Framhaldsskólar
Mánudaginn 12. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir máli á þskj. 215, 184. máli þingsins, sem er frv. til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 57/1988.
    Frv. gengur út á það að fresta svokölluðum fjármála- og stjórnunarköflum framhaldsskólalaganna. Ástæðan er sú að ekki hefur verið gengið frá breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hefur verið til meðferðar á vettvangi núv. og fyrrv. ríkisstjórna um alllangt skeið. Verði af þeirri breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem nú er fjallað um er gert ráð fyrir að ríkið yfirtaki, með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessum lögum, kostnað við framhaldsskóla.
    Frv. er stutt og það er á þá leið að við gildistökuákvæði framhaldsskólalaganna bætist nýr málsl. sem orðist svo:
    ,,Ákvæði III. og VIII. kafla laganna auk ákvæða 7. og 8. gr. skulu ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1990. Þrátt fyrr 4., 5., 6., 8., 9., 12. og 13. tölul. 41. gr. skulu þau ákvæði þar tilgreindra laga, er fjalla um fjármál og kostnaðarskiptingu þeirra skóla sem þar er fjallað um og hlutverk og skipan skólanefnda þeirra halda gildi sínu fram til 1. jan. 1990.``
    Þau ákvæði sem hér um ræðir eru í fyrsta lagi í III. kafla laganna þar sem fjallað er um stofnun og byggingu framhaldsskóla. Það er um að ræða tvær greinar, 3. og 4. gr. laganna. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að kostnaður við byggingarframkvæmdir og stofnbúnað framhaldsskóla skiptist þannig að ríkissjóður greiði 60% áætlaðs kostnaðar skv. viðmiðunarreglum þegar sveitarfélag eða sveitarfélög annast ráðningu hönnuða og verkframkvæmd. Hlutur sveitarfélags eða sveitarfélaga er þá sá hluti kostnaðar sem ríkissjóður greiðir ekki og er þar miðað við 40%.
    Í 4. gr. er síðan kveðið á um að þau skólamannvirki, sem lög þessi taka til, skuli vera eign ríkis og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur eða hefur verið greiddur sé um eldra húsnæði að ræða. Verði húsnæði framhaldsskóla ráðstafað til annarra nota en framhaldsnáms skulu eignaraðilar gera með sér samkomulag þar um. Verði eign seld öðrum hvorum eignaraðila skal hún metin af dómkvöddum mönnum. Þetta var III. kaflinn.
    IV. kaflinn fjallar aftur á móti um stjórn framhaldsskólans og ekki er gert ráð fyrir því í frv. að hróflað sé við þeim kafla að öðru leyti en því að 7. og 8. gr. verði frestað. Þær greinar fjalla um skólanefndir við framhaldsskóla. Í greininni, sem allítarleg umræða varð um hér í hv. deild sl. vetur, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við hvern framhaldsskóla. Í skólanefndum skulu sitja fimm menn. Skulu fjórir tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða sveitarfélögum. Þegar um er að ræða skóla sem annast starfsmenntun skal af hálfu sveitarstjórna gætt við tilnefningu að fulltrúi viðkomandi starfsgreina eigi sæti í skólanefnd. Skipunartími skólanefnda skal vera fjögur ár og

miðast við kjörtímabil sveitarstjórna.`` Síðan segir: ,,Menntamálaráðherra skipar formann skólanefndar án tilnefningar.`` Eins og kunnugt er hafði forveri minn skipað formenn þessara skólanefnda í allmörgum tilvikum en ekki öllum rétt áður en ég kom í menntmrn. án þess að frá því hefði verið gengið hvernig skólanefndirnar yrðu skipaðar að öðru leyti.
