Dagskrárgerðarsjóður Evrópuráðsins
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Kvikmyndagerð og dagskrárgerð fyrir sjónvarp hefur verið með miklum blóma á Íslandi og í rauninni er það aðdáunarvert hvað Íslendingar hafa náð miklum og góðum árangri á þessu sviði þegar tekið er tillit til þess hversu fámenn þjóðin er.
    Kvikmyndasjóður hefur stuðlað að þessari velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar og hafa yfirvöld yfirleitt gert vel við Kvikmyndasjóð þannig að hann hefur fengið framlag sem nemur söluskatti af seldum aðgöngumiðum til kvikmyndahúsa og er ætlað að 71 millj. kr. fari til Kvikmyndasjóðs á fjárlögum fyrir árið 1989. Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs munu liggja fyrir umsóknir hjá sjóðnum að upphæð sem nemur 500 millj. kr. sem sýnir hver áhugi manna er á þessu sviði. Það er náttúrlega alveg ljóst að Kvikmyndasjóður getur með engu móti komið til móts við allar þessar umsóknir.
    Hins vegar fékkst það upplýst af framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs sem er mjög athyglisvert að um 1 / 3 hluti allra þeirra kvikmynda sem sjóðurinn hefur styrkt hefur fengið verðlaun á erlendum vettvangi sem sýnir hvað við höfum náð miklum árangri á þessu sviði eins og ég gat um í upphafi máls míns. Hins vegar er því ekki að leyna að veður eru válynd í þessum efnum og áhrif afþreyingarefnis sem streymir hér inn, aðallega í gegnum sjónvarp, frá Bandaríkjunum og Englandi veldur því að áhrif ensku á tungu okkar fara sívaxandi.
    Á vegum Norðurlandaráðs hefur verið lögð fram tillaga um að stofna norrænan kvikmyndasjóð, en það mál er í athugun og hefur ekki enn þá náð fram að ganga. Nú hefur Evrópuráðið tekið af skarið og stofnað evrópskan kvikmyndasjóð sem hefur stofnframlag upp á 50 milljónir franskra franka. Það eru nefnilega fleiri lönd í Evrópu en Íslendingar sem hafa áhyggjur af ágangi bandarísks afþreyingarefnis og áhrifum enskunnar á tungumál Evrópulandanna. Það er alveg ljóst þegar maður les upplýsingar um þennan nýja kvikmyndasjóð Evrópuráðsins að það liggur þar á milli línanna að hugmyndin er að styrkja dagskrárgerð og kvikmyndagerð á vegum Evrópulandanna til þess að hamla gegn þessum ágangi enskrar tungu og bandarísks afþreyingarefnis. Þegar hafa 12 þjóðir staðfest þátttöku sína í sjóðnum, þ.e. Belgía, Kýpur, Danmörk, Frakkland, Vestur-Þýskaland, Grikkland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Portúgal, Spánn og Svíþjóð. Síðan er sagt að önnur ríki hugi að þátttöku í sjóðnum. Þessi sjóður er stofnaður í tilefni af evrópska kvikmynda- og sjónvarpsárinu 1988.
    Hér sýnist mér kærkomið tækifæri fyrir Íslendinga að gerast aðilar og leita eftir stuðningi með þessum hætti við kvikmyndagerð og sjónvarpsgerð þá sem fer fram á vegum Íslendinga. Hugsanlega er hægt að fá fjármagn í gegnum þennan sjóð í samstarfi við hin Evrópulöndin. Því spyr ég hvort menntmrh. fyrirhugi fyrir hönd Íslendinga að gerast aðili að þessum sjóði.