Staðgreiðsla opinberra gjalda
Mánudaginn 12. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er til umræðu fjallar um staðgreiðslu opinberra gjalda, en það skipulag tók gildi um síðustu áramót eins og kunnugt er. Á þessum tíma hefur fengist margvísleg reynsla af þessu kerfi. Í heild má segja að framkvæmdin hafi tekist allvel þótt fram hafi komið hjá starfsfólki og stjórnendum skattakerfisins að það hafi á engan hátt verið létt verk að tryggja það að þessi skipan gæti komist til framkvæmda með eðlilegum hætti. Þrátt fyrir þetta er ljóst að gera þarf nokkrar breytingar á lögunum í ljósi þessarar reynslu. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frv. eru allar tæknilegs eðlis og hafa fyrst og fremst þann tilgang að gera lögin skýrari og framkvæmd staðgreiðslunnar liprari. Hér er því ekki um að ræða neinar efnisbreytingar sem valdið gætu mismunandi skoðunum eða deilum hér á hv. Alþingi og vænti ég þess að það frv. sem hér er lagt fram fái góðar undirtektir og skjóta afgreiðslu hér í þinginu. Þessar breytingar eru eins og ég sagði allar tæknilegs eðlis, en þrjár þeirra eru mikilvægastar:
    Í fyrsta lagi má nefna að samkvæmt núgildandi lögum er skylt að gefa út skattkort árlega. Útgáfa skattkorta ár hvert er bæði dýr og viðamikil, og með hliðsjón af reynslunni er lagt til í þessu frv. að ríkisskattstjóra verði heimilt að ákveða að útgáfa skattkorta falli að mestu leyti niður. Margir launagreiðendur hafa lýst yfir áhyggjum af því að ný skattkort verði gefin út árlega vegna þess að skipti um skattkort valdi mikilli fyrirhöfn og umstangi. Frv. gerir því ráð fyrir því að skatthlutfall og fjárhæð persónuafsláttar verði auglýst ef ekki verður af útgáfu skattkorta. Enn fremur er kveðið á um að ríkisskattstjóra sé ætíð skylt að auglýsa ef breytingar verða á persónuafslætti og skatthlutfalli á staðgreiðsluári.
    Hér er því um að ræða tillögu um þó nokkurn sparnað og hagræði sem felst í því að ekki þurfi að gefa skattkortin sjálf út árlega og koma þeim á sinn stað.
    Í öðru lagi má nefna að samkvæmt þessu frv. er lagt til að fellt verði niður ákvæði er takmarki gildistíma námsmannaskattkorts í þrjá mánuði. Í ljós hefur komið að hér er um of þrönga reglu að ræða sem hefur í för með sér að ákveðinn fjöldi námsmanna lendir í staðgreiðslu sem síðar hefur orðið að endurgreiða samkvæmt heimild í 18. gr. laganna um staðgreiðslu opinberra gjalda. Hefur þessi þrönga regla haft í för með sér þó nokkur óþægindi fyrir námsmenn og því er lagt til að breyta þessu á þann veg sem greint er í frv.
    Í þriðja lagi má nefna að samkvæmt þessu frv. er lagt til að rýmkuð verði mörk sem einstaklingar með sjálfstæðan atvinnurekstur hafa til að skila staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sínu. Ýmiss konar atvinnurekstur, t.d. smábátaútgerð, er árstíðabundin og því sanngjarnt fyrir þá aðila að mega skila skatti á þeim árstíma sem tekjuöflunin varir í stað þess að jafna greiðslum yfir allt árið. Gert er ráð fyrir því að skattstjóra verði unnt að ákveða að skil verði sjaldnar

og þá hærri í hvert sinn.
    Virðulegi forseti. Að því er varðar önnur atriði frv. tel ég ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um þau en vísa til þeirra athugasemda sem fram koma í frv. Ég vil að lokum endurtaka þá ósk mína að æskilegt væri að þetta frv., sem algjörlega er tæknilegs eðlis, geti fengið skjóta afgreiðslu hér á hv. Alþingi og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn.