Hagræðing og nýjar leiðir í ríkisbúskapnum
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Á þskj. 54 er till. til þál. um hagræðingu, einföldun, aðhald, ábyrgð og nýjar leiðir í ríkisbúskapnum. 1. flm. þessarar tillögu, Ásgeir Hannes Eiríksson, átti þess ekki kost að mæla fyrir þessari tillögu og hefur það því komið í minn hlut sem meðflm. að gera grein fyrir henni og fylgja henni úr hlaði. Tillagan er í átta hlutum og fjallar um ýmislegt til sparnaðar og aðhalds í ríkisrekstrinum. Hún er á þessa leið:
    ,,Alþingi ályktar:
    I. Að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að leggja niður eftirtalinn rekstur hjá ríkinu eða fyrirtækjum þess og stofnunum hið fyrsta:
    1. Mötuneyti starfsmanna þar sem alhliða veitingahús eru á næstu grösum og koma starfsfólki að sömu notum eða sambærilegum, einnig sali undir veislur og fundi með og án veitinga sem notaðir eru fyrir stærri samkomur.
    2. Prentsmiðjur eða fjölritunarstofur hvers konar þar sem öll algeng prentun fer fram ef hægt er að kaupa hana á frjálsum markaði.
    3. Lögfræðideildir eða aðrar innheimtustofur fyrir þjónustu lögmanna, t.d. innheimtu vanskila og þess háttar þegar hægt er að kaupa þá þjónustu á markaðnum.
    4. Verkfræðideildir og embætti arkitekta og annars konar húsameistara hjá ríkinu þegar hægt er að kaupa sömu þjónustu á opnum markaði.
    5. Einkasölur ríkisins með áfengi, tóbak eða lyf eða annan varning sem hægt er að flytja inn á frjálsum markaði.
    6. Verktaka og viðgerðar- eða viðhaldsdeildir þegar hægt er að fá sömu þjónustu eða sambærilega á almennum markaði.
    7. Aðra þjónustu eða starfsemi hjá ríki og fyrirtækjum þess eða öðrum stofnunum í eigu ríkisins, sem ekki er sérstaklega nefnd hér að framan, að öllu leyti eða að hluta, enda sé sams konar eða sambærileg þjónusta eða starfsemi boðin á opnum markaði.
    II. Að fela ríkisstjórninni að kanna hvort og hvernig hægt er að sameina ýmsar stofnanir ríkisins og fyrirtæki eða deildir sem vinna sama eða svipað eða sambærilegt starf á fleiri en einum stað hjá ríkinu.
    III. Að fela ríkisstjórninni að kanna hvort og hvernig hægt er að bjóða út og fela einstaklingum að reka og standa fyrir þessari þjónustu og starfsemi sem núna er á höndum ríkisins:
    1. Alls konar miðstöðvar fyrir skráningu á gögnum og upplýsingum um fasteignir og lausafé, svo sem bifreiðar, skip, loftför og aðrar eignir sem nauðsynlegt er að skrásetja.
    2. Sendiráð Íslands í öðrum ríkjum og stöður fulltrúa hjá alþjóðastofnunum erlendis.
    3. Gæslu og eftirlit með eigum ríkisins og á almannafæri bæði í þéttbýli og í sveitum landsins og óbyggðum, einnig eftirlit og gæslu í landhelgi og fiskveiðilögsögu þjóðarinnar.
    4. Rekstur sjúkrahúsa, meðferðarheimila, fangelsa og vinnuhæla, einnig sjúkraflutninga, brunavarnir,

slökkvistörf og önnur björgunar- og hjálparstörf.
    5. Annan rekstur og starfsemi eða þjónustu sem ríkið og fyrirtæki þess eða stofnanir hafa með höndum nú og ekki er tilgreint hér að framan.
    IV. Að hvarvetna skuli sú regla höfð í heiðri við þessa hagræðingu að hún valdi sem minnstri röskun á högum þeirra starfsmanna ríkisins sem hlut eiga að máli sem hér segir:
    1. Starfsfólki samkvæmt fyrsta og öðrum hluta verði tryggð störf við hæfi á almennum markaði ef það óskar þess. Haft verði samráð við þau fyrirtæki sem starfa á sama vettvangi og veita þá þjónustu sem ríkið fellir niður og samtök þeirra fyrirtækja. Fólkið gangi fyrir með önnur og sambærileg störf sem losna hjá ríkinu og fyrirtækjum þess og stofnunum næstu þrjú árin eftir að störf þess eru felld niður.
