Aðgerðir í efnahagsmálum
Föstudaginn 09. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég bið forláts því ég þarf að raða hér upp nokkrum skjölum. Þessi mál eru svo umfangsmikil og flókin að við þingmenn í hv. deild erum að drukkna í pappírsflóðinu. Áður en ég kem að efninu þá langar mig til að lýsa yfir ánægju minni með að heyra orðaskipti hv. þingmanna sem hér hafa farið fram. Það er alltaf jafngaman fyrir okkur þingmenn í nýjum stjórnmálaflokki að verða vitni að þessum leiksýningum þegar þingmenn gömlu flokkanna takast á og ásaka hver annan um allt sem illa hefur farið í þjóðfélaginu undanfarna áratugi. Þetta er nákvæmlega eins og ég hef svo oft bent á að meðan gömlu flokkarnir, þ.e. Sjálfstfl., Alþfl., Alþb. og Framsfl., eru hér við völd verður umræðan með þessum hætti áfram. Þessir flokkar mynda stjórn til skiptis og ná ekki samstöðu um að gera neitt sem verður til þess að laga efnahag og peningakerfi þjóðarinnar eða koma atvinnumálum hér á hreint. Við komum til með að verða vitni að því hvernig þeir ásaka hver annan um allt sem illa hefur farið en þegar fylgst er með þessari umræðu stendur það eitt eftir að nákvæmlega sama er hverjir þessara fjögurra flokka mynda hér stjórn hverju sinni, þetta er allt sami grauturinn í sömu skál. Efnahagslífið er í vitleysu, atvinnulífið er allt út og suður og þjóðin öll, fólkið í landinu og fyrirtækin, ramba á barmi gjaldþrots eftir allar þær aðgerðir og öll þau bráðabirgðalög sem gömlu flokkarnir standa saman um að setja. Það skiptir ekki máli hvort það eru svokölluð Þorsteinslög, sem sjálfstæðismenn, alþýðuflokksmenn og framsóknarmenn settu, eða hvort það eru Steingrímslög sem sett voru þegar búið er að býtta út Sjálfstfl. fyrir Alþb.
    Ég vil víkja að því máli sem er á dagskrá, þ.e. svokölluð Þorsteinslög. Eftir að mér var tjáð að við ættum að ræða hér Þorsteinslög, Friðrikslög og Steingrímslög fór ég loksins að botna eitthvað í þessu því fram til þessa hafði þetta runnið allt saman í einn hrærigraut og var nánast mjög erfitt að henda reiður á hvaða lagagreinar ættu að vera hér og hvaða lagagreinar ættu að vera hvar. Enda hefur vafist fyrir fróðustu lögspekingum að semja breytingartillögur þannig að þær kæmu heim og saman við lögin og hvað við ættum raunverulega að reyna að samþykkja. Ég vil því taka undir með hv. 3. þm. Vesturl. að þetta hefur verið mjög erfið málsmeðferð og flókin. Ég vil þó segja honum það til hróss að vinnubrögð í fjh.- og viðskn. Ed. hafa öll verið með ágætum og ég hef ekki yfir neinu að kvarta í sambandi við hvernig við höfum staðið að málsmeðferðinni í nefndinni og yfirferð þessara flóknu og erfiðu þingmála eða hvernig við höfum yfirleitt starfað í nefndinni. Ég lýsi því hér yfir að ég er algjörlega sáttur við hvernig hv. 3. þm. Vesturl. hefur haldið þar á málum.
    Það fyrsta sem kemur til umræðu er breytingartillagan um að kaflinn um verðlags- og kjaramál, sem er í svokölluðum Steingrímslögum, er af hálfu meiri hl. fjh.- og viðskn., þ.e. stjórnarliðsins, fluttur yfir í Þorsteinslög. Þessi kafli kveður nánar á

um ýmsar skerðingar og takmörkun á samningsrétti, frystingu launa og kjarasamninga tímabundið, hversu ógeðfellt sem það er nú í raun. Þegar stjórnarmyndunarviðræðurnar fóru fram í september, eins og allir muna, dróst Borgfl. inn í þær viðræður stutta stund undir lok þeirra. Að sjálfsögðu urðum við að taka nokkra afstöðu til þess hverjum augum við litum þessar takmarkandi aðgerðir, þ.e. frystingu launa og afnám samningsréttar, og mig minnir að við höfum skýrt afstöðu okkar út með þeim orðum: Það kann vel að vera að nauðsynlegt sé að grípa til einhverra slíkra aðgerða um skamman tíma en þó því aðeins að komið sé til móts við launþega með einhverjum hætti, þ.e. að þeir fái eitthvað í staðinn. Við lýstum þeirri skoðun okkar að það væri hægt að fallast á að samningsréttur yrði afnuminn um stund ef launþegar fengju t.d. það í staðinn að matarskatturinn yrði felldur niður eða a.m.k. lækkaður mjög verulega. Þetta fékk litlar undirtektir og lýstum við þá þeirri skoðun okkar að við teldum að svo stöddu algjörlega fráleitt að afnema samningsrétt með þessum hætti. Ætla launafólkinu í landinu að taka einu sinni enn á sig byrðarnar vegna óstjórnar gömlu flokkanna, þ.e. launafólkinu er nú eina ferðina enn ætlað að bera uppi þann taprekstur sem hefur orðið vegna óviturlegra og óskynsamlegra aðgerða stjórnvalda hver svo sem þau eru hverju sinni. Þar á ég aftur við hvort um er að ræða eitthvert stjórnarmynstur gömlu flokkanna eins og það var fyrir hálfu ári síðan þegar bráðabirgðalögin voru sett eða hvort um er að ræða eitthvert stjórnarmynstur sem setur önnur bráðabirgðalög eins og þau í septemberlok.
    Mig langar aðeins til að koma inn á hvað aðilar vinnumarkaðarins hafa um þessi mál að segja, mér finnst það ekki hafa komið nægilega skýrt fram í máli manna. Á fundi fjh.- og viðskn. Ed. hafa komið mjög margir fulltrúar atvinnulífsins og reyndar einnig úr stjórnkerfinu til þess að skýra okkur frá því hvernig þessi mál horfa við þeim. --- Ég bið forláts, virðulegur forseti, en eins og ég segi þá er hér svo mikið pappírsflóð að það er orðið svolítið erfitt að henda reiður á þessu öllu saman.
    Mig langar til að vitna fyrst í Þórarin V. Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, sem kom á fund nefndarinnar til þess m.a. að
segja sitt álit á launamálum og skipulagi þeirra. Með leyfi hæstv. forseta þá hafði Þórarinn V. Þórarinsson þetta að segja, eins og það er bókað eftir honum í fundargerð nefndarinnar: ,,Þórarinn V. Þórarinsson sagði að lagafrv. um efnahagsmál væri barn síns tíma. Staðan hefði breyst mikið frá því að bráðabirgðalögin voru sett og önnur viðfangsefni blöstu við í dag. Með Atvinnutryggingarsjóðnum væri verið að mismuna fyrirtækjum. Nauðsynlegt væri að bæta rekstrarstöðu fyrirtækja en slíkt bæri að gera með almennum aðgerðum en ekki sértækum. Með Atvinnutryggingarsjóði væri hægt að létta fjárhagsstöðu fyrirtækja en sjóðurinn breytti engu um það að fyrirtækin væru rekin með tapi. Því væru

