Samningur um stofnun norræns þróunarsjóðs
Mánudaginn 12. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Reykv. og 7. þm. Reykn. fyrir stuðning við stjtill. sem hér er til umræðu. Vegna fsp. hv. 7. þm. Reykn. vil ég segja að ég tel að fréttir í Dagblaðinu Vísi, sem hann vitnaði til og hafðar voru eftir íslenskum lánasjóðsmanni eða starfsmanni í fjármögnunarfyrirtæki, hafi ekki verið á rökum reistar, enda var þeim svarað af Norræna fjárfestingarbankanum síðar í sama blaði og þar var rakið að gagnrýnin var að verulegu leyti á misskilningi byggð.
    Það er rétt að á Íslandi hafa aðstæður ráðið því að opinberir aðilar standa á bak við mörg þau fyrirtæki sem lán hafa fengið úr bankanum. Það er þó alls ekki rétt að það gildi um þau öll og það er heldur ekki rétt að þar hafi yfirleitt verið krafist opinberra ábyrgða. Fyrsta og lengi vel eitt stærsta lán Norræna fjárfestingarbankans er einmitt dæmi um það en það var til Íslenska járnblendifélagsins sem vissulega er í eigu íslenska ríkisins að rúmlega hálfu. Þar voru tryggingarnar eingöngu veð í eignunum. Í öðrum tilfellum hefur verið um að ræða sjálfskuldarábyrgðir eigenda eða a.m.k. af bankans hálfu boðið upp á þær. Ég tel að sé hlutlaust á málið litið og farið yfir sögu lánveitinga Norræna fjárfestingarbankans til Íslands frá stofnun hans árið 1976 muni hver maður geta séð að þar hafi verið lánað eftir aðstæðum á mjög skynsamlegan hátt og trygginga krafist í samræmi við eðli framkvæmdarinnar í hvert sinn.
    Ég tek undir þær óskir sem komu fram í máli beggja hv. þm. sem hér töluðu áðan um að stofnun þróunarsjóðsins geti orðið til þess að auðvelda Íslendingum þátttöku í verkefnum í þróunarlöndum og ég er sannfærður um að þeir muni þar njóta aðgangs í samræmi við það sem þeir hafa til málanna að leggja og fram að bjóða. Ég er þess fullviss að þetta nýja tæki til þróunaraðstoðar og til örvunar á útflutningsverkefnum frá Norðurlöndum muni reynast okkur sérstaklega vel.