    2. Starfsfólki samkvæmt þriðja hluta verði gefinn kostur á að taka að sér þessa starfsemi og rekstur eftir því sem við verður komið annaðhvort fyrir eigin reikning eða í félagi við aðra. Að öðru leyti gilda sömu ákvæði og í 1. mgr. í fjórða hluta.
    3. Tryggt verði að ríkissjóður geti selt og fái markaðsverð fyrir allar eignir, sem losnar um vegna þessa hagræðis í búskapnum, hvort sem um er að ræða fasteignir eða lausafé og sérhæfðan búnað allan og tækjakost, hugbúnað og réttindi og önnur verðmæti hverju nafni sem nefnast.
    V. Að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að kallaður verði saman stofnfundur félags skattgreiðenda á Íslandi og sé öllum ríkisborgurum heimill aðgangur. Markmið félagsins er að fylgjast með því hvernig skattfé landsmanna er varið. Ríkissjóður tryggi félaginu tekjur til að standa undir eðlilegu starfi samkvæmt stofnskrá en aðrar tekjulindir eru félaginu ekki heimilar utan félagsgjalda. Ríkisstjórnin tryggi erindrekum félagsins greiðan aðgang að öllum rekstri íslenska ríkisins og fyrirtækjum þess og stofnunum.
    VI. Að fela ríkisstjórninni að leggja fram á þessu löggjafarþingi frumvarp til laga um ábyrgð embættismanna ríkisins á fjármálum stofnana sinna og
verkefna. Þess verði gætt að bein ábyrgð yfirmanna verði aukin frá því sem nú er.
    VII. Að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd hæfustu manna til að kanna hvernig önnur smáríki á borð við Ísland afla sér tekna. Ríkissjóður greiði kostnað vegna starfa nefndarinnar en seta í henni er ekki launuð.
    VIII. Að öll hagræðing, sem kann að leiða af þessari ályktun, megi ekki tefja fyrir því að haldið verði áfram að selja fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins að öllu leyti eða hluta.``
    Á þessa leið var þáltill. Öflugt þjóðfélag treystir á sterka einstaklinga en ekki sterkt ríkisvald. Þess vegna er fyrsta skylda ríkisins að búa öllum þegnum sínum aðstöðu til að verða eigin gæfu smiðir eftir föngum, svigrúm til að erja sinn reit í friði við guð og menn. Saman sjáum við svo öll fyrir minni máttar eftir bestu getu.
    Skórinn kreppir að íslensku þjóðfélagi í dag. Þungt er fyrir fæti. Skuldir landsins eru meiri en nokkru

sinni fyrr og tekjur fara minnkandi. Samt reyna Alþingi og ríkisstjórnir ekki að sníða þjóðfélaginu stakk eftir vexti. Hér eru allir stjórnmálaflokkar undir sömu sökina seldir.
    Skattar, sem virðast vera einu tekjulindin sem stjórnmálamenn þekkja í dag, hafa aldrei verið hærri. Eina fjölbreytnin er ný og önnur nöfn á sömu gömlu sköttunum. Ekki er leitað að nýjum leiðum á skipulegan hátt. Stöðugt eru sóttir meiri peningar í vasa fólks, enda er nú svo komið að margur maðurinn er að gefast upp. Hvert fyrirtækið á fætur öðru er tekið til skipta hjá fógetum landsins. Fjöldi fólks missir atvinnu sína og eigur. Bú manna eru líka tekin til skipta. Á bak við hvert gjaldþrot er harmleikur.
    Áfram hækka skattarnir. Þess vegna hlýtur fólkið í landinu að krefjast þess að fá svigrúm til að vinna fyrir þessum sköttum, svigrúm til að standa í skilum, gjalda keisaranum sitt. Fólkið hlýtur að krefjast þess að ríkið keppi ekki á opnum markaði við þau fyrirtæki sem það leggur háa skatta á. Fyrirtækin keppi hvert við annað en ekki við ríkið sem lýtur öðrum lögmálum en þegnarnir. Á sama hátt hlýtur fólkið að krefjast þess að ríki vaxi því ekki yfir höfuð. Hverju þjóðfélagi eru takmörk sett. Þegar þunginn af ríkinu vex hraðar en aflið í atvinnulífinu kiknar fólkið í hnjáliðunum, fellur á kné. Fram undan blasir við gjaldþrot lítillar þjóðar.