einhverjar aðrar aðgerðir nauðsynlegar. Þá vék Þórarinn V. Þórarinsson að launamálum og sagði óþolandi að lög frá fjórða áratugnum skyldu enn vera við lýði. Núverandi skipulag hefði það í för með sér að á nokkurra ára fresti væru kjarasamningar skertir með lögum. Rétt væri að endurskoða skipulag vinnumarkaðarins og ætti slík endurskoðun að hafa tvo þætti að leiðarljósi. Annars vegar að koma í veg fyrir að fámennir hópar gætu lamað allt atvinnulíf í landinu og hins vegar að setja reglur um að ekki væri heimilt að grípa til verkfalls nema verulegur hluti félagsmanna viðkomandi stéttarfélags samþykkti verkfallsboðun. Vinnuveitendasamband Íslands væri í dag ekkert annað en tannlaust tígrisdýr sem gæti urrað en ekki bitið.``
    Þetta voru þær skoðanir sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins hafði fram að færa þegar hann kom á fund okkar í hv. fjh.- og viðskn. og var mjög fróðlegt að eiga við hann orðaskipti.
    Hér talaði að vísu sá sem er fulltrúi atvinnurekenda og út af fyrir sig er margt rétt í því sem hann segir, að margt mætti betur fara í okkar vinnulöggjöf. Hann kemur að sjálfsögðu ekkert inn á afnám samningsréttarins sem varð með bráðabirgðalögunum en hafði ýmislegt annað um vinnumálalöggjöfina að segja eins og hér kemur fram.
    Mig langar einnig að vitna í fulltrúa frá Stéttarsambandi bænda, þá Gunnlaug Júlíusson, Hákon Sigurgrímsson og Hauk Halldórsson sem komu á fund fjh.- og viðskn. og höfðu þetta að segja um laun bænda, með leyfi hæstv. forseta: ,,Verðlagsgrundvöll búvöru átti að endurskoða fyrir 1. sept. hvert ár og nú í ár átti að endurskoða launalið hans. Af því varð ekki. Laun bænda hafa verið óbreytt frá 1. júní en þau höfðu þá hækkað um 10% frá sl. áramótum. Launin eru nú sem nemur 223 kr. á klukkustund.`` --- Ég veit ekki hvað margir af þeim sem hér eru inni eða af öðrum starfsmönnum hv. Alþingis mundu vilja vinna á því tímakaupi, svo mikið er víst. --- ,,Raunveruleg laun eru þó önnur því að öllum kostnaðarliðum hefur verið haldið föstum þrátt fyrir kostnaðarhækkanir. Fjórmenningarnir sögðu það kröfu Stéttarsambandsins að þessi skerðing yrði leiðrétt 1. mars n.k. Bændur hefðu á engan hátt valdið launaskriði síðustu missira.`` --- Undir það get ég tekið.
    Á fund nefndarinnar komu einnig fulltrúar Alþýðusambands Íslands og við áttum við þá mjög athyglisverðar og fróðlegar viðræður. Þeir afhentu okkur tvö skjöl sem voru samþykkt á nýafstöðnu þingi Alþýðusambandsins og fjalla bæði um samningsrétt og um kjara- og efnahagsmál. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að fá að lesa upp þessar ályktanir. Fyrri ályktunin er um samningsrétt og hljóðar svo:
    ,,36. þing Alþýðusambands Íslands, sem haldið er í skugga laga um afnám samningsréttar, áréttar að samningsréttur verkalýðshreyfingarinnar séu þau grundvallarmannréttindi sem hreyfingin mun aldrei afsala sér né samþykkja neina skerðingu á. Þingið fordæmir aðför ríkisvaldsins að launafólki sem felst í

afnámi samningsréttar og krefst þess að hann verði gefinn frjáls nú þegar. Enn fremur krefst þingið þess að samningar stéttarfélaganna verði strax settir í gildi með öllum þeim ákvæðum sem þeir innihalda. Allar síðustu ríkisstjórnir landsins hafa gengið á gerða kjarasamninga með einum eða öðrum hætti. Þessi íhlutun hefur orðið sífellt alvarlegri og beinskeyttari. Þingið leggur áherslu á að þessari þróun verði snúið við. Verkalýðshreyfingin verður að gera ríkisvaldi og atvinnurekendum ljóst að kjarasamningar hafa sama gildi og aðrir bindandi samningar.
    36. þing Alþýðusambands Íslands felur miðstjórn að hefja nú þegar undirbúning að því að skapa breiða samstöðu allra heildarsamtaka launafólks með það að markmiði að endurheimta samningsréttinn og fyrirbyggja að sagan frá í vor og í haust endurtaki sig.``
    Hin ályktunin er um kjara- og efnahagsmál og langar mig einnig að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,36. þing Alþýðusambands Íslands ítrekar að kjarasamningar stéttarfélaga eru ekki orsök þess efnahagsvanda sem nú þjakar þjóðina. Það er ekki rétt að þjóðin sé að verða gjaldþrota. Gjaldþrotið felst í þeirri þráhyggju stjórnvalda að halda að allur vandi verði leystur með kjaraskerðingu. Verðbólgudrauginn, sem hefur tröllriðið íslensku þjóðfélagi um langan tíma og valdið bæði launafólki og atvinnurekstri erfiðleikum, verður að kveða niður. Baráttan við verðbólguna má ekki koma niður á launafólki. Þingið leggur áherslu á að þeir verði látnir bera byrðarnar sem skapað hafa vandann ásamt
stjórnvöldum með ótímabærum fjárfestingum, óráðsíu og óstjórn í rekstri. Þá ítrekar þingið mótmæli samtakanna gegn matarskattinum sem lagst hefur þyngst á þá sem hafa lægstu launin. Það eru ekki laun heldur óbærilegur vaxtakostnaður sem er mesti bölvaldurinn í íslensku efnahagslífi. Þess vegna er brýnt að raunvextir verði lækkaðir. Þingið skorar á stjórnvöld að sjá svo um að vextir lækki hraðar en nú er og beiti til þess handafli ef með þarf.
    36. þing Alþýðusambands Íslands telur að í komandi samningum sé mikilvægast að endurheimta þann kaupmátt sem tapast hefur og tryggja hann eftir bestu leiðum. Lægstu laun eru nú óbærilega lág miðað við framfærslukostnað. Því verður að breyta. Það verður ekki gert með einfaldri prósentuhækkun. Þá leggur þingið áherslu á að með sem víðtækastri samstöðu stéttarfélaga og sambanda í komandi samningum verði dregið úr launamun.
    36. þing Alþýðusambands Íslands lýsir áhyggjum vegna óhóflegs vinnutíma verkafólks. Augljóst er að í mörgum tilfellum leiðir styttri vinnutími ekki til minni framleiðni eða veltu þannig að hægt á að vera að greiða sama kaup fyrir styttri vinnudag. Þingið telur afar mikilvægt að verðtryggingu launa verði komið á í næstu kjarasamningum og skorar á aðildarfélögin að hefja nú þegar undirbúning að því að knýja á um að það geti orðið að veruleika.``
    Ég hef haft mjög mikið gagn af því að eiga

viðræður við fulltrúa Alþýðusambandsins og eins við fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem einnig komu á fund hv. fjh.- og viðskn. Ég hef orðið um margt fróðari um launa- og kjaramál en ég var áður. Það er þó eitt sem sérstaklega vekur athygli mína í þessari yfirlýsingu en það er að þingið ítrekar mótmæli samtakanna gegn matarskattinum. Það varð til þess að ég spurði þá fulltrúa Alþýðusambands Íslands sem komu á fund nefndarinnar hvort það væri enn þá stefna Alþýðusambandsins og bað þá að ítreka það að Alþýðusambandið legðist gegn matarskattinum því ég sagði að svo virtist sem við þingmenn Borgfl., þ.e. Borgfl. allur, væri eina stjórnmálaaflið í landinu sem legðist gegn matarskattinum. Alþýðubandalagsmönnum t.d. leið ágætlega í stjórnarmyndunarviðræðunum og þó var ekki minnst einu orði á matarskattinn. Þeir héldu þó langar ræður, ásamt okkur sem vorum í stjórnarandstöðunni, fyrir ári síðan, þar sem þeir töluðu gegn matarskattinum. En svo bar við að þegar þeir tóku þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum í sept. sl., þá mundu þeir ekkert eftir matarskattinum. Ég hef oft orðað það þannig að Alþb. tók þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum í sjö daga og sjö nætur og talaði um ekkert annað en að ekki mættu verða hér nýjar hernaðarframkvæmdir og það mætti ekki byggja álver í Straumsvík og þar fram eftir götunum, en það var ekkert minnst á matarskattinn. Við, fulltrúar Borgfl., tókum þátt í stjórnarmyndunarviðræðum í sjö klukkutíma og töluðum einungis um matarskattinn og lánskjaravístöluna. ( Gripið fram í: Þið gerðuð það já.) Já. Við höfðum nefnilega áhyggjur af því hver væri afkoma fólksins í landinu, en okkur varðaði lítið um það hvort hér yrðu nýjar hernaðarframkvæmdir eða ekki á kjörtímabilinu því það er alveg ljóst að við öllum þeim framkvæmdum sem eru nú í gangi á vegum varnarliðsins á ekkert að hrófla. Þær eru alveg nægar til þess að duga út þetta kjörtímabil og jafnvel þó lengra væri þannig að ekki þurfti að ræða um þau mál. Mér fannst hins vegar að við fengjum staðfestingu á því í þessum viðræðum við fulltrúa Alþýðusambandsins að í raun og veru er Borgfl. eina stjórnmálaaflið sem enn þá hefur einhvern áhuga á því að matarskatturinn verði afnuminn, og það er mjög athyglisvert út af fyrir sig.
    Í því sambandi er kannski vert að rifja upp hver var höfuðforsendan fyrir því að matarskatturinn skyldi lagður á. Forsendurnar fyrir því voru að sjálfsögðu skattkerfisbreytingarnar sem áttu sér stað fyrir ári síðan. Allir muna eftir ræðum hæstv. þáv. fjmrh. sem talaði hér og taldi í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi að skattkerfið yrði einfaldara, skilvirkara og réttlátara. Með því að leggja söluskatt á bókstaflega allt átti söluskatturinn að skila sér miklu betur. Hver hefur svo reyndin orðið? Þvert á móti hefur söluskattsinnheimtan ekki lagast, söluskattsvanskilin eru, ef eitthvað er, miklu meiri en þau voru áður þannig að með matarskattinum hefur það gerst að í staðinn fyrir að söluskattsinnheimtan gengi betur og yrði auðveldari og skilaði sér betur hefur það þvert á

móti orðið að söluskatturinn hefur skilað sér verr. Væri þá ekki ráðlegt að fara til baka til fyrra ástands, afleggja matarskattinn og halda söluskattinum eins og hann var? (Gripið fram í.) Ég er ansi hræddur um að a.m.k. lágtekjufólkinu þætti það betra því að nógu erfitt er að lifa í þessu landi þó að maður þurfi ekki að horfa upp á það að brýnustu matvæli sem fólk þarf að kaupa í búðunum daglega eru svoleiðis út úr kortinu hvað verðlag snertir að ég held að það finnist hvergi land í víðri veröld þar sem matarverð er eins hátt og á Íslandi. ( SkA: Það gæti verið Grænland.) Ég hef ekki nokkra trú á því, hv. þm., ég held að verðlag á matvöru á Grænlandi sé miklu lægra en á Íslandi. Ég hef átt þess kost að ferðast mjög víða um heim. Ég hef komið í nánast allar heimsálfur og heimsótt ég veit ekki hvað mörg ríki. Hvergi nokkurs staðar í veröldinni hef ég rekist á matarverð sem nálgast það sem gerist á Íslandi, hvergi.
    Það er annars mjög athyglisvert að fylgjast með og velta fyrir sér viðbrögðum þeirra þm. Alþb. sem harðast börðust gegn matarskattinum og ýmsum öðrum skattaálögum sem áttu sér stað hér í fyrra. Ég minnist líka þess þegar við töluðum fram á rauðar nætur gegn vörugjaldi á helstu nauðsynjavörur sem þáv. ríkisstjórn ætlaði að leggja á. Við vorum öll sammála um það, flokkarnir sem þá voru í stjórnarandstöðu, að um hið versta mál væri að ræða og héldum hér maraþonræður til þess að reyna að tala gegn vörugjaldsfrv. ( SkA: Þá áttirðu að reyna að skipta um skoðun.) Ég tala nú ekki um ósköpin, það gekk nú illa. Það hefur hins vegar ekki gengið betur en svo að nú er það einn ráðherra Alþb., hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson, sem leggur fram nýtt vörugjaldsfrv. þar sem nú er bætt um betur. Nú skal aldeilis bensínið stigið í botn og vörugjaldið keyrt upp í ein 30% í stórum málaflokkum svo sem kexi og öðru því um líku. Það hefur að vísu verið mikið rætt um það að taka eigi meira mið af manneldissjónarmiðum og út af fyrir sig get ég tekið undir það, en það verður ekki gert með þessum hætti. Það væri þá nær að ráðast á meinsemdina sem er sykurinn sjálfur, en það var ekki talið framkvæmanlegt. ( SkA: Það gekk hjá Castró.) Já, Castró frestaði nú líka jólunum og það gæti vel verið að hæstv. ríkisstjórn kæmi það best að fara að tillögu Castrós og fresta jólunum. Mér heyrist hv. 3. þm. Vesturl., formaður fjh.- og viðskn. Ed., vera að mælast til þess. Mér heyrðist ekki betur en hann væri jafnvel að tala um að það ætti að fresta þessu öllu saman til 1. júní. Það væri mjög heppileg útkoma að við samþykktum fjárlög einhvern tímann svo sem eins og 1. júní næsta ár. Kannski var það meira tillaga til framtíðarinnar horft, en hann skýrir það þá betur út á eftir.
    Eins og ég hef sagt frá höfum við fulltrúar Borgfl. ekki talið stætt á því að afnema samningsréttinn með þeim hætti sem gert hefur verið hér í tvennum bráðabirgðalögum, þ.e. í Þorsteinslögum frá því í maí og síðan í Steingrímslögum frá því í september, þar sem launafólkið fær ekkert í staðinn. Við höfum því ákveðið að flytja brtt. þar að lútandi að

samningsrétturinn komist á strax. Mig langar til að skýra þessar brtt. eilítið. Í því sambandi langar mig þó til að greina frá því, og það er ekkert launungarmál, að stjórnarandstöðuflokkarnir í hv. fjh.- og viðskn. hafa haft nokkuð samstarf sín á milli um sameiginlega afstöðu til ýmissa atriða sem eru í bráðabirgðalögunum, bæði í Þorsteinslögum og Steingrímslögum, og m.a., eins og þm. í hv. deild hafa áreiðanlega tekið eftir, flytjum við sameiginlega brtt. en þó líka brtt. hvert fyrir sig. Það er þó eitt sem ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á, að við flytjum samhljóða brtt. varðandi samningsréttinn, þm. Borgfl. í Ed. og þm. Kvennalistans í Ed. Það var þannig að ég lagði í það verulega vinnu að útfæra það með hvaða hætti hægt væri að koma samningsréttinum á strax eða, eins og ég taldi eðlilegast að gera það, við gildistöku laganna. Ég kynnti þessar tillögur fyrir bæði fulltrúum Sjálfstfl. og fulltrúum Kvennalistans í hv. fjh.- og viðskn. Ed. þegar við vorum að ræða um það hvaða tillögur það yrðu sem við stæðum sameiginlega að. Eitthvað hefur þetta skolast til í meðferðinni. Það lá að vísu nokkuð ljóst fyrir að fulltrúar Sjálfstfl. gætu ekki tekið undir þessar tillögur þar sem þeir stóðu að setningu bráðabirgðalaganna í maí, þ.e. Þorsteinslaganna, þar sem upphaflega er ákveðið að afnema samningsréttinn. Hins vegar vissum við um hug Kvennalistans, að þær höfðu hug á því að samningsréttur skyldi komast á strax. Ég veit hins vegar ekki hvort þær hafa haldið að ég hefði tekið að mér að gerast ritari Kvennalistans því þær kusu að taka þessar tillögur okkar borgaraflokksmanna óbreyttar og leggja fram sem sínar. Mér er það svo sem sársaukalaust þó að einhverjar tillögur sem við höfum unnið séu teknar upp af öðrum flokkum. Það sýnir bara að þetta eru góðar tillögur sem aðrir flokkar sjá að er skynsamlegt að styðja. En mér þykir þessi málsmeðferð þó eilítið ankannaleg. Ég hefði talið það viðkunnanlegra að við hefðum þá sameinast um þessar tillögur en séum ekki að taka hrátt uppkast hver eftir öðrum, flokkarnir, og leggja það fram sem eigin tillögur. Skal ég út af fyrir sig ekkert hafa fleiri orð um þetta. Ég kannski segi, eins og oft er sagt, að ég virði viljann fyrir verkið.
    Í hverju eru þá þessar tillögur fólgnar? Jú, þær eru lagðar fram sem brtt. við brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn., en þær brtt. gera ráð fyrir því að flytja kaflann um launa- og kjaramál úr Steingrímslögum yfir í Þorsteinslög. Við leggjum einfaldlega til að alls staðar þar sem eru dagsetningar um að laun og kjarasamningar skuli bundnir til ákveðins tíma komi í staðinn: við gildistöku laganna. Það er kannski rétt að ég rifji það aðeins upp hvernig þetta er orðað í Steingrímslögunum, en þar segir í kaflanum um verðlags- og kjaramál, með leyfi hæstv. forseta, í 12. gr.:
    ,,1. gr. bráðabirgðalaganna nr. 14 20. maí 1988 orðast svo:
    Laun, þ.e. launataxtar og kjaratengdir liðir, þar á meðal kauptrygging sjómanna, í síðast gildandi kjarasamningum, skulu hinn 1. júní 1988 hækka um