    Þá er gert ráð fyrir því í 8. gr. hverjar séu lagaskyldur skólanefndanna og því er hér m.a. tillaga um það að þessari grein verði frestað. En hvað kemur þá í staðinn? Í staðinn koma stjórnunarákvæði þeirra laga sem í gildi eru að öðru leyti um viðkomandi skóla, þ.e. 41. gr. laganna. Þau ákvæði sem snerta stjórnir halda sér. Það eru í fyrsta lagi lög nr. 68/1966, nr. 18/1971 og nr. 68/1972 um iðnfræðslu. Í öðru lagi lög nr. 12/1970 og nr. 81/1984 um menntaskóla. Í þriðja lagi lög nr. 6/1971 og nr. 109/1974 um Hótel- og veitingaskóla Íslands. Í fjórða lagi lög nr. 1/1973, um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, lög nr. 53/1975, um hússtjórnarskóla, og lög nr. 51/1976, um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi. Öll þessi ákvæði halda sér vegna þeirrar frestunar sem hér er verið að gera á stjórnunarkafla framhaldsskólalaganna.
    Í frv. er síðan gert ráð fyrir því að V. kafli laganna haldi sér, þ.e. sá kafli sem fjallar um starfslið, sömuleiðis kaflinn sem fjallar um inntökuskilyrði en það er VI. kafli laganna. Þá er gert ráð fyrir því að kaflinn um námsskipan, sem er einn ítarlegasti kafli framhaldsskólalaganna, haldi sér óbreyttur frá því sem er í lögunum en ákvæðum VIII. kaflans, sem fjallar um rekstur framhaldsskólans, sé frestað. Þar segir: ,,Ríkissjóður greiðir skv. lögum þessum rekstrarkostnað þeirra framhaldsskóla sem ríkið rekur nú eitt sér eða í samstarfi við sveitarfélög svo og þeirra skóla sem stofnaðir verða samkvæmt ákvörðun Alþingis.`` Hér er gert ráð fyrir því að þessum kafla, þ.e. 32.--34. gr. VIII. kafla, verði frestað.
    Gert er ráð fyrir því að IX. kaflinn, sem fjallar um fullorðinsfræðslu og endurmenntun, og ýmis ákvæði í 37.--40. gr. X. kafla haldi sér.
    Þá er frá því að greina í þessu sambandi, herra forseti, að jafnvel þó að þessum lögum yrði ekki frestað er alveg augljóst mál að ekki hefur verið
staðið sem skyldi að málum þannig að skólalögin tækju gildi að fullu núna um áramótin. Reglugerðavinna er og hefur verið mjög skammt á veg komin þannig að jafnvel þó að þeir kaflar laganna, sem hér er verið að tala um, tækju gildi er alveg ljóst að það yrði í rauninni í meginatriðum að magninu til frá og með næstu áramótum. Það á sérstaklega við um IV. kaflann sem fjallar um stjórn framhaldsskólans. Það á einnig við um V. kaflann í sambandi við starfslið, VI. kaflann í sambandi við inntökuskilyrði og að ekki sé minnst á VII. kaflann í sambandi við námsskipan þar sem veruleg vinna er eftir í þeirri nefnd sem nú er að undirbúa tillögur til ráðuneytisins að reglugerð um þetta mál.
    Þess vegna tel ég að ekki sé verulegur skaði skeður frá sjónarmiði menntmrn. þó að hér verði um

nokkra frestun að ræða. Ég tel hins vegar og vil fara fram á það við hv. nefnd að hún íhugi sérstaklega hvort þessi frestun á að eiga sér stað út almanaksár eða út skólaár, þá væntanlega út skólaárið 1989--1990. Ég held að það sé mikið heppilegra að breytingar á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga, að því er varðar rekstur skólanna, komi til framkvæmda á mörkum skólaára. Ef svo fer, eins og margir gera ráð fyrir, að Alþingi fái til meðferðar og samþykki í vetur breytingu á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem snertir grunnskólann, dagvistir, heilsugæslu, sjúkratryggingar og fleira mun ég beita mér fyrir því að sú kostnaðarbreyting, sem gert er ráð fyrir í framhaldsskólalögunum, taki gildi á mörkum skólaára. Ég tel að það sé mikið heppilegra frá sjónarmiði skólans.
