Afgreiðsla þingmála
Mánudaginn 12. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þessi ræða hv. 2. þm. Norðurl. e. staðfesta það að það er brýnt að þetta frv. um framhaldsskóla komi hér til umræðu hið fyrsta. Ég bjóst satt að segja ekki við því að það mundi taka mjög langan tíma, en það er alveg bersýnilegt að menn virðast ætla að taka verulegan tíma í að ræða það mál og það er mjög brýnt mál vegna þess að það er ein af forsendum fjárlaganna sem í því frv. felst. Þegar framhaldsskólalögin voru afgreidd hér á síðasta þingi var ekki frá því gengið hvernig þær breytingar sem þau hafa í för með sér yrðu fjármagnaðar á árinu 1989. Þannig var skilið við það mál. Þess vegna er algjörlega óhjákvæmilegt að það mál komist til umræðu, mér liggur við að segja hið allra, allra fyrsta, og hafi hér forgang vegna þess að þetta er eitt af þeim málum sem ráða úrslitum um afgreiðslu fjárlaganna fyrir árið 1989. Ég mun því fyrir mitt leyti, sem menntmrh., leggja á það ofurkapp að fengnum þessum yfirlýsingum hv. 2. þm. Norðurl. e. að hæstv. forseti taki þetta mál á dagskrá hið allra fyrsta þannig að það geti fengið þá umræðu sem óhjákvæmileg er.