Aðgerðir í efnahagsmálum
Föstudaginn 09. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Það er ekki ný bóla að gefa þurfi út hér á landi bráðabirgðalög og þá venjulegast um ýmisleg efnhags- og þjóðhagsmál, þegar Alþingi ekki situr. Það er ýmislegt um þennan sið að segja sem er leyfilegur samkvæmt okkar stjórnarskrá og mætti auðvitað tala um það langt mál, en ég hygg þó að allar ríkisstjórnir sem hér hafa setið, eða því sem næst, hafi gefið út á sínum starfstíma bráðabirgðalög af einhverju tagi. Venjulegast, og oftar en ekki, eru þetta umdeild mál og raunar er bráðabirgðalagarétturinn umdeildur. Um þessi mál verða allajafna miklar umræður á þingi og getur þetta verið með ýmsum hætti. Auðvitað kemur það fyrir að bráðabirgðalög hafa verið felld, þannig að þegar til kastanna hefur komið, hefur ekki verið þingmeirhluti fyrir þeim. Það hefur hins vegar aldrei haft nein eftirköst í för með sér þannig að þessi réttur ríkisstjórnar til útgáfu bráðabirgðalaga er auðvitað ótvíræður. Það er hins vegar svo í þessu þjóðfélagi okkar þar sem, sérstaklega nú hin seinni árin, hefur verið óvenju stutt milli þess að ríkt hefur ýmiss konar vandræðaástand í atvinnulífi og þjóðlífi að það hefur oftar en kannski stundum áður til þess komið að gefa hefur þurft út bráðabirgðalög.
    Stjórnarandstaðan deilir jafnan hart á útgáfu bráðabirgðalaga og sjálfsagt er það ofur eðlilegt. Ég hugsa að við öll sem höfum bæði verið í stjórn og stjórnarandstöðu höfum gert það einhvern tíma, fyrr eða síðar. Á sl. vori, rétt eftir þingslit, voru gefin út bráðabirgðalög, nánar tiltekið hinn 20. maí sl. Þá voru enn á ný gefin út bráðabirgðalög 31. maí og hinu þriðja sinni 26. ágúst. Þessi þrenn bráðabirgðalög gaf út sú ríkisstjórn sem þá sat, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Fjórðu bráðabirgðalögin voru síðan gefin út hinn 28. sept. sl. þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði tekið við völdum.
    Sjálfsagt má gagnrýna það tvennt við lagaútgáfuna 20. maí og 28. sept. að í annað skiptið hafi verið mjög skammt liðið frá því að Alþingi lauk störfum og í hitt skiptið mjög skammur tími þar til Alþingi skyldi taka til starfa. Hvoru tveggja gagnrýnin á sjálfsagt einhvern rétt á sér og þeir munu til sem segja að á liðnu vori hefði átt að láta þingið sitja örlítið lengur og fjalla um þessi mál og líka þeir sem kynnu að segja að það hefði átt að doka við í tvær vikur eða þar um bil með útgáfu bráðabirgðalaganna 28. sept. og bíða eftir því að þing kæmi saman. Þetta var ekki gert hvorki sl. vor né nú í haust vegna þess að brýnt þótti að standa þannig að málum sem svo var gert.
    Ég held, herra forseti, að í upphafi þessarar umæðu sé nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um tæknilega hlið þessa máls, og þá ætla ég ekki að fjalla um efnisatriði, heldur einvörðungu það hvernig afgreiðslu þessara mála ber að. Á dagskránni eru tvö mál með mörgum brtt. sem hv. þingmenn hafa sjálfsagt enn ekki kynnt sér. Ég hef ekki haft tækifæri til þess að kynna mér brtt. stjórnarandstöðunnar. Ég sé bara að þær eru viðamiklar og flóknar og snerta mörg atriði

málanna, og ég hef ekki haft nokkra aðstöðu til að kynna mér þær, enda var verið að leggja þær á borð okkar þingmanna núna og mér sýnist að verið sé að dreifa nefndarálitinu þessa stundina þannig að ég er í rauninni að flytja framsögu fyrir málinu án þess að hafa átt þess kost að kynna mér nál. stjórnarandstöðunnar. Þetta sýnir hins vegar hversu langt við í stjórnarflokkunum höfum viljað ganga til samkomulags við þær óskir stjórnarandstöðunnar um að hraða þessu máli.