það sem á kann að vanta 10% hækkun frá 31. des. 1987 að telja.
    Í stað launahækkana sem koma skyldu til framkvæmda á tímabilinu 1. sept.
1988 til og með 1. mars 1989 skulu laun hækka um 1,25% hinn 15. febr. 1989. Ákvæði kjarasamninga um aðrar launahækkanir eftir 1. mars 1989 halda gildi sínu.
    Kjarasamningar, sem ákveða minni hækkun launa en felst í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, breytast í samræmi við þær.
    Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar raska ekki þeim ákvæðum gildandi kjarasamninga sem falið hafa í sér meiri hækkun launa en kveðið er á um í 1. mgr., enda hafi sú hækkun komið til framkvæmda fyrir gildistöku bráðabirgðalaga nr. 74 26. ágúst 1988.
    Frekari hækkun launa, kjaratengdra liða og hvers konar endurgjalds fyrir unnin störf sem kveðið er á um í þessari grein er óheimil til 15. febr. 1989. Ákvæði þessarar greinar breyta ekki reglum um starfsaldurshækkanir og aðrar einstaklingsbundnar launabreytingar samkvæmt þegar gildandi kjarasamningum.``
    Allir vita eflaust af hverju dagsetningin 15. febr. var valin, en það hvað víst vera vegna þess að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar bentu á að ef samningsrétturinn kæmist á 1. jan. 1988, eins og reyndar kom fram að fulltrúar Alþb. sem tóku þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum hefðu óskað eftir og reyndar tímabundið sett á oddinn, hefðu alls kyns hátekjuhópar verið fyrstir í gang með sína launasamninga. Þá hefði sú hætta verið á ferðinni að þeim hefði tekist að ná fram umtalsverðum launahækkunum áður en verkalýðshreyfingin sjálf tæki til við samningsgerðina. Þetta eru að sjálfsögðu afar léleg rök fyrir því að fresta samningsrétti eða öllu heldur að með þessum hætti eigi að fresta gildistöku samninga lengur en nauðsyn krefur bara til þess að einhverjar aðrar stéttir geti ekki notfært sér að þær séu með lausa samninga og geti hafið samningsgerð. Ég tel þetta alveg fráleitt. Enda hefur það nú komið á daginn að það eru miklu fleiri aðilar sem eru með lausa samninga, þannig að það er ekkert víst að það hefðu endilega verið þessir hátekjuhópar sem hefðu riðið á vaðið. Ég man ekki betur, og ég verð þá leiðréttur ef ég fer með rangt mál, en BSRB-menn hafi sagt okkur að þeirra samningar væru lausir frá áramótum og þeir hefðu þá líka farið í gang. Innan raða BSRB er jú flest lágtekjufólk landsins, það ætti öllum að vera kunnugt.
    En til að gera langa sögu stutta höfum við lagt það til að samningsrétturinn komist á við gildistöku bráðabirgðalaganna, en við reiknum með því að þau verði samþykkt þó svo að þeim kunni að verða breytt. Það er nú farið að verða mjög vafasamt að hve miklu leyti þingmeirihluti er fyrir bráðabirgðalögunum, jafnvel í hv. Ed. Þó svo að stjórnarflokkarnir telji sig hafa hér eins atkvæðis meiri hluta á ég eftir að sjá það, enda kemur það nú óbeint fram með þeim fyrirvara sem hv. 4. þm. Suðurl. Margrét

Frímannsdóttir hefur gert þegar hún skrifar undir nál. að Alþb. vill ekkert af ýmsum málsgreinum og ýmsum lagagreinum í Þorsteinslögum vita. Svo að það verður út af fyrir sig mjög fjörugt þegar atkvæðagreiðsla fer fram um þessi lög að lokum, hvaða greinar verða samþykktar og hverjar verða einfaldlega felldar. Það verður mjög fróðlegt að sjá það.
    Við vitum enn þá ekki um afstöðu hv. 4. þm. Vesturl. sem hér situr fyrir framan mig. Hann lét að því liggja í stjórnarmyndunarviðræðunum og þegar ríkisstjórnin komst á laggirnar að hann væri ekkert sérstaklega hrifinn af þessum kjaraskerðingarákvæðum og mundi greiða atkvæði gegn þeim þó að hann hefði lofað að greiða ekki atkvæði gegn vantrausti á ríkisstjórnina. Það er svo önnur saga. Það var hins vegar eitthvað verið að ræða um það hér fyrir tveimur, þremur mánuðum að hv. þm. Skúli Alexandersson mundi víkja af þingi þegar samviskan færi eitthvað að plaga hann og þá yrði önnur samviska hans kölluð hingað inn til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslu svo hann þyrfti ekki að standa hér frammi fyrir þingheimi og ganga á bak orða sinna. Ég veit ekki hvað hv. þm. hyggst gera. Það fer nú hver að verða síðastur að kalla inn varaþingmann ef við ætlum að ganga til atkvæðagreiðslu um bráðabirgðalögin hér strax eftir helgina. Þetta er svona ábending frá mér til hv. þm. um að það sé nú rétt að fara að hringja í varaþingmanninn ef þetta skyldi verða svolítið erfitt.
    Við höfum talið eðlilegt að breyta, eins og ég sagði, öllum greinum um kjaramál þar sem samningar eru frystir til ýmist 15. febr., í sumum tilvikum til 1. mars, og leggjum einfaldlega til að fullur samningsréttur komist á strax við gildistöku þessara laga, enda er ekkert sem mælir gegn því og það er ekkert sem bendir til þess, eins og kom mjög vel fram í þeim viðræðum sem við áttum við fulltrúa launþegahreyfingarinnar, að það séu launþegar þessa lands sem hafi komið efnahagsmálum þjóðarinnar í það óstand sem þau eru í núna. Ég held að hér sé enn einu sinni ljóst að þó svo að það sé einkennilegt að stjórnvöld vilji alltaf reyna að skella skuldinni á launþega og ætla þeim alla tíð að bera byrðarnar þegar illa gengur í atvinnulífinu og í þjóðfélaginu yfirleitt, að það eru alltaf launþegar sem eiga að bjarga öllu. Ég held að það sé alveg ljóst í þetta skipti að það er ekki með nokkru móti hægt að kenna launþegum um að illa hafi farið. Meinsemdarinnar verður því að leita annars staðar.
    Skal ég láta útrætt um launa- og kjaramál. Ég tel þó rétt að vekja athygli á því að við teljum að þó svo að samningsréttur komist á strax við gildistöku laganna sé mjög eðlilegt að sá hluti bráðabirgðalaganna sem er í 16. og 17. gr. Steingrímslaga haldist óbreyttur, en hann hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta: ,,16. gr. Gjaldskrár fyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu ekki hækka til 28. febr. 1989. Þó skal heimilt að taka tillit til hækkana á verði innfluttra aðfanga