    Ábyrgð er lítt þekkt hugtak í opinberum rekstri þótt daglega sé fjöldi fólks kallaður til ábyrgðar vegna gerða sinna og misgerða í einkalífi. Þess vegna hlýtur fólkið líka að krefjast þess að skattfénu sé vel varið í þágu lands og þjóðar og af fullri ábyrgð. En því miður blasir andhverfan við. Fólkið hefur engin tök á að fylgjast með afdrifum peninga sinna, engin tök fyrr en um seinan. Milljón sóað hér og milljarði þar. Enginn ber ábyrgð þegar upp er staðið, enginn nema fólkið.
    Fólkið hlýtur líka að krefjast þess að landsstjórnin láti ekki staðar numið við skattana þegar leitað er tekna fyrir ríkissjóð heldur finni nýjar leiðir til að afla meiri tekna fyrir fámenna þjóð í stóru landi, rói á önnur mið. Margar stofnanir og mörg fyrirtæki í eigu ríkisins halda úti margvíslegri starfsemi sem getur verið betur komin í höndum einstaklinga og fyrirtækja þeirra og félaga. Tökum mötuneyti sem dæmi:
    Fjöldi mötuneyta er á vegum ríkisins um land allt. Sum eru það nálægt alhliða matsölustöðum að hægur vandi er að skipta við þau hús og leggja mötuneytin niður. Þannig er einfalt fyrir t.d. alþingismenn að fara á næsta veitingahús í miðborg Reykjavíkur og er ekki í kot vísað. Þannig mundu losna fjölmargir góðir salir víðs vegar um borgina og stundum eru matsalir einmitt verðmætustu plássin í húsunum. Þetta nýja húsrými drægi því úr þenslu margra stofnana næstu árin. Starfsfólki ríkisins fækkaði, en aukin viðskipti á veitingahúsum landsins kölluðu á fleira starfsfólk þar að sama skapi. Veitingalífið styrktist og gjaldþrotum fækkaði vonandi.
    Bent hefur verið á þá leið að afhenda starfsfólki ríkisins ávísanir á mat sem gildi í öllum

veitingahúsum sem vilja vinna með ríkinu á þennan hátt. Úr mörgum réttum væri að velja fyrir fólkið á veitingahúsinu í staðinn fyrir einn í mötuneytinu.
    Á sama hátt má taka á öðrum liðum í I. kafla hér að framan, allt eftir aðstæðum í hverri grein fyrir sig. Niðurstaðan er væntanlega hvarvetna sú sama, umfang ríkisins minnkar og útgjöld minnka, hagur fyrirtækjanna batnar.
    Stundum virðist sem margar stofnanir eða deildir ríkisins vinni sömu verkin eða sambærileg verk hver í sínu horni. Gott dæmi er margvísleg innheimta hjá ríkinu fyrir þjónustu. Þessa innheimtu má sjálfsagt sameina, enda hafnar hún öll í ríkissjóði þegar öllu er til skila haldið. Eða útreikningar á efnahagsmálum hjá stofnunum á borð við Hagstofuna, Þjóðhagsstofnun, Byggðastofnun, Seðlabanka og hagdeildir, t.d. fjmrn. Hér er sjálfsagt hægt að draga saman seglin og fela einni miðstöð að reikna út fyrir alla þá sem þurfa á að halda. Þannig má halda áfram að svipast um í kerfinu.
    Á hátíðum og einkum stórhátíðum er oft vinsælt hjá ræðufólki að tala um of mikil umsvif hjá ríkinu. Báknið burt, segja þeir á stundum. Oftar en ekki er
þó látið nægja að benda á stofnanir á borð við tunnuverksmiðjuna á Siglufirði, en báknið heldur sínu striki þrátt fyrir það. Það eru margir aðrir þættir hjá ríkinu en tunnuverksmiðjan á Siglufirði sem gætu vel verið betur komnir hjá einstaklingum, fyrirtækjum þeirra og félögum, t.d. sjúkrahús og vinnuhæli, gæsla og varsla á almannafæri eða á hafi úti og tollgæsla, sendiráð Íslands í öðrum ríkjum og fleira þegar betur er að gáð. Þess vegna er hér lagt til að skoðað verði út í ystu æsar hvaða þætti er hægt að færa frá ríki til einstaklinga, fyrirtækja þeirra og félaga.
