækkunin sé sem næst heimilaðri meðaltalshækkun nema annað sé sérstaklega ákveðið og í öðru lagi að frímerki séu fyrir hendi til þess að nota.
    Eins og fyrr segir var þessi heimilaða hækkun 16. júlí sl. 15%. Hækkun í 18 kr. er því 12,5% og hækkun í 19 kr. 18,75%. Það var því ljóst að báðir þessir valkostir, þ.e. 18 kr. og 19 kr. voru nokkuð frá hækkunarheimildinni sem þegar hafði verið gefin. Það var því ákveðið að skipta þessari hækkun á þessu eina burðargjaldi í tvo áfanga. Hækka strax í 18 kr. og í 19 kr. síðar á árinu, nánar tiltekið 16. okt. Þannig yrði hækkunin nær heimiluðu meðaltali miðað við árið í heild, en álitið var að endurskoðun gjaldskrár færi næst fram um áramótin við afgreiðslu fjárlaga. Þannig afsalaði Póstur og sími sér um nokkurra mánaða skeið hækkunarheimild upp á 2,5%, þ.e. hækkaði einungis í 12,5% í staðinn fyrir þau 15% sem höfðu verið leyfð. Það má því segja að neytendur hafi á þeim tíma notið þess að stofnunin nýtti sér ekki að öllu leyti þá hækkunarheimild sem hún hafði fengið. Þessi ákvörðun var birt í gjaldskrá nr. 346/1988 í Stjórnartíðindum og þetta er undirritað 12. júlí með gildistöku 16. júlí. Sú hækkun sem hér um ræðir er því hluti af gjaldskrárbreytingunni sem ákveðin var 16. júlí og öðlaðist gildi fyrir umrædd bráðabirgðalög.
    Það var leitað umsagnar Verðlagsstofnunar á því hvort hækkunin 16. okt. bryti í bága við ákvæði bráðabirgðalaganna frá 28. sept. 1988. Niðurstaðan varð sú að svo væri ekki. 18 kr. frímerkin höfðu verið gefin út 9. júní og voru því fyrir hendi þegar umrædd hækkun í 18 kr. tók gildi 16. júlí. En ákveðið hafði verið þá þegar að 19 kr. frímerki kæmu út 3. nóv. á þessu ári og yrðu þau aðalfrímerkin til nota fyrir þessi jól sem í hönd fara. 18 kr. frímerkin seldust fljótt upp

eins og gert hafði verið ráð fyrir, enda ekki reiknað með að þau yrðu notuð lengur en til haustsins. Það er rétt að taka fram í þessu samhengi að það tekur nokkra mánuði að undirbúa og gefa út ný frímerki frá því að ákvörðun um slíkt hefur verið tekin.
    Vegna þess að það var auðvitað óheppilegt að svo skyldi bera að og umdeilanlegt að þessi hækkun tæki gildi miðað við verðstöðvunarlögin er rétt að vekja sérstaklega athygli manna á þessum tæknilegu atriðum málsins. Ég lét kanna það sérstaklega hvað það hefði í för með sér ef fallið yrði frá þessari hækkun engu að síður, þrátt fyrir það að Verðlagsstofnun mat hana ekki brjóta í bága við verðstöðvunarlögin, og það var upplýst að umtalsvert óhagræði og kostnaður mundi hljótast af því að ekki tækist þá að nýta þessi frímerki sem fyrir löngu hafði verið ákveðið að gefa út og raunar heimilað að gera samkvæmt gjaldskrá. Af því hefði því orðið óhagræði og tjón sem neytendur stofnunarinnar hefðu væntanlega orðið að greiða fyrir síðar í hærri gjöldum.
    Að öllu þessu samanlögðu var það niðurstaða málsins að heimila þessa hækkun eins og gert hafði verið ráð fyrir og gera ekki athugasemdir við að áður auglýst gjaldskrá Pósts og síma gengi fram svo sem ákveðið hafði verið á miðju sl. sumri.