    Í rauninni er hér um að ræða fern bráðabirgðalög sem að sumu leyti fléttast saman.
    Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar gaf út bráðabirgðalög þann 26. ágúst sem ég gat um áðan um frestun á hækkun launa og búvöruverðs. Þau koma hér ekki til umræðu vegna þess að þau féllu úr gildi 30. sept., eða frá og með 1. okt. Þau koma því ekki hér við sögu af eðlilegum ástæðum.
    Þá eru hin lögin þrenn og ég bið forláts á því að það er nauðsynlegt, held ég, að hafa þennan tæknilega formála svo að öllum sé ljóst hversu flókið þetta mál er í afgreiðslu og hvernig að því hefur verið unnið, en að því mun ég síðar koma. Fyrst komu bráðabirgðalögin frá 20. maí sem hér eru til umræðu. Fáeinum dögum seinna þótti nauðsynlegt og brýnt í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að gefa út önnur bráðabirgðalög sem eru 21. mál þingsins. Það er frv. til laga um breytingu á bráðabirgðalögum nr. 14 20. maí 1988, um aðgerðir í efnahagsmálum, og þeim lögum fylgdi þá svohljóðandi rökstuðningur: ,,Forsrh. hefur tjáð mér að brýna nauðsyn beri til að setja fyllri ákvæði um efni 8. gr. bráðabirgðalaga nr. 14, 20. maí 1988, um aðgerðir í efnahagsmálum. Fyrir því eru hér með sett svofelld bráðabirgðalög samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar.`` Þessi lög voru sem sagt sett vegna þess að nauðsynlegt þótti að hafa ákvæði fyrri laganna ótvíræðari. Þessi lög breyttu því hinum fyrri. Síðan, þegar ný ríkisstjórn hefur tekið hér við völdum, 28. sept., eru enn gefin út bráðabirgðalög, svo sem öllum er kunnugt og koma hér síðar til umræðu, og þau breyta hinum fyrri lögum. Þessi þrenn bráðabirgðalög af fernum sem út voru gefin í sumar skarast því og hver lögin breyta öðrum áreiðanlega með næsta óvenjulegum hætti í lagagerð hér.
    Það má vel vera að það sé gagnrýni vert hvernig var staðið að þessari lagasmíð. Ég held hins vegar að allir verði að viðurkenna, bæði stuðningsmenn fyrri ríkisstjórnar og núv. ríkisstjórnar, að í báðum tilvikum var unnið í mikilli tímaþröng og menn verða að virða lagasmiðum og ríkisstjórnum í báðum tilvikum það til vorkunnar að unnið var í mikilli tímaþröng og menn gerðu auðvitað sitt besta þó að eftir á að hyggja megi kannski segja að öðruvísi hefði átt að standa að.
    Þetta er vissulega lagatæknilegt vandamál eins og ég hef áður vikið að, en ég vona samt að okkur takist að komast klakklaust fram hjá því. Og nú ætla ég að víkja nokkrum orðum að vinnubrögðum í hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.
    Það var óskað mjög eindregið eftir því af hálfu stjórnarandstöðunnar að afgreiðslu þessara

bráðabirgðalaga væri flýtt svo sem kostur væri. Vissulega hefur verið komið til móts við þær óskir því upphaflega var talað um að þetta frv. og þessi frv. tvö, sem hér eru nú til umræðu, kæmu til 2. umr. á þriðjudag í næstu viku. Það kom hins vegar í ljós í síðustu viku að einhvers konar smámisskilningur hafði orðið á þann veg að þingflokkur Sjálfstfl. hafði fengið upplýsingar um að þessi umræða yrði núna í vikunni í staðinn fyrir á þriðjudag í næstu viku eins og um hafði verið talað. Við þessu er ekkert að segja. Ég, sem formaður nefndarinnar, féllst á að reyna að hraða þessu eftir föngum og það hefur tekist, að vísu undir miklu tímaálagi allra, eins og það ber með sér að þingskjölin eru að berast nú inn á borð.
