Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það hefur verið nokkuð fróðlegt að fylgjast með þessum umræðum hvernig þær hafa verið reknar hér af hálfu Sjálfstfl. Menn hafa talað eins og þar væru komnir alheilagir menn sem aldrei nokkurn tímann hefðu séð nokkurn hlut hreyfast til í þessu efnahagskerfi hér og það sem meira er, hefðu skilið við fullkomleikann sjálfan. Að því er varðar afkomu atvinnuveganna, að því er varðar gengisskráninguna, að því er varðar ríkisfjármál, að því er varðar byggðamál, þá hafi Sjálfstfl., þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar veslaðist upp á sjónvarpsskermunum í septembermánuði, skilið við fullkomleikann sjálfan. Í raun og veru hafi staðan verið þannig að hér hafi verið komið hið endanlega fullkomna þjóðfélag á Íslandi og það hafi ekkert þurft að gera, enda var það í raun og veru stefna sumra hugmyndafræðinganna.
    Einn af hugmyndafræðingum Sjálfstfl. skrifaði grein í Morgunblaðið rétt um það leyti sem stjórnin geispaði golunni þar sem því var lýst yfir að bestu efnahagsaðgerðirnar væru þær að gera ekki nokkurn skapaðan hlut, að gera ekki nokkurn skapaðan hlut að því er varðar t.d. afkomu atvinnuveganna. Þá átti hin milda hönd markaðarins að leysa vandann, (Gripið fram í.) það varð niðurstaðan. Það var í raun og veru sú afstaða sem birtist af hálfu Sjálfstfl. Þó að menn þættust vera að undirbúa einhverjar aðgerðir í efnahagsmálum þá var raunin sú að menn voru ekki tilbúnir til þess að gera neitt. Þetta var auðvitað einna átakanlegast þegar það gerðist á miðju sumri að skipuð var nefnd, sem kölluð var forstjóranefndin, til þess að gera tillögur um lausn á vanda atvinnuveganna. Það bjuggust auðvitað allir við því að nefnd af þessu tagi hefði í raun og veru fullt umboð viðkomandi forsrh. af því að hún var skipuð af honum til þess að gera tillögur, og að eftir þeim yrði farið í öllum meginatriðum. Menn reiknuðu fastlega með því að þessi