Afgreiðsla þingmála
Mánudaginn 12. desember 1988

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Ég lýsi fyrst og fremst furðu og um leið vanþóknun á því orðbragði sem hv. þm. Halldór Blöndal viðhefur hér í ræðustól þegar hann talar um, og ég vitna til orða hans, að ,,fokka`` við einhver smáfrumvörp. Hér er verið að tala um kostnaðarhlutdeild í rekstri framhaldsskólanna sem, eins og hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, er ein af forsendum fjárlagafrv. Og ég nefndi hér annað frv. sem fjallar um bann við ofbeldiskvikmyndum, frv. sem menntmn. þessarar hv. deildar flytur og miðar að því að koma í veg fyrir að þessi lög falli úr gildi um áramót, þannig að sú vernd sem börn og ungmenni njóta af þessum lögum verði að engu gerð. Svo kemur hv. þm. hér í stólinn og talar með ,,forakt`` og lítilsvirðingu um þau störf sem við erum að vinna hér í þessari hv. deild að því er varðar skólamál og vernd barna og ungmenna að því er varðar bannið gegn ofbeldiskvikmyndum. Ég satt að segja verð að segja það, herra forseti, að mér er gjörsamlega nóg boðið að þurfa að sitja hér undir slíkri vanstillingu, undir slíku orðbragði. Þetta er hreint með ólíkindum og erum við þó ýmsu vön frá þessum hv. þingmanni.