    Mér er að vísu skylt að geta þess að þegar ég samþykkti að verða við þessum tilmælum stjórnarandstöðunnar, að flýta þessu enn frekar, greindi ég frá því að ég hefði sagt hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni, sem nú er erlendis en fyrir hann gegnir störfum hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson, að þessi umræða yrði fyrst á þriðjudag þegar hann yrði kominn heim. (Gripið fram í.) Hann mun ekki vera kominn heim en mun koma heim nú um helgina. Ég gat þess þá að ég féllist á að flýta umræðunni með þeim skilmálum í rauninni að hér yrðu ekki hafðar uppi kröfur eða hörð gagnrýni á fjarveru Steingríms Hermannssonar, hæstv. forsrh., vegna þess að ég var, eins og ég sagði, búinn að segja honum að umræðan yrði á þriðjudag þegar hann yrði viðstaddur. Mér fannst það þá sanngjarnt að hann lægi ekki undir ámæli fyrir það að vera hér ekki við umræðu sem honum hafði verið sagt að yrði á allt öðrum tíma. Á þetta var fallist og raunar er hæstv. núv. forsrh., sem nú gegnir því starfi, Halldór Ásgrímsson hér staddur í deildinni og fylgist með allri þessari umræðu og er hér auðvitað til fullra svara.
    Nú hafa mál hins vegar æxlast þannig að samkomulag hefur orðið um að þessi umræða, eins og hæstv. forseti deildarinnar hefur skýrt frá, haldi áfram eftir hlé til þingflokksfunda kl. 15.30--16.30 til kl. 18.30 og verði henni síðan fram haldið nk. mánudag þegar hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson verður kominn hér til starfa að nýju að forfallalausu.
    Ég tel hins vegar alveg nauðsynlegt, herra forseti, vegna þess hvernig þessi mál öll fléttast saman, bæði þetta og hið næsta dagskrármál, að gera svolitla grein fyrir því hvernig að þessu hefur verið staðið í nefndinni vegna þess að þetta hafa hreint út sagt ekki verið einföld vinnubrögð.
    Á stundum er það svo að hlutirnir fara öðruvísi en ætlað er og upphaflega var það ætlunin, og það var að höfðu samráði við hina gleggstu og lögvísustu menn, að þessi þrenn bráðabirgðalög yrðu tekin til afgreiðslu hér í deildinni í þeirri tímaröð sem þau voru sett, þannig að frumvörpin yrðu einfaldlega afgreidd hvert á fætur öðru. Í gær þegar meiri hlutinn hafði gengið frá sínum nefndarálitum í samræmi við allt þetta var haft samband við Helga Bernódusson deildarstjóra hér hjá Alþingi sem mjög fjallar um þessi mál og er glöggur maður einstaklega. Hann benti hins vegar á

aðra rökréttari leið til að afgreiða þessi mál. Og ein af þeim röksemdum sem auðvitað er mjög auðvelt að sjá er að það er svolítið erfitt, eins og í þessu máli hér, að samþykkja sem lög frá Alþingi ákvæði í bráðabirgðalögum sem í rauninni er búið að fella úr gildi með öðrum lögum, en þannig hefði það verið ef lögin hefðu einfaldlega verið afgreidd í tímaröð.
    Því var farin sú leið að fella þessi þrenn bráðabirgðalög saman í rauninni í tvö mál og taka þau þannig til afgreiðslu hér í deildinni og eftir samráð og samtöl nefndarmanna var á þetta fallist og þannig verða málin afgreidd hér. Það þýðir að vísu að atkvæðagreiðslur verða ekki mjög einfaldar en okkur gefst væntanlega góður tími til að átta okkur á því þar sem þær fara ekki fram fyrr en á mánudaginn.
    Ég hef nú þegar, herra forseti, rakið að nokkru það sem segir í nál. meiri hl. og efnislega töluvert meira til skýringa. Meiri hl. nefndarinnar telur eðlilegast að þetta frv. verði afgreitt á þann hátt að inn í það verði felldar þær breytingar sem seinna voru gerðar á efni þess, þ.e. með bráðabirgðalögunum 31. maí og 28. sept. Flytur meiri hl. brtt. í samræmi við það á sérstöku þingskjali og þess vegna teljum við ekki ástæðu til að afgreiða 21. mál. Um efnisatriði frv. þá mun ég á þessu stigi og í þessari framsöguræðu vísa til
nefndarálits um 8. mál en mun auðvitað eftir því sem ástæður gefast til í umræðum um þetta í dag og á mánudag þegar fram í sækir svara þeim efnisatriðum sem til mín verður beint.