enda liggi fyrir mat Verðlagsstofnunar á þeirri þörf. 17. gr. Óheimilt er að hækka endurgjald fyrir afnot af fasteignum frá gildistöku laga þessara til 28. febr. 1989.`` Við teljum ekki ástæðu til að breyta þessu þó svo að samningsréttur komist á því það er alveg ljóst að þó samningar verði aftur lausir og samningsréttur komist á einhvern tíma nokkrum dögum fyrir jól er langt í land með það að launþegar sæki sér einhverjar kauphækkanir eða að sú kaupmáttarskerðing sem þeir hafa mátt þola verði eitthvað lagfærð fyrr en langt er komið fram í febrúar, mars. Ég held að það hljóti öllum að vera ljóst að jafnvel þó samningar komist nú strax á er langur og strangur aðdragandi að því að launþegar þessa lands fái að einhverju leyti bætta upp þá kaupmáttarskerðingu sem þeir hafa mátt þola.
    Þá kem ég að öðru atriði sem við höfum töluvert rætt, sérstaklega innan Borgfl., en það er verðtrygging fjárskuldbindinga. Í svokölluðum Friðrikslögum var þessu ákvæði frá Þorsteinslögum breytt, en eins og allir muna var gerð athyglisverð breyting með Þorsteinslögum að verðtrygging fjárskuldbindinga til lengri tíma en tveggja ára skyldi óheimil. Síðan komu Friðrikslög nokkrum dögum síðar. Þá var nefnilega þáv. hæstv. forsrh. farinn eina ferðina til útlanda, en við höfum töluvert rætt um það hér í hv. deild, það er svona mikill ferðahugur í hæstv. ráðherrunum. ( EG: Meira en hugur. Þeir fara.) Já, þeim gengur mjög illa að sitja hér á hólmanum. Það er eins og það sé einhver fiðringur í endanum á þeim. Sumir segja að það sé kvikasilfur í vissum líkamshlutum á mönnum ef þeir geta illa setið kyrrir, en ég er farinn að halda að ef við værum ekki öðru hverju eitthvað að agnúast út í þetta hér í ræðustóli í hv. deildum Alþingis, þá væru ráðherrarnir næstum aldrei heima. Kannski væri það best að ráðherrarnir væru sem minnst heima. Þeir gerðu þá minnst af sér á meðan. (Gripið fram í.) Ja, ekki væri það verra því ég held að þjóðin öll þyldi það vel þó það sæist minna til ráðherranna í sjónvarpi. Stundum þykir mér nóg um að þurfa að horfa á ráðherrana blaðrandi í sjónvarpi dag eftir dag, hvert einasta kvöld og er ég viss um að almenningur og flestir þeir sem þurfa að horfa á sjónvarp mundu gjarnan kjósa sér eitthvað annað að horfa á en blessaða hæstv. ráðherrana blaðrandi sífellt það sama kvöld eftir kvöld, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.
    Ég hef reyndar búið víða erlendis og ég minnist þess hvergi nokkurs staðar þar sem ég hef átt heima erlendis, hvort sem það var nú í Danmörku, Bandaríkjunum, Þýskalandi eða Japan, en í öllum þessum löndum hef ég dvalið um langt skeið, ég minnist þess aldrei að hafa þurft að horfa upp á það í sjónvarpsfréttum kvöld eftir kvöld eftir kvöld að ráðherrar ríkisstjórnarinnar væru þar sífellt blaðrandi um eitt og annað. Ég man það að í Danmörku, þar sem ég hef dvalist lengst, var afar sjaldgæft að sjá ráðherra koma fram í sjónvarpsfréttum. Þeir höfðu öðrum hnöppum að hneppa og þurftu ekki að vera síblaðrandi frammi fyrir alþjóð eins og hér virðist vera brýn þörf hjá öllum ráðherrum. En þetta er nú útúrdúr

sem ég held að við þurfum ekki að fjalla frekar um.
    Ég var kominn að verðtryggingarmálum. Við fulltrúar Borgfl. höfum kosið að leggja fram brtt. við 8. gr. Þorsteinslaga sem hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Frá og með 1. apríl 1989 er óheimilt að tengja fjárskuldbindingar við hvers kyns vísitölu.``
    Ég ætla að rökstyðja þetta nokkuð og ekki er nú vanþörf á vegna þess að það er orðið trúaratriði hjá stórum hópum þjóðfélagsins að verði fjárskuldbindingar tengdar áfram við einhvers konar vísitölur, þá fari öll þjóðin á hvolf. Ég vil rifja það upp að fyrir eins og tíu árum síðan, og reyndar allan áttunda áratuginn, var hér við lýði kaupgjaldsvísitala, þ.e. laun voru bundin við kaupgjaldsvísitölu. Á þeim tíma voru flestir efnahagssérfræðingar orðnir sammála um það að þetta ástand skrúfaði upp verðbólguna, þ.e. verðbólgan hækkaði kaupgjaldsvísitöluna, þá hækkuðu launin, launin hækkuðu aftur kaupgjaldsvísitiöluna og svona koll af kolli. Þetta var skrúfan án enda, þ.e. þetta skrúfaði verðlagið upp og verðbólgan hélst þetta 20--40 stig allt þetta tímabil. Ég er orðinn sannfærðari og sannfærðari um það og hef endanlega sannfærst um það að nákvæmlega það sama gildir um lánskjaravísitöluna og verðtryggingu fjárskuldbindinga.
    Öll rekstrarlán atvinnulífsins eru meira eða minna bundin lánskjaravísitölu og í sjálfu sér eru allar fjárskuldbindingar almennings bundnar lánskjaravísitölu með sama hætti. Þau lán, sem almenningur hefur þurft að taka í bönkum og peningastofnunum undanfarin átta ár, hafa öll verið bundin lánskjaravísitölu. Þegar lánskjaravísitalan hækkar, þá hækkar
fjármagnskostnaðurinn hjá öllum þeim fyrirtækjum sem þurfa á rekstrarlánum að halda og þau eiga ekki annarra kosta völ en að velta þeim aukna kostnaði út í verðlagið, þ.e. hækka verð á bæði vörum og þjónustu. Þá hækkar framfærsluvísitalan og lánskjaravísitalan og rekstrarlánin og fjármagnskostnaðurinn og fyrirtækin verða þá enn á ný að hækka vöruverð og þjónustu þannig að við erum þarna með aðra skrúfu án enda. Lánskjaravísitalan og binding hennar við fjárskuldbindingar skrúfar upp verðlag í landinu þannig að við náum verðbólgunni aldrei niður með þessum hætti. Þetta hafa aðrar þjóðir reynt líka.
    Eitt frægasta dæmið um verðtryggingu fjárskuldbindinga er sótt til Brasilíu, en Brasilíumenn voru líklega fyrstir þjóða að taka upp allsherjar vísitölubindingu á öllum sköpuðum hlutum. Ég hef nú ekki átt þess kost að fylgjast með ástandi mála í Brasilíu síðustu árin en mig minnir að verðbólga þar hafi verið komin upp í ein 1000% þegar síðast fréttist. Kann vel að vera að eitthvað hafi gerst þar sem hafi lagað ástandið en ég hef þó ekki fréttir af því.
    Finnar voru einir Norðurlandaþjóðanna með verðtryggingu fjárskuldbindinga fyrir allmörgum árum, líklega fyrir einum 20 árum síðan. Þá var um það að ræða að Finnar voru með nokkurs konar lánskjaravísitölu og þar varð ástandið litlu betra en það hefur verið hér á Íslandi enda ákváðu þeir að

aftengja --- þeir gerðu reyndar meira en það, þeir afnámu lánskjaravísitöluna algerlega með lögum 1967 og ríkissjóður tók á sig að einhverju leyti þær skuldbindingar sem tengdust lánskjaravísitölunni.
    Menn hafa oft spurt: Er hægt að aftengja lánskjaravísitöluna? Hvað um alla þá samninga sem hafa verið gerðir? Hvað með öll lánin og öll skuldabréfin sem eru tengd við lánskjaravísitölu? Er ekki verið að brjóta samninga á þeim sem hafa lánað fé með lánskjaravísitölu ef lánskjaravísitalan er skyndilega aftengd? Ég spyr þá á móti: Er ekki á sama hátt verið að brjóta samninga ef tekin væri t.d. upp ný og breytt lánskjaravísitala eins og hæstv. ríkisstjórn fyrirhugar nú frá og með áramótum, þ.e. lánskjaravísitölu þar sem laun eiga skyndilega að vega ein 70% í vísitölunni? Launin hafa þó hingað til ekki vegið nema sem nemur kostnaði launa í byggingarvísitölu og að einhverju leyti inni í framfærsluvísitölunni. Að vísu hafa komið svör við þessu á þann veg að ríkisstjórnin hugsi málið helst þannig að hér verði um tvær lánskjaravísitölur að ræða, gömlu lánskjaravísitöluna og síðan nýju lánskjaravísitöluna á nýjum fjárskuldbindingum. En það út af fyrir sig leysir engin vandamál þó að hér verði tvær lánskjaravísitölur. --- Úr því að hæstv. sitjandi forsrh. er mættur hér í þingsal langar mig til að beina þeirri spurningu til hans: Er það rétt skilið að frá og með 1. jan. nk. eða strax upp úr áramótum verði um tvenns konar lánskjaravísitölu að ræða í peningakerfi landsmanna þannig að öll ný útlán, sem á annað borð eiga að verðtryggjast, verði með nýju lánskjaravísitölunni, en öll gömlu lánin eigi að fylgja gömlu lánskjaravísitölunni þannig að við munum skrá hér tvenns konar lánskjaravísitölu eins lengi og þurfa þykir?
    Hvað það varðar að ekki sé hægt að aftengja lánskjaravísitöluna eins og við höfum lagt til vegna þess að það séu alls konar samningar sem hindri það, þá get ég ekki svarað öðru til en því að það er ofur einfalt að fela bankakerfinu að gangast fyrir allsherjar skuldbreytingu. Ekkert ætti í raun og veru að vera auðveldara. Ég vorkenni bankakerfinu ekki nokkurn skapaðan hlut, með öllum þeim aragrúa af mannskap sem þar starfar, að taka það verkefni að sér að skuldbreyta öllum lánum sama dag og lánskjaravísitalan er tekin úr sambandi.
    Við vitum ekki betur en það sé mjög algengt og reyndar erum við oft að tala um það í sambandi við meðhöndlun lánsfjárlaga hverju sinni að þar sækjast ríkisstofnanir og allir þeir sem hafa tekið mikil og löng erlend lán eftir skuldbreytingum. Það er sífellt verið að skuldbreyta erlendum lánum í takt við að betri lánskjör bjóðast. Alveg á sama hátt er hægt að skuldbreyta öllum lánskjaravísitölulánum ef menn kysu að taka vísitöluna úr sambandi og taka þá upp annars konar lánsform og skal ég víkja að því nokkru síðar. Meðan við erum að tala um afleiðingar lánskjaravísitölunnar, þá hef ég m.a. rakið það að nokkru í grg. sem ég lagði fram með frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka og langar mig að

