Jöfnun á námskostnaði
Föstudaginn 09. desember 1988

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að fagna því að þetta frv. skuli komið fram. Hér er um mikið réttlætismál að ræða fyrir landsbyggðarfólk sérstaklega, sem oft og tíðum verður að bera gífurlegan kostnað vegna skólagöngu barna sinna, meiri kostnað en þá sem í þéttbýlinu búa rennir grun í, bæði húsnæðiskostnað og uppihaldskostnað. Það eru satt að segja ótrúlegar fjárhæðir sem þetta fólk verður að reiða af höndum sem þarf að vera með tvö og kannski þrjú börn í skóla hér á Reykjavíkursvæðinu en býr úti á landi. Það hefur verið vel að þessu máli unnið og það er ánægjulegt að heyra hversu vel stjórnarandstaðan tekur undir það. Ég ítreka ánægju með að þetta skuli fram komið, þetta mikla réttlætismál, og tek undir með þeim þingmönnum sem lýst hafa von um að það megi fá greiðan gang í gegnum þingið. Og eftir því sem hér hefur verið talað virðist ekki nokkur minnsti vafi á því.