    Ég vek athygli á því að fulltrúi Alþb. hefur fyrirvara um þær greinar frv. sem eftir standa óbreyttar frá því í maí sl. En í september voru gerðar sem sagt verulegar breytingar á þessum lögum með nýjum bráðabirgðalögum þannig að það standa í rauninni aðeins fáar greinar upphaflegu laganna eftir. Því er hér sú tillaga um málsmeðferð að II. kafli laganna úr frv. til laga um efnahagsaðgerðir, þ.e. frá 28. sept., eftir því sem við á, verði tekinn upp í þessi lög. Þannig verða þau í rauninni efnislega rétt og þetta verður auðveldara aðgöngu öllum þeim sem um þetta þurfa að fjalla.
    Þegar þessi bráðabirgðalög, herra forseti, voru gefin út á liðnu sumri fylgdi þeim svohljóðandi rökstuðningur:
    ,,Handhafar valds forseta Íslands . . . gjöra kunnugt: Forsrh. [og hann var á þeim tíma Þorsteinn Pálsson] hefur tjáð oss að ríkisstjórnin hafi ákveðið aðgerðir í efnahagsmálum er hafi að markmiði að tryggja að gengisbreyting krónunnar 16. maí sl. beri tilætlaðan árangur við að skapa undirstöðugreinum atvinnulífsins viðunandi rekstrarskilyrði, koma í veg fyrir sjálfvirkt víxlgengi verðlags, gengis, launa og fjármagnskostnaðar, og leggja grunn að jafnvægi í efnahagslífinu. Til að þessu markmiði verði náð beri brýna nauðsyn til að tryggja samræmi í launaþróun, verja kaupmátt lægstu launa og draga úr verðbólguáhrifum gengisbreytingarinnar.
    Fyrir því eru hér með sett svofelld bráðabirgðalög`` o.s.frv.

    Það er alveg ljóst að þegar bráðabirgðalögin voru gefin út var við mikinn vanda að etja í efnahagslífinu. Hins vegar, það sem mönnum var þá ekki ljóst, var að vandinn var djúpstæðari og alvarlegra eðlis en nokkur vegur var á þeim tíma að sjá eða gera sér grein fyrir. Það hygg ég að allir stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat að völdum geri sér fullkomlega grein fyrir og játi ef þeir vilja líta með hreinskilnum og heiðarlegum hætti til þessara mála. Þeir sem studdu þá ríkisstjórn og unnu að undirbúningi þessara aðgerða töldu að þær mundu duga til þess að rétta þann halla, þá slagsíðu sem komin var á þjóðarskútuna. Staðreyndin var hins vegar sú, og það kom í ljós áður en mjög langt um leið, að þessar aðgerðir voru ekki nægilegar. Það er auðvelt að sjá, eftir á að hyggja, vegna þess að ég hygg að engan hafi órað fyrir því að þróunin á mörkuðum erlendis, og þróunin hér innan lands, yrði með þeim hætti sem raun bar vitni. Og því fór sem fór í stjórnartíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, að þegar komið var fram í september sáu allir að nýrra aðgerða var þörf, nýjar aðgerðir voru þjóðarnauðsyn, og að atvinnuvegirnir voru að stöðvast. Hvernig þeim málum lyktaði á þeirri tíð ætla ég ekki að rekja hér og nú. Það er kannski eðlilegra að koma að þeim þáttum þjóðarsögunnar í þessum efnum þegar komið verður að 8. máli sem er á dagskrá á eftir. Ég mun a.m.k. gera það þá. Ég hygg að þáv. ríkisstjórn verði ekki með neinum hætti álasað fyrir það sem hún gerði, að gera ekki meira eða að gera ekki minna. Staðan var bara önnur en menn fengu séð.
