Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 09. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Því ber að fagna að í þessum önnum Alþingis skuli hæstv. ríkisstjórn hafa kosið að draga húsnæðismálin til umræðu. Í blaðafréttum og fjölmiðlafréttum að undanförnu hefur komið fram að ágreiningur sé á milli hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. um fjárframlög til húsnæðislánasjóðanna. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrst hæstv. ríkisstjórn hefur sjálf ákveðið að draga húsnæðismálin inn til umræðu fyrir jólin að hæstv. félmrh. geri þinginu mjög ítarlega grein fyrir þeim ágreiningi sem uppi er í þessu efni og ég saknaði þess að sú greinargerð skyldi ekki vera flutt í ítarlegu máli.
    Hæstv. ráðherra vék að því að ríkisstjórnin hefði ekki enn komist að niðurstöðu um hvernig hún ætlaði að framkvæma fyrirheit sitt um sérstaka lánveitingu til þeirra sem eru í greiðsluerfiðleikum en vék að því að hugmyndir væru uppi um að tvískipta því átaki. Það er nokkuð frábrugðið þeim stóru yfirlýsingum sem um þetta voru gefnar í haust þegar þessi ríkisstjórn var mynduð. Hitt vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra um. Meðan ríkisstjórnin hefur ekki fundið leið eða komið sér saman um að útvega þetta fjármagn til þess að mæta erfiðleikum þeirra húsbyggjenda og húskaupenda sem verst eru settir er hæstv. ríkisstjórn að knýja í gegnum þingið nýja stórkostlega skattlagningu á húsbyggjendur, unga fólkið sem er að glíma við það að koma sér þaki yfir höfuðið. Telur hæstv. ráðherra það vera réttlætanlegt að knýja fram þessa skattheimtu á unga fólkið og húsbyggjendurna áður en ríkisstjórnin hefur afgreitt þetta fyrirheit? Um er að ræða skattlagningu sem felur í sér margfaldar byrðar á við það sem á að létta undir með þessu fólki með greiðsluerfiðleikalánunum. Hvernig kemur það heim og saman að vera að leggja þessar nýju byrðar á húsbyggjendur og geta svo ekki staðið við fyrirheit sem gefið var fyrir nokkrum mánuðum síðan? Vill hæstv. félmrh. beita sér fyrir því að ríkisstjórnin fresti áformum sínum um að leggja nýjar byrðar á húsbyggjendur meðan hún er enn að leita að leiðum til þess að létta undir með þeim sem verst eru settir í þessu efni? Það er nauðsynlegt að fá mjög skýr svör við þessu af hálfu hæstv. ráðherra.
    Það skýtur svo nokkuð skökku við að fyrst í dag var lagður fram listi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar yfir þau mál sem hún leggur fram sem forgangsmál og vill fá afgreiðslu á fyrir jólaleyfi. Á fyrsta degi sem þessi forgangslisti liggur fyrir gerist það tvennt að aðaltalsmaður Framsfl., forystuflokksins í ríkisstjórninni, lýsir því yfir að málið eigi ekki að vera forgangsmál og að Framsfl. hafi fyrirvara um stuðning við frv. Hér liggur fyrir stjfrv. sem Framsfl. hefur fyrirvara um og aðaltalsmaður Framsfl. í húsnæðismálum lýsir því yfir að það eigi ekki að vera á forgangslista hæstv. ríkisstjórnar. Það er, herra forseti, alveg nauðsynlegt áður en lengra er haldið að fá úr því skorið hvort þetta mál sé á forgangslistanum eða ekki. Er samstaða um málið á milli ríkisstjórnarflokkanna eða er ekki samstaða um það? Á að knýja hér í gegn breytingar á

húsnæðislöggjöfinni sem ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki sammála um og forystuflokkurinn hefur allan fyrirvara um? Er slíkt mál sett á forgangslista? Ég óska eftir skýrum svörum við þessu. --- Ég sé að hæstv. félmrh. er reyndar eini talsmaður ríkisstjórnarinnar í þingsalnum í umræðum um þetta forgangsmál og ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra getur svarað um þetta efni en það væri ástæða til að hæstv. sjútvrh., sem gegnir störfum forsrh., svaraði því áður en umræðunni lýkur hvort málið er forgangsmál. Mál sem talsmaður Framsfl. í húsnæðismálum hefur lýst ágreiningi um og telur að eigi ekki að vera forgangsmál. Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. gefi skýr svör við þessum spurningum áður en umræðunni lýkur.