Samningur um stofnun norræns þróunarsjóðs
Mánudaginn 12. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Með tillögu þeirri sem hér liggur fyrir á þskj. 189 er lagt til að Alþingi heimili staðfestingu Norðurlandasamnings frá 3. nóv. sl. um stofnun norræns þróunarsjóðs. Í athugasemdum við tillöguna er rakinn aðdragandinn að stofnun sjóðsins, en hugmyndin mun upphaflega hafa komið fram á þingi Norðurlandaráðs árið 1984. Samningurinn er birtur sem fskj. með tillögunni ásamt samþykktum fyrir sjóðinn, en hvort tveggja er byggt á tillögum norrænu ráðherranefndarinnar á þingi Norðurlandaráðs í mars sl.
    Markmiðið með stofnun þessa sjóðs er að örva félagslegar og efnahagslegar framfarir í þróunarlöndunum með því að veita lán sem eru með kjörum Alþjóðaþróunarstofnunarinnar, International Development Association. Þessi lán eru ýmist vaxtalaus eða með mjög niðurgreiddum vöxtum. Lána skal fyrst og fremst til verkefna þar sem norrænir hagsmunir eru í húfi af hálfu verktaka eða annarra verkseljenda og aðrar lánastofnanir, eins og t.d. Norræni fjárfestingarbankinn, lána einnig til framkvæmdanna á venjulegum kjörum. Með þessum hætti verður unnt að hleypa af stokkunum verðugum og nauðsynlegum verkefnum sem e.t.v. mundu þó ekki annars standast ýtrustu hagkvæmnikröfur venjulegra lánastofnana. Auk þess fengju Norðurlönd þarna samkeppnistæki til að keppa við ýmsar aðrar iðnaðarþjóðir sem margar hafa við hliðina á sínum venjulegu framkvæmdalánastofnunum ,,mjúk lán`` eins og þau eru oft kölluð.
    Stofnfé sjóðsins er 100 millj. SDR sem greiða skal á fimm árum. Þar af er hlutur Íslands um 55,9 millj. kr. eða um 11,2 millj. kr. á ári miðað við núverandi gengi. Stjórn sjóðsins skal skipuð einum fulltrúa frá hverjum Norðurlandanna tilnefndum af viðkomandi ríkisstjórnum. Það er gert ráð fyrir að sjóðurinn taki til starfa 1. jan. nk. og hafi aðsetur í skrifstofu Norræna fjárfestingarbankans í Helsingfors. Það skal fram tekið að þessi sjóður hefur þegar starfað á undirbúningsskeiði það sem af er þessu ári og hafa Íslendingar tekið þátt í því starfi. Ríkisstjórnin hyggst á næstunni flytja frv. til l. vegna ákvæða í samningnum um undanþágu frá skattlagningu og fleira.
    Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að þessari þáltill. verði að lokinni umræðunni vísað til hv. utanrmn.