Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki tefja umræður sem hér þurfa að fara fram í dag á þessum fundi, en það eru fáir dagar til jóla og þess vegna eðlilegt að aðeins sé rætt um þinghaldið. Fundartími í dag er breyttur frá því sem venja er samkvæmt samkomulagi á milli forseta og formanna þingflokka. Mig langar hins vegar til að upplýsa að nú bíða 22 fyrirspurnir munnlegs svars og 14 fyrirspurnir skriflegs svars. Sumar hafa beðið alllengi, aðrar skemur. Sumum er auðvelt að svara, önnur svör eru hins vegar nánast skýrslugerðir og taka langan tíma, en ég vil minna á að einfaldar fyrirspurnir, sem sendar voru viðkomandi ráðherrum fyrir hér um bil þremur vikum, hafa enn ekki komið inn í sali þingsins, hvorki í formi munnlegra né skriflega svara. --- Er ekki fundur örugglega byrjaður? Mér þætti vænt um, virðulegur forseti, ef það væru ekki margir fundir í einu í salnum. Þó að það sé full hagræðing í því, þá er sameinað þing til þess gert að þar sé einn fundur en ekki tveir og allra síst margir í senn.
    Þáltill. eru a.m.k. 35 sem bíða þess að verða sendar til nefnda og flestar eru algerlega óræddar. Þetta stafar m.a. af því að varaþingmenn hafa haft forgang samkvæmt venju, en enn fremur vegna þess að eðlilega hefur nokkur tími farið til umræðna utan dagskrár um mál sem efst hafa verið á baugi.
    Mig langar, virðulegur forseti, til að óska eftir því sérstaklega að séð verði fyrir fundardegi fyrir jólaleyfi fyrir þáltill. svo að það gefist kostur á að senda þær til nefnda og nefndir geti síðan sent þær til umsagnar þannig að þær umsagnir gætu legið fyrir þegar jólaleyfi þingmanna lýkur. Ég vil enn fremur óska eftir því að séð verði fyrir því að ráðherrar, sem vilja eða þurfa að vera við viðkomandi umræður, verði þá hér þannig að umræður geti gengið greitt fyrir sig. Ég tek það fram að sumar þessara tillagna hafa legið fyrir þinginu frá því í október. Mér finnst ekki óeðlilegt, miðað við þann þrönga tíma sem eftir er til jóla, að umræður um þáltill. fari fram á föstudegi eða laugardegi sem er utan hins venjulega fundartíma hins háa Alþingis.
    Ég vil sem sagt, virðulegur forseti, óska eftir því að það gefist tækifæri til þess í einn þingdag að ræða og koma til nefnda þáltill. sem nú eru um það bil 35 og bíða umræðu og afgreiðslu.