    Gallinn við þessa frestun frá okkar sjónarmiði er auðvitað fyrst og fremst sá að framhaldsskólastarfið líður fyrir það meðan óvissa er í þessum efnum. Jafnvel þó að þetta taki gildi nú um áramót, verandi með verkaskiptinguna hangandi í lausu lofti, þá heldur óvissan áfram eftir sem áður. Það er þessi óvissa sem er slæm fyrir framhaldsskólann og grunnskólann í landinu og reyndar alla þá aðila sem eru með þá þjónustu og rekstur sem fjallað er um í þessum umræðum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er auðvitað alveg afleitt að Alþingi skuli vera árum saman með þessi mál án þess að geta í raun og veru höggvið á hnútinn að því er varðar þessa verkaskiptingu. Niðurstaðan verður sú að þær stofnanir sem hér um ræðir hanga í lausu lofti og rekstur þeirra er vanræktur.
    Ég tel ekki þörf á því, herra forseti, að fara mikið fleiri orðum um þetta frv. Ég bendi á að ef það verður ekki að lögum þýðir það aukaútgjöld fyrir ríkissjóð á næsta ári upp á um það bil 250 millj. kr. Það er óhjákvæmilegt að hv. þingdeild geri sér grein fyrir þeim þætti málsins. Hér er m.ö.o. verið að taka á máli sem ekki var tekið á þegar framhaldsskólalögin voru afgreidd á síðasta þingi. Þá var það augljóst mál og kom fram í ýmsum ræðum hér úr þessum stól, m.a. ræðum sem ég flutti, að ekki var þá gengið frá því tryggilega að ríkið mundi taka á sig þennan kostnað. Menn voru í raun ekki með neinar tillögur um það hvað ætti að spara í ríkiskerfinu á móti þeim kostnaði sem verið er að tala hér um. Það er m.a. vegna þess að málið var skilið eftir í lausu lofti að við stöndum núna frammi fyrir því að þessu verður að fresta.
    Ég hafði í hyggju við meðferð þessa máls að svo gæti farið ef okkur miðaði vel við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að ekki þyrfti að eiga sér stað þessi frestun á fjármálaköflum framhaldsskólalaganna. Þar sem verkaskiptingin er ekki lengra komin er þessi frestun algerlega óhjákvæmileg.
    Til viðbótar við þau atriði sem ég hef nefnt, herra forseti, er náttúrlega augljóst að nauðsynlegt er að endurskoða vissa aðra þætti í sambandi við framhaldsskólalögin. Ég á sérstaklega við að ég tel að það eigi að vera inni í lögunum ákvæði um lögskylt

samráð framhaldsskólanna á hverju svæði. Það er auðvitað furðulegt ástand eins og það birtist okkur t.d. hér í þessu fjölmennasta fræðsluumdæmi landsins, Reykjavík, að ekki er um að ræða reglubundið samstarf framhaldsskólanna í Reykjavík um námsframboð eða hverfaskiptingu. Þetta þýðir að við erum örugglega með endurtekningu, að ég segi ekki tvíverknað í ýmsum þáttum þessa skólastigs, tvíverknað sem er mjög kostnaðarsamur fyrir samfélagið, einkum í verkmenntuninni. Ég ætla ekki að fara út í það í smáatriðum en ég tel í raun og veru mjög alvarlegan hlut að ganga þannig frá lögum, eins og gert var með lögin um framhaldsskóla, að menn skuli ekki vera knúnir til þess að hafa eðlilegt samstarf og kallað væri eftir því. Af þeim ástæðum hef ég t.d. beitt mér fyrir því að skólameistarar og skólastjórar framhaldsskólanna á Reykjavíkursvæðinu, þ.e. í Reykjavík og allt suður í Hafnarfjörð, hittist á fundi, sem verður reyndar haldinn núna næstu daga, þar sem fjallað verður sérstaklega um vanda framhaldsskólastigsins á þessu svæði. Vandinn er sá að í haust vantar pláss fyrir 150--200 nemendur.
