Afgreiðsla þingmála
Mánudaginn 12. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það varð samkomulag um að bráðabirgðalögin skyldu koma til umræðu og sitja fyrir hér í deildinni, og ég skildi það svo að í því fælist að umræður um bráðabirgðalögin mættu ekki afgangi á einum fundi á eftir öðrum, hvað eftir annað. Það er mjög liðið á þennan mánuð og nauðsynlegt að koma bráðabirgðalögunum áleiðis. Ég viðurkenni það að vísu að um það var rætt á sínum tíma að ljúka bráðabirgðalögunum á morgun en við höfum orðið varir við það, a.m.k. þeir þingmenn sem í stjórnarandstöðunni sitja, að það verður æ knappari tími til fundarhalda. Það hefur raskast mjög starfsáætlun þingsins síðan það samkomulag var gert í fjh.- og viðskn. að bráðabirgðalögin skyldu afgreidd á morgun úr deildinni og ekkert staðið af því sem okkur var tilkynnt áður um það hvernig vinnubrögðum yrði háttað. Ég held þess vegna að það sé alveg óhjákvæmilegt að áfram haldi umræður um efnahagsaðgerðir.
    Ég vil líka vekja athygli hæstv. forseta á því að hæstv. forsrh. er í deildinni svo að það hittist vel á og þess vegna einmitt nauðsynlegt að taka frv. til umræðu. Ég hef ekki hugmynd um það hvar hann kann að vera á morgun. Ég legg því mjög áherslu á það að hægt verði að halda áfram umræðum um efnahagsaðgerðir. Ég vil líka biðja um að fleiri ráðherrar sem þau frv. varða séu viðstaddir, þannig að deildin geti afgreitt þetta mál frá sér.