fá að lesa hér stuttan kafla úr þeirri grg., með leyfi virðulegs forseta, um lánskjör:
    ,,Það sem hefur í mörg ár gert lánveitingar illframkvæmanlegar á Íslandi er verðbólgan. Með almennri verðtryggingu útlána, sem hófst um 1980, hefur verið reynt að gera útlán almennt og sér í lagi löng veðskuldalán óháð verðbólgunni. Lánskjaravísitalan var tekin upp 1. júní 1979 í samræmi við svokölluð Ólafslög frá sama ári. Um fátt hefur verið meira deilt í umræðu um efnahagsmál á Íslandi en lánskjaravísitöluna og áhrif hennar. Hún hefur að margra dómi reynst hinn mesti bölvaldur í íslensku efnahagslífi, en aðrir telja að hún sé forsenda fyrir heilbrigðu efnahagslífi. Þróun efnahagsmála eftir að lánskjaravísitalan kom til sögunnar hefur hins vegar ekki verið sérlega
hagstæð ef litið er á breytingar á nokkrum þekktum efnahagsstærðum síðustu tíu árin.
    Í töflu 1 er sýnd þróun gjaldeyrisvísitalna, þ.e. vestur-þýsks marks (DM), bandarísks dals (USD), ensks punds (BPD) og danskrar krónu (DKK), og enn fremur þróun lánskjaravísitölu, byggingarvísitölu, launavísitölu og kaupgjaldsvísitölu tímabilið 1979 til 1988. Allar vísitölurnar eru hundraðastilltar miðað við júní 1979, en þá var lánskjaravístalan fyrst skráð. Gengisvísitölurnar eru reiknaðar miðað við meðalgengi hvers árs, en aðrar vísitölur eru júnítölur hvers árs.``
    Árið 1979 eru sem sagt allar þessar tölur hundraðastilltar, en þróunin hefur þá verið með þeim hætti að árið 1988 er þýskt mark komið í 1252 stig, bandaríkjadollar í 1209 stig, breskt pund í 1008 stig og dönsk króna í 934 stig. Þá er lánskjaravísitala komin í 2051 stig, byggingarvísitala í 1751 stig og launavísitala í 2060 stig sem er mjög athyglisvert.
    Þetta segir okkur það að fyrirtæki í sjávarútvegi, sem hefði tekið, við skulum segja, 10 millj. kr. að láni 1. júní 1979 á lánskjaravísitölu og ekki borgað neitt af láninu, skuldaði í dag 205 millj. íslenskra króna. Ef þetta sama fyrirtæki hefði fengið að taka erlent lán beint, það hefði t.d. fengið að taka 10 millj. kr. að láni í dönskum banka, þá skuldaði þetta fyrirtæki 93 millj. kr. Er það nema von að allt atvinnulíf hér sé á hausnum þegar þróunin hefur verið með þessum hætti! Jafnvel þótt þetta fyrirtæki hefði tekið erlent lán í þýskum mörkum þá skuldaði það samt ekki nema 125 millj. kr. En með því að taka lán á lánskjaravísitölu skuldar það 205 millj. kr. Þetta er náttúrlega gjörsamlega út í hött. Það þarf enginn að vera neitt hissa á því þó að allt sé hér á hausnum eins og þessi mál hafa þróast, enda er svo komið að sumir opinberir fjárfestingarsjóðir hafa notfært sér þetta furðulega ástand með því að taka erlend lán á hagstæðum kjörum og endurlána þau út á lánskjaravísitölu og hafa af því umtalsverðan hagnað.
    Svo að ég haldi áfram að vitna í fyrrnefnda greinargerð, þá stendur þar, með leyfi forseta:
    ,,Tölurnar í þessari töflu segja alla söguna. Fram til 1985 virðist allt með felldu og gengisskráning breytist í takt við verðlagsþróunina. Upp úr því fer allt úr böndum og verðlag innan lands geysist fram miðað

við nágrannalöndin. Svo virðist sem gengið sé nú vitlaust skráð sem nemur tugum prósenta. Á þennan hátt virðist lánskjaravísitalan hafa haft óbærilegar afleiðingar fyrir allt efnahagslíf landsmanna, einkum útflutningsfyrirtæki sem ramba nú flest á barmi gjaldþrots. Hefðu einstaklingar og atvinnufyrirtæki fengið að taka erlend lán beint í þeim erlendu gjaldmiðlum, sem taflan sýnir, væri skuldastaðan allt önnur og betri en með innlendum lánum á lánskjaravísitölu.
    Kaupgjaldsvísitalan sýnir mjög vel hvernig launafólki hefur reitt af í verðbólgubálinu þar sem lánskjörin eru stillt eftir verðbólgunni en launin ekki. Enda urðu menn sammála um að taka hana úr sambandi í ágúst 1986.`` --- En þá var hún 986 stig meðan lánskjaravísitala var komin upp í 1448 stig. --- ,,Misgengishópurinn, sem varð að þola stórhækkun lánskjaravísitölu umfram kaupgjaldsvísitölu á árunum 1983--1984, hefur enn ekki fengið leiðréttingu sinna mála hvað húsnæðislánin áhrærir. Þróun launavísitölunnar, en mjög er umdeilt hvort hún sýni rétta mynd af afkomu launafólks, er ekki mikið hagstæðari.`` --- Ég vil skjóta hér inn í að inni í launavísitölu eru reiknaðar ýmsar stærðir svo sem launaskrið, yfirvinnugreiðslur og bónusgreiðslur sem gera það að verkum að ýmsir fulltrúar launþega telja að launavísitalan mæli meiri kaupmátt en er í raun. En það er mjög athyglisvert að launavísitalan fór fram úr lánskjaravísitölu líklega seinni hluta árs 1987 og sýnir að sjálfsögðu þá miklu kaupmáttaraukningu sem varð á árinu 1987 og á fyrstu mánuðum ársins 1988. Því skal ekki á móti mælt. Enda segir hér í greinargerðinni, svo ég haldi áfram, virðulegur forseti:
    ,,Kaupmáttaraukningin 1987 sýnir þó hagstæða útkomu árið 1988. Það að breyta lánskjaravísitölunni, þannig að launin vegi þyngra eða allt að 70% í vísitölunni, [eins og ríkisstjórnin fyrirhugar] virðist vera stórhættulegt. Má búast við því að lánskjaravísitalan taki kipp upp á við þegar samningar verða á ný frjálsir á næsta ári og haldi áfram að skrúfa upp verðbólguna sem aldrei fyrr. Sjálfvirk tenging vísitalna við mikilvæga þætti efnahagslífsins svo sem fjárskuldbindingar og laun er afar óheppileg og verðbólguhvetjandi.`` --- Og svo ég skjóti hér aftur inn í, þá er það mjög frægt mál að til Seðlabanka Íslands barst skýrsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, líklega vorið 1987, þar sem það kvað vera sagt beinum orðum að lánskjaravísitalan sé stórhættuleg fyrir íslenskt efnahagslíf og sé verðbólguhvetjandi. Þessi skýrsla mun lokuð inni í peningaskáp í skrifstofu yfirbankastjóra Seðlabankans og er þar geymd sem algjört leyniplagg og fá engir hana að sjá.
    Formaður Borgfl. óskaði eftir því við hæstv. viðskrh., reyndar í tíð fyrri ríkisstjórnar, að við fengjum að sjá þessa skýrslu. Upphaflega hafði verið leitað beint til Seðlabankans en hann neitaði algjörlega að láta þessa skýrslu
af hendi og taldi hana algjört trúnaðarmál, leyniplagg eins og ég gat um. En hæstv. viðskrh. lét til leiðast og sendi okkur ritskoðaðan hluta úr þessari skýrslu.

