Bann við ofbeldiskvikmyndum
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Í byrjun desember á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur frv. til l. um breytingu á lögum nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum. Breytingin sem við lögðum til var gerð til að koma í veg fyrir að lögin féllu úr gildi við síðustu áramót og hún var fólgin í því að fella á brott sólarlagsákvæði sem sett voru í lögin við samþykkt þeirra. Frv. okkar var samþykkt og lögin því framlengd.
    Sólarlagsákvæðinu var bætt við á sínum tíma til að mæta kröfum þeirra sem vildu fara varlega í sakirnar hvað varðar ritskoðun eða hömlur á tjáningarfrelsi og töldu að um sérstakt tímabundið vandamál gæti verið að ræða vegna þeirrar nýjungagirni sem myndbandabyltingin ylli. Þingmenn voru þó allir sammála um á sínum tíma réttmæti þess að koma í veg fyrir að óhóflegt ofbeldi bærist að börnum, en skilgreiningin á ,,ofbeldiskvikmynd`` í lögunum er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Ofbeldiskvikmynd merkir í lögum þessum kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar á mönnum og dýrum eða hrottalegar drápsaðferðir. Bannið tekur ekki til kvikmynda þar sem sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða listræns gildis hennar. Ekki tekur bann heldur til kvikmynda sem hlotið hafa viðurkenningu skoðunarmanna, sbr. VI. kafla laga nr. 53 frá 1966.``
    Við umræður um frv. kom fram í máli þáv. hæstv. menntmrh., Birgis Ísl. Gunnarssonar, að skipuð hefði verið nefnd 22. apríl 1987 til að endurskoða þessi lög. Ráðherra gat þess að nefndin teldi æskilegt að fella saman ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum og ákvæði um skoðun kvikmynda, en slík ákvæði eru nú í lögum um vernd barna og ungmenna. Þá gat ráðherra þess enn fremur að þau lög væru einnig í heildarendurskoðun. Hann taldi eðlilegt að framlengja lögin, en taldi ekki ástæðu til þess að fella út sólarlagsákvæðið en fresta endurskoðunarákvæðinu til ársloka 1988 í þeirri von að þá hefði þegar verið lagt fyrir Alþingi frv. og lög verið samþykkt um þetta efni. Það hefur ekki verið gert enn og munu því lögin um bann við ofbeldiskvikmyndum falla úr gildi ef þau verða ekki framlengd nú um áramótin.
    Enn eiga börn og unglingar allt of greiðan aðgang að myndböndum með óhóflegu ofbeldi eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu. Það er einnig vissulega rík ástæða til að hafa áhyggjur af því ofbeldi sem stöðugt berst að börnum úr fjölmiðlum og fer vaxandi fremur en minnkandi. Jafnframt gætir ofbeldis æ meir í daglegu lífi þjóðarinnar eins og sjá má og heyra af fréttum. Því geri ég eftirfarandi fsp. á þskj. 128 ásamt hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur til hæstv. menntmrh.:
,,1. Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var 22. apríl 1987 til að endurskoða lög um bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 33/1983?
    2. Hvað líður heildarendurskoðun laga um vernd barna og ungmenna?

    3. Hyggst menntmrh. flytja frv. til að samræma þessi lög að því er tekur til banns gegn ofbeldiskvikmyndum fyrir lok ársins 1988?``