    Vegna þess að menn hafa ekki fengist til þess að móta neina stefnu um hvernig á þessum málum verður tekið í heild er nær hver framhaldsskóli að berjast í sínu horni án samvinnu við aðra eða að mið sé tekið af öðrum. Miklar áskoranir frá ýmsum aðilum í þjóðfélaginu berast um húsnæðisendurbætur Menntaskólans í Reykjavík. Það birtast tillögur og óskir um að stækka Menntaskólann við Hamrahlíð þannig að þar geti rúmast 1000--1100 nemendur. Það eru uppi tillögur og óskir um endurbætur og stækkun á Iðnskólanum í Reykjavík.
Mjög sanngjarnar kröfur eru um endurbætur og lagfæringar á Fjölbrautaskólanum í Ármúla sem er, að því er húsnæði varðar, sameign ríkisins og sveitarfélagsins. Okkur berast einnig óskir frá Menntaskólanum við Sund og allir þessir aðilar bera fyrir sig þá fjölgun sem fyrirsjáanleg er á þessu svæði eins og þeir ætli allir og hver um sig að taka við henni. Þannig getur málið náttúrlega ekki gengið fyrir sig. Það verður að kalla fram samstarf. Aðalgallinn við framhaldsskólalögin eins og þau eru núna er sá að mínu mati að þau kalla ekki fram þetta samstarf og þar með ábyrgð þeirra aðila sem stýra kerfinu í heild, ábyrgð sem óhjákvæmilegt er að kalla fram.
    Að því er varðar framhaldsskólana á öðrum svæðum vil ég skýra frá því sem ég tel mjög mikilvægt að á Vestfjörðum hefur Fjórðungssamband Vestfjarða lagt fram tillögur um framhaldsskóla fyrir allt umdæmið, tillögur sem eru mjög til fyrirmyndar. Þar er gert ráð fyrir því að Menntaskólinn á Ísafirði og Iðnskólinn á Ísafirði hafi samstarf og renni saman í einn skóla. Á Norðurlandi vestra erum við enn þá með einn framhaldsskóla, þ.e. Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki. Á Norðurlandi eystra hefur hins vegar ekki verið komið á samstarfi sem skyldi, þó að menn þar hafi auðvitað talað saman um hlutina. Ég tel að það hefði verið framhaldsskólanum á Norðurlandi eystra til styrktar ef þar hefði náðst skipulegt samstarf

um framhaldsskólann á svæðinu, bæði skólana í heild, hvern einstakan skóla og einstakar framhaldsdeildir sem menn vilja setja þar á stofn.
    Þetta vil ég nefna, herra forseti, vegna þess að ég tel óhjákvæmilegt að dregið sé inn í umræðuna að við þurfum að ná miklu betra samstarfi um þróun þessa skólastigs en verið hefur. Auðvitað er ekkert skrýtið þó að það hafi tekið tíma að koma þessu samstarfi á. Fyrst og fremst er það vegna þess að engin lög hafa verið til fyrr en nú og ég tel að þau séu til bóta. Það er enginn vafi í mínum huga, þau eru til bóta. Það var skynsamlegt og nauðsynlegt að setja lög um framhaldsskólann og þó að fyrr hefði verið. Engin ástæða er til þess að draga fjöður yfir það að forveri minn í menntmrn. vann þar að mínu mati gott verk. En vegna þess hvernig aðstæður eru með tilliti til þróunar skólans, bæði innra starfsins og hins fjárhagslega ramma, þá er óhjákvæmilegt að þessu verði frestað og vænti ég þess að hv. deild taki þeirri málaleitan með skilningi því að hún byggist bæði á fjárhagslegum og faglegum þróunarforsendum framhaldsskólans í landinu.
    Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.