Samkomulag um loðnuveiðar Norðmanna
Mánudaginn 12. desember 1988

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Með tillögu þeirri sem hér liggur fyrir Sþ. er þess farið á leit við Alþingi að það heimili staðfestingu samkomulags milli Íslands og Noregs frá 1. þ.m. um loðnuveiðar Norðmanna í íslenskri lögsögu á vertíðinni 1988--1989. Samkomulagið er birt sem fskj. með tillögunni. Til stóð að utanrmn. flytti þessa tillögu eins og tvö síðustu árin, en það hefur atvikast þannig að hún hefur nú verið flutt með þessum hætti.
    Samkvæmt samkomulaginu munu norsk skip fá heimild til að veiða allt að 54 þús. lestum af loðnu á vertíðinni ásamt þeim afla sem fellur í hlut Noregs verði aukning á leyfilegum afla í framhaldi af rannsóknaleiðangri í janúar nk. Samkvæmt samkomulagi milli Íslands og Noregs frá 1980 skiptist heildarafli loðnu þannig milli landanna að Ísland fær 85% en Noregur 15%. Skv. 4. gr. samkomulagsins eiga Norðmenn rétt til 15% hlutdeildar í viðbótarmagni sem ákveðið er á viðkomandi veiðitímabili.
    Af Íslands hálfu er almennt talið hagstætt að veita Norðmönnum heimild til að taka þetta viðbótarmagn á yfirstandandi tímabili frekar en draga það frá hlut Íslands á næsta veiðitímabili. Þessi háttur hefur þrisvar sinnum verið hafður á, fyrir árin 1986, 1987 og 1988.
    Aflinn 54 þús. lestir svarar til 15% af þeirri 360 þús. lesta aukningu sem þegar hefur verið ákveðin. Óvíst er hvort frekari aukning verður ákveðin í janúar nk.
    Veiðiheimildir Norðmanna takmarkast við veiðitímabilið til 15. febr. 1989, en veiðar eru auk þess bannaðar á svæði vestan 13. gráðu vestur, sunnan 64. gráðu 30 norður.
    Samkomulagið sem hér liggur fyrir var rætt við hagsmunaaðila hér á landi og rætt í utanrmn. tvisvar áður en það var undirritað. Því er í raun ekki ástæða til að vísa því til nefndar, en við munum skjóta á stuttum fundi til þess að formlegur háttur sé hafður á því fyrir síðari umræðu sem verður trúlega næsta fimmtudag.