    Þegar verkefni eru flutt frá ríki til einstaklinga eru þau ekki lögð niður fyrir fullt og fast. Áfram þarf fólk til að vinna verkin. Þess vegna fækkar ekki störfum í þjóðfélaginu og líklega kemur hver spöruð króna hjá ríkinu að tvöföldum notum í atvinnulífinu. Því má vel búast við vaxandi grósku í þjóðlífinu með auknum sparnaði hins opinbera. Þess vegna þarf fólk ekki að óttast atvinnuleysi þó störfum sé hagrætt í þjóðfélaginu, enda verði séð til þess að allir fái vinnu við sitt hæfi og eftir föngum. Hagræðing er nauðsynleg ef við eigum að halda velli sem fullvalda ríki og hagræðingu fylgja samandregin segl. Hjá því verður ekki komist. Eins er hægt að tryggja að ríkissjóður fái fullt verð fyrir allar eigur sínar sem losna með hagræðingunni, fullt verð eins og kaupin gerast á eyrinni á hverjum tíma.
    Allt eftirlit í þjóðfélaginu er á einn veg. Ríkið fylgist með þegnum sínum, enda er það hlutverk ríkisins að fylgjast með og er ekki nema gott eitt um það að segja, enda okkur öllum í hag. En þar með er ekki sagt að fólkið vilji ekki fylgjast sjálft með því hvernig ríkið eyðir skattkrónum okkar. Öðru hverju koma verk í dagsljósið sem orka tvímælis og vekja spurningar. Hefði ekki verið hægt að vinna þau á annan hátt og spara með því peninga? En þá er iðulega of seint í rassinn gripið því eydd króna verður

ekki afturkölluð. Þess vegna er nauðsynlegt að skattgreiðendur fái að fylgjast með framvindu mála hjá ríkinu frá fyrstu hendi. Til þess er félag skattgreiðenda kjörinn vettvangur og að erindrekar þess fái fullan aðgang að öllum þáttum ríkisfjármála jafnóðum og verkin eru unnin, ekki eftir á og um seinan.
    Á sama hátt verða yfirmenn hjá ríkinu að bera ábyrgð á gerðum sínum eins og aðrir þegnar. Ef þeim verður á í messunni þarf að kalla þá til ábyrgðar eins og aðra. Til þess skortir lög um ábyrgð embættismanna þar sem er kveðið fast á um verksvið og heimildir og viðurlög ef út af er brugðið.
    En það eru til fleiri krónur í heiminum en skattkrónur. Tekjur Íslendinga eru frekar einhæfar og eru flest eggin í sömu körfunni. Þess vegna þarf að leita nýrra leiða til að afla þjóðinni tekna. Ágæt leið er að kynnast því hvernig aðrar litlar þjóðir á borð við Íslendinga sjá sér farborða, senda hæfustu menn út af örkinni til að skoða sig um í öðrum löndum og safna gögnum, vinna síðan úr þær hugmyndir sem gætu komið að notum.
    Þessar vangaveltur um hagræðingu hjá ríkinu eru hvorki upphaf né endir. Þær eru lítið innlegg til að hjálpa til við að leysa hluta af vanda líðandi stundar. Þess vegna gera þær ekki ráð fyrir að allar aðrar hugmyndir um að draga saman seglin hjá ríkinu verði látnar sitja á hakanum eða verði slegið á frest, þvert á móti.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér lýst þeirri þáltill. sem við Ásgeir Hannes Eiríksson flytjum um hagræðingu, einföldun, aðhald, ábyrgð og nýjar leiðir í ríkisbúskapnum. Þetta er löng tillaga, en ég held að nú á tímum samdráttar sé nauðsynlegt að líta til þessara atriða og fleiri um hvernig megi draga saman seglin í ríkisbúskapnum og hvernig megi á sama hátt efla starfsemi í atvinnulífinu.
    Ég legg til að þessari tillögu verði að aflokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og allshn.