    Þessi bráðabirgðalög eru auðvitað með hefðbundnum hætti. Svo sem ég sagði áðan hafa ríkisstjórnir, fleiri en ein og fleiri en tvær og þrjár, staðið að slíkri lagasmíð. Í 1. gr. er fjallað um takmarkanir á launahækkunum, og það eru framlengdir gildandi kjarasamningar, samningsrétturinn er afnuminn, segja menn. Það var reynt að hamla gegn þeirri þróun sem menn sáu þegar komna af stað. Og það var gert með þessum hefðbundnu ráðum sem áður hefur verið gripið til. Ég þarf ekki að rekja mjög ítarlega fyrir hv. þingmönnum þessi efnisatriði. Þetta voru aðgerðir sem ætlað var að koma í veg fyrir víxlgengi verðlags, gengis, launa og fjármagnskostnaðar og leggja grunn að jafnvægi í efnahagsmálum. Þetta var gert til að tryggja samræmi í launaþróun til þess að einstakir hópar gætu ekki tekið sig út úr sem geta haft kverkatak á vissum sviðum þjóðlífsins. Þetta var fyrst og fremst til að koma í veg fyrir það, til að tryggja öllum launþegum jafnstöðu og til að freista þess að verja kaupmátt lægstu launa. Um þetta vorum við sammála, alþýðuflokksmenn, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn á þessum tíma. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að fyrrv. samstarfsmenn okkar í ríkisstjórn, sjálfstæðismenn, muni snúast öndverðir gegn einhverjum þáttum þessara laga sem þeir unnu að með okkur, og við kannski frekar undir forustu þeirra á þeim tíma, að setja. Ég held að það væri einsdæmi í stjórnmálasögunni ef menn snerust þannig

gegn foringja sínum með, ja, ég veit ekki hvað ég á að segja, lúalegum hætti, að styðja ekki þá löggjöf sem hann gaf út á sínum tíma. Það kemur hins vegar allt í ljós hér í tímans og umræðunnar rás.
    Meiri hl. nefndarinnar flytur brtt. á þskj. 201 við þetta frv. til laga í efnahagsmálum og án þess að ég þreyti hv. þingmenn á því í löngu máli að fara að lesa þær upp felast þær einfaldlega í því að eftir því sem við á er II. kafli laganna frá 28. sept. tekinn upp í þessi lög með þeim breytingum sem við eiga. Þetta er í rauninni einfalt mál og það sem við erum að gera er hálfgerð lagahreinsun, að koma þessum tvennum bráðabirgðalögum saman í aðgengilegt
form, þannig að hvor um sig gildi án þess að í öðrum lögum sé að finna ákvæði sem breyta þeim sérstaklega, einkum að því er þessa launaliði varðar.
    Það eru, herra forseti, fáein önnur atriði í sambandi við nefndarstarfið sem ég mundi kannski víkja að að lokum.
    Það hefur verið hafður sá háttur á í nefndinni að við höfum haldið um þetta eina átta eða níu fundi sem hafa verið langir, og það hefur fjöldinn allur af fólki komið til viðtals við okkur, fulltrúar fyrirtækja, stofnana, félaga og samtaka. Ég mun ekki rekja þann lista fyrr en í umræðunni um 8. mál. Vegna þess að þorri þeirra kom vegna þeirra laga og ákvæðanna um Atvinnutryggingarsjóð sem þar er að finna mun ég rekja það þar. Ég vil hins vegar undir lok máls míns gera grein fyrir þeim nýju vinnubrögðum sem voru viðhöfð í nefndinni og felast í því að með nefndinni hefur starfað viðskiptafræðingur, Sveinn Agnarsson, sem er starfsmaður Ríkisendurskoðunar, stofnunar Alþingis. Hann hefur skrifað mjög ítarlegar fundargerðir sem við höfum fengið vélritaðar eftir hvern fund og eru efnisleg frásögn af fundunum. Í fundargerðabók nefndarinnar hafa verið bókaðar afgreiðslur og hvaða mál hafa verið tekin fyrir alveg með hefðbundnum hætti eins og gert hefur verið í öllum nefndum þingsins um langa hríð. Starfsmaður nefndarinnar hefur líka aflað okkur ýmissa gagna. Hann hefur séð um að boða menn á fundi sem er ærið verk. Þegar kannski er óskað eftir 30--40, jafnvel 50 aðilum til fundar við nefndina er ærið verk að stilla því saman og fá það til að ganga upp á þeim naumt skammtaða tíma sem við höfum nú í þessum önnum.
    Þetta fyrirkomulag hefur gefist mjög vel og ég mun, með leyfi samnefndarmanna minna, afhenda formanni fjh.- og viðskn. Nd. þessar fundargerðir. Þó að ýmislegt skondið sé þar kannski að finna um vinnubrögð nefndarinnar sem á ekki beint erindi til þeirra og hv. nefndarmenn hér kunna góð skil á breytir það nú ekki miklu. Ég leyfi mér hins vegar að vona að fundargerðir af þessu tagi geti sparað hv. fjh.- og viðskn. Nd. mjög verulega vinnu í umfjöllun hennar um málið því að mér hefur satt að segja fundist það heldur hvimleitt hjá okkur hér á hinu háa Alþingi, þar sem nefndir gera mjög lítið að því að starfa saman, að við erum kannski dag eftir dag eða viku eftir viku að kalla fulltrúa sömu stofnana, sömu

félaga, sömu fyrirtækja og sömu samtaka hingað á fund á ýmsum tímum, þægilegum og óþægilegum, kvölds og morgna, stundum um helgar, til þess að gera tvisvar sinnum grein fyrir sama málinu. Mér hefur fundist það heldur hvimleitt og leiður siður af hálfu Alþingis. Og þetta leiðir raunar líka hugann að þeim vinnubrögðum sem hér tíðkast á hinu háa Alþingi þegar við erum á fáeinum vikum og stundum fáeinum dögum að fjalla um og afgreiða fjárlagafrv. og mörg tekjuöflunarfrv. eins og nú háttar. Sum þeirra höfum við ekki enn séð og í dag er 9. des. Auðvitað vita allir ástæðurnar fyrir því, að ný ríkisstjórn tók við völdum 11--12 dögum áður en Alþingi kom saman. Það eru óvenjulegar aðstæður.
    Ég velti því hins vegar fyrir mér og geri það mjög oft og í vaxandi mæli hvort við séum ekki á alröngum brautum hér þegar annars vegar situr fjvn. sem er að fjalla fyrst og fremst um útgjöld ríkisins og gera tillögur þar um, og kjördæmasjónarmið eru eðlilega mikið höfð í frammi. Hins vegar sitja svo tvískiptar, í tveimur deildum, fjh.- og viðskiptanefndir sem hafa að ýmsu leyti mjög erfiða aðstöðu til starfa og ekkert í líkingu við fjvn. og eru að fjalla um tekjur ríkisins sem fjvn. kemur aldrei nálægt. Ég leyfi mér að halda því fram að þetta séu ekki góð vinnubrögð. En þessu verður auðvitað ekki breytt í einni svipan. Ég held hins vegar að við ættum að huga að því, alþm., og þeir sem hér sitja í framtíðinni að koma þessum málum svo fyrir að það verði sama nefndin sem fjallar um bæði tekjur og gjöld ríkisins. Allt annað er í rauninni óskynsamlegt. Það mætti líka hugsa um það, og það segi ég ekki vegna þess hvernig mál standa núna, heldur miklu fremur vegna þess hvernig þau hafa oft staðið um þetta leyti, hvort það er alveg óhjákvæmilega nauðsynlegt að afgreiðsla fjárlaga miðist alltaf við áramót. Sumar þjóðir hafa þar annan hátt á. Það gæti verið 1. mars, 1. apríl, jafnvel 1. júní, eins og dæmi eru um. Ég held að vegna þess að desember er desember og aldrei var samþykkt tillaga Castrós um að fresta jólunum verði þetta alltaf erfitt. (Gripið fram í.) Ég var ekki, hv. þm. að gera tillögu um að fjárlagaafgreiðslu yrði frestað til 1. júní. Það er mikill misskilningur.
    Ég set þetta fram hér til umhugsunar, þegar það bætist nú við að við erum að fjalla um flókin bráðabirgðalög um efnahagsmál, flókin og umdeild, á sama tíma og allt þetta og það gerum við vegna þess að við höfum komið til móts við óskir stjórnarandstöðunnar um vinnubrögð. Ég tek það skýrt fram að það hefur verið komið til móts við allar óskir stjórnarandstöðunnar um vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu bráðabirgðalaganna og ég vona að það verði virt og metið. Það var lögð mikil áhersla á það af hálfu stjórnarandstæðinga að þessu máli yrði flýtt og það hefur verið gert og við það hefur verið staðið og við það verður staðið.
    Ég veit ekki, herra forseti, hvort rétt er að hafa um þetta öllu fleiri orð núna. Meiri hl. nefndarinnar leggur sem sagt til að þetta frv. verði
samþykkt með brtt. sem fluttar eru á sérstöku

þingskjali. Þar hefur fulltrúi Alþb. hins vegar bókað fyrirvara um þær greinar sem eftir standa úr lögunum frá í maí sem Alþb. stóð ekki að.
    Ég get því að þessu sinni, herra forseti, lokið máli mínu. Meiri hl. leggur sem sagt til að lögin verði samþykkt með þessum breytingum.