Afrit af þessari skýrslu barst okkur því í hendur þar sem búið var að sverta út ákveðnar setningar og líma yfir vissa kafla í skýrslunni, líklega þá kafla sem koma fremur illa við þá sem stjórna efnahagsmálum á Íslandi. En það sem eftir stóð var næsta lítið bitastætt og höfum við haft lítið um það að segja frekar sem þar stendur. Ég mundi þó fagna því að fá að lesa þessa skýrslu ef hún verður einhvern tíma sótt inn í peningaskáp virðulegs yfirbankastjóra Seðlabankans. Það kann að vera að það verði ekki fyrr en einhvern tíma á næstu öld þegar hún verður orðin sögufrægt plagg, en það verður þá gaman fyrir alþjóð að fá að vita hvað raunverlega stóð í þessari skýrslu. ( GHG: Við breytum bara lögunum um Seðlabankann.) Já, ég skal taka undir með hv. þm. og gera það.
    Þá langar mig til að fjalla hér aðeins um hvað við gætum hugsað okkur að taka upp í staðinn fyrir lánskjaravísitölu, en í greinargerðinni segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í frumvarpinu er því einungis gert ráð fyrir að heimilt verði að verðtryggja lán en jafnframt bent á aðra valkosti. Nágrannaþjóðirnar hafa ekki nema að litlu leyti farið inn á þá braut að verðtryggja lán. Finnar voru einir Norðurlandaþjóðanna með almenna verðtryggingu fjárskuldbindinga fram til 1967 er þeir tóku sína lánskjaravísitölu úr sambandi. Efnahagsástand í Finnlandi er nú betra en það var áður og verðbólga mjög lítil. Í Danmörku er boðið upp á vísitölutengd lán í einhverjum mæli.``
    Svo ég skjóti inn í, þá bjóða danskar húsnæðislánastofnanir upp á svokölluð indexlán, þ.e. vísitölutengd lán. Þau eru þá tengd við kaupgjaldsvísitölu og það eru hliðarákvæði í slíkum skuldabréfum þess efnis að ef launaþróun fer eitthvað aftur úr, þ.e. tímalaun verkamanns fylgja ekki kaupgjaldsvísitölunni eftir, þá beri að endurskoða verðtryggingarþátt lánanna þannig að þau mega aldrei hækka meira en sem nemur verðlagsþróun ef miðað er við tímakaup verkamanns. Það er mjög fróðlegt út af fyrir sig að velta því fyrir sér hvernig Danir líta á slík lán, en í greinargerðinni segir áfram:
    ,,Yfirleitt er fólki ráðið frá því að taka slík lán og fremur hvatt til að taka venjuleg skuldabréfalán með afföllum. Vísitölubundin lán eru talin koma helst til greina þar sem hægt er að tengja rekstur fasteigna við sömu vísitölu. Þannig má hugsa sér að nota vísitölubundin lán til byggingar leiguíbúða þar sem húsaleigan fylgir sömu vísitölu.`` --- Þannig gengur nefnilega dæmið upp án þess að íbúðarnotandinn, þ.e. leigjandinn, þurfi endilega að fara á hausinn. Eða eigandinn öllu heldur, sá sem á að borga af lánunum, hann fer ekki á hausinn vegna þess að honum eru tryggðar tekjur sem fylgja sömu vísitölu og lánin sem eru bundin í húsinu.
    Í greinargerðinni er vikið að annars konar lánsformum:
    ,,Húsnæðislán í formi vaxtaaðlögunarlána (rentetilpasningslan) ryðja sér til rúms í nálægum löndum. Þau byggja á því að fyrir t.d. 40 ára veðlán

er samið um fasta vexti til ákveðins tíma, t.d. fimm ár í senn. Gengi skuldabréfsins er háð vöxtunum sem samið er um í upphafi hvers vaxtatímabils og þar með ljóst hver lánsupphæðin er. Við upphaf næsta vaxtatímabils er svo samið um fasta vexti til næstu fimm ára. Er þá gamla lánið endurgreitt með nýju láni og svo koll af kolli. Afborgunarrunan er hins vegar miðuð við 40 ára lánstíma og lánið er í raun veitt til þess tíma þótt það sé endurreiknað á t.d. fimm ára fresti. Þannig er tekið tillit til verðlagsþróunar á skynsamlegan hátt. Lántakandinn situr ekki uppi með lán þar sem lánsupphæðin, þ.e. skuldin, hækkar í sífellu þrátt fyrir stöðugar afborganir.``
    Þessi lán ryðja sér nú mjög til rúms bæði í Þýskalandi og Danmörku og eru talin afar heppilegt lánsform. Þá má enn fremur benda á það að t.d. húsnæðislánastofnanir bæði í Danmörku og í Þýskalandi hafa haft frumkvæði að því að reyna að breyta lánskjörum á skynsamlegan hátt þannig að þau komi betur við lántakandann. Þannig hefur t.d. mikið verið gert af því undanfarið að falla frá lánum, svokölluðum annuitetslánum, þar sem afborgun og vextir eru föst upphæð --- að vísu þarf að breyta henni í takt við lánskjaravísitöluna á hliðstæðum íslenskum lánum --- þ.e. greiðslubyrðin er jöfn allan lánstímann. Í upphafi eru vextir mjög háir og afborgun lítil en síðan þegar líða fer á lánstímann þá eru vextirnir minni og afborgunin hækkar. Þetta hefur það í för með sér að endurgreiðsla lánsins til lánveitandans er mjög lítil í upphafi lánstímans og skuldin lækkar mjög lítið sem er ekkert víst að komi sér vel fyrir lántakandann. Það eru til svokölluð raðlán þar sem um er að ræða fasta afborgun, þ.e. afborgunarhlutinn er föst upphæð. Þá er lánið borgað t.d. með ákveðnum fjölda afborgana sem allar eru jafnstórar en vextirnir eru þá mjög breytilegir eftir því hver skuldastaðan er hverju sinni. Með því að blanda þessum tveimur lánsformum saman, og þá er talað um blönduð lán, er hægt að fá fram miklu heppilegri endurgreiðslu lánsins sem kemur sér betur bæði fyrir þann aðilann sem lánar og þann sem tekur lánið. Það má vel vera að það væri t.d. hægt að laga mjög greiðslustöðu húsbyggingarlánasjóðanna ef endurgreiðsla
lánanna væri aðeins meiri en er í núverandi kerfi.
    Þá langar mig að lokum, áður en ég yfirgef þennan þátt bráðabirgðalaganna, að benda á eitt lánsform enn sem við víkjum að í greinargerð okkar með húsnæðislánafrv.:
    ,,Að lokum er rétt að minnast á lán með greiðslumarki og afkomutryggingu. Þau eru byggð á bandarískri fyrirmynd en einnig er farið að tala um afborgunartryggingu í nálægari löndum svo sem í Danmörku. Lántakandi, sem fær t.d. 25 ára veðlán, semur um það við húsbankann að sett sé greiðslumark á lánið, þ.e. mánaðarleg eða árleg greiðslubyrði af láninu, vextir, afborgun, hugsanleg verðtrygging o.fl., fari ekki upp fyrir greiðsluþol hans miðað við þær tekjur sem hann hefur við upphaf lánstímans. Samhliða greiðslumarksláninu er keypt afkomutrygging

þannig að tryggingafélag tekur að sér að greiða mismun á greiðslumarki og greiðsluþoli lántakanda við atvinnumissi, veikindi, missi maka eða annað óvænt sem hefur áhrif á afkomu lántakandans. Oft er afkomutryggingin tekin á þann hátt að lánstíminn er lengdur, t.d. úr 25 árum í 35 ár, án þess að greiðslubyrði vegna lánsins sé minnkuð. Mismunurinn, þ.e. það sem greiðslubyrðin hefði átt að minnka um, er iðgjaldið sem lántakandinn greiðir fyrir afkomutrygginguna. Þannig er á einfaldan og hagkvæman hátt komið í veg fyrir að lántakandinn lendi í greiðsluerfiðleikum sem því miður er að verða regla fremur en undantekning hjá stórum hópi íslenskra lántakenda.
    Það er skoðun flm. að væru einhverjar af þeim hugmyndum sem hér hefur verið lýst notaðar til að bæta húsnæðislánakerfi landsmanna mundi stórt skref verða stigið í þá átt að koma okkur út úr þeim ógöngum sem við búum við í húsnæðislánamálum.`` --- Ég held að það geri ekkert til þótt ég láti þessa síðustu setningu fljóta hér með því að það er svo sannarlega staðreynd að ef við gætum á einhvern hátt lagfært þau mál, þá yrði efnahagskerfið hér og afkoma almennings öll önnur og betri.
    Ég hef heyrt allar mótbárurnar sem peningasérfræðingarnir hafa komið með gegn því að afnema eða aftengja lánskjaravísitöluna. Nú segi ég viljandi að ,,aftengja`` lánskjaravísitöluna því ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að lánskjaravísitala verði áfram reiknuð, og þá gamla vísitalan. Ég hef nefnilega engan áhuga á því að breyta lánskjaravísitölu, eins og hæstv. ríkisstjórn áformar. Hún verði birt mánaðarlega eins og verið hefur og þeir aðilar sem eru að semja sín á milli geti haft hana til viðmiðunar við sínar ákvarðanir. En ég tel aldeilis fráleitt að það skuli vera sjálfvirk tenging við hvers kyns vísitölur þannig að ef kaffi hækkar í Brasilíu þá hækki allar innstæður íslenskra sparifjáreigenda. Þetta er algjörlega fráleitt.
    Þá er og annað sem er vert að hafa í huga. Peningahyggjumennirnir, þeir sem eru að spila hér á svokölluðum fjármagnsmörkuðum, sem æpa hvað hæst ef minnst er á það að lánskjaravísitala skuli aftengd, tala um að markaðurinn geri ákveðna raunvaxtakröfu og hún er í þeirra huga eitthvað á bilinu 10--20%. Þá varðar ekkert um það hvort það sé eitthvert atvinnulíf á Íslandi sem geti borið uppi slíka vexti. Nei, þeim er ósárt um það þótt allt atvinnulífið nánast bara hverfi. Því að það er þá óskilgreint hjá þeim hverjir eigi upphaflega að leggja til fjármagnið. Það er eins og þeir telji að fjármagnið spretti upp af sjálfu sér, síðan geti þeir leikið sér með fjármagnið fram og aftur og séð til þess að markaðurinn haldi uppi einhverri raunvaxtakröfu upp á 20%. Staðreyndin er einfaldlega sú að hér verður vaxtastigið að vera í takt við það sem atvinnulífið skilar af sér. Ef atvinnulíf landsmanna er svo illa statt að það stendur ekki undir nema 1--2% raunvaxtastigi, þá verður svo að vera. Þá verðum við bara að bíta í það súra epli að atvinnulífið stendur ekki undir hærra raunvaxtastigi. Leiðin til þess að hækka raunvaxtastigið er ekki önnur en sú að það

verður að gera atvinnulífið virkara og betra þannig að fyrirtækin hagnist meira og geti staðið undir hærri vöxtum. Svo einfalt er málið. En að tala um að hér eigi að vera markaðsvextir upp á 10--20% og svo erum við með atvinnulíf sem þolir kannski 1--2% markaðsvexti! Þetta er bara tómt bull!
    Ég ætla ekki að halda lengur áfram að vera hér með kennslustund fyrir fjármagnsspekúlantana, hvernig megi tryggja það að fjármunir brenni ekki upp í verðbólgunni. Það má þó benda á að nú á tölvuöld er enginn vandi fyrir bankakerfið að reikna dagvexti á sparisjóðsinnstæður. Það má reikna nafnvexti í takt við verðbólguna. Og það er ekkert auðveldara fyrir bankakerfið, með þeim tölvukosti sem það ræður yfir, en að breyta nafnvöxtum daglega ef þurfa þykir.
    Þá er eðlilegt og sjálfsagt að notfæra sér það lánsform sem er í gildi í öllum nágrannalöndunum. Þar er yfirleitt um að ræða skuldabréfalán með afföllum. Það kann vel að vera að mönnum þyki greiðslubyrði slíkra lána vera of há við upphaf lánstímans, en það kynni nú að vera að fjárfestingarfylliríið sem hefur verið hér á Íslandi undanfarin missiri, aðallega þó hjá ýmsum fyrirtækjum, væri kannski eilítið minna ef greiðslubyrði lána væri svolítið þyngri í upphafi lánstímans eins og er yfirleitt í flestum nágrannalöndunum, frekar en að taka stór og mikil fjárfestingarlán þar sem greiðslubyrðin er
nánast engin í upphafi. Þegar svo lánskjaravísitalan hefur skrúfað upp höfuðstólinn, þá kemst allt í þrot nokkrum árum síðar og fyrirtækin ráða ekkert við að borga af þessum lánum. Ætli sú aðgerð mundi ekki hvað best verða til þess að lækna hið sjúka íslenska efnahagslíf og atvinnulíf ef menn yrðu að taka lán með þeim hætti að greiðslubyrði lána við upphaf lánstímans væri verulega þyngri en hún er á svokölluðum lánskjaravísitölulánum?
    Virðulegur forseti. Ég held að ég fari nú að stytta mál mitt. Það er aðeins eitt atriði enn sem mig langar til að vekja athygli á þegar við þessa umræðu, en það er brtt., sem við að vísu leggjum fram við Steingrímslögin sem við eigum eftir að taka til umræðu hér síðar meir, en hún lýtur að því að ríkisstjórnin standi við það sem hún setti í stefnuskrá sína, að útvega 150 millj. kr. að láni til þess að koma til móts við illa stadda einstaklinga og fjölskyldur sem eru í nauðum. Við höfum flutt brtt. sem miðar að því að útvegaðar verði 250 millj. kr. til þess að bjóða einstaklingum og fjölskyldum sem eru í nauðum staddar upp á skuldbreytingarlán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, bönkum og sparisjóðum. Við teljum nefnilega að það sé nauðsynlegt að auka þessa fjárhæð miðað við það sem stendur í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar vegna þess að ég hef skilið hana svo --- og ég veit ekki hvort hæstv. sjútvrh., sem nú gegnir einnig forsætisráðherraembættinu, heyrir til mín --- en mér skilst að hugmyndin sé að þessari upphæð hefði átt að verja til þess að styrkja starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins í sambandi við veitingu greiðsluerfiðleikalána. En það eru fleiri einstaklingar og fjölskyldur í nauðum

staddar en þeir sem hafa farið í fjárfestingu vegna íbúðarhúsnæðis. Það er fullt af einstaklingum, og þeir eru ótrúlega margir hér í þessu þjóðfélagi, sem eiga í miklum erfiðleikum. Það líður ekki sá dagur að það sé ekki haft samband við okkur þingmenn Borgfl. af ýmsum einstaklingum alls staðar að af landinu sem eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og vita oft ekki sitt rjúkandi ráð út úr þeim ógöngum. Þess vegna höfum við lagt það til að þessi skuldbreyting verði gerð almennari þannig að a.m.k. 100 millj. kr. verði varið til þess að skuldbreyta í bankakerfinu lausaskuldum fjölskyldna og einstaklinga sem eru í miklum nauðum.
    Mig langar að lokum til að rifja hérna upp að álíka aðgerð var gerð í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens. Þá var fólki boðið upp á skuldbreytingu í bönkum og sparisjóðum sem fór fram með þeim hætti að einstaklingar söfnuðu saman yfirliti yfir allar lausaskuldir sínar og fóru með það í þann banka þar sem þeir skulduðu mest og sá banki tók að sér að breyta lausaskuldunum í langt lán til átta ára. Ég held að það sé kominn aftur tími til að koma til móts við einstaklinga og fjölskyldur sem eru í nauðum staddar með þessum hætti. Skal ég ekki hafa orð mín lengri að sinni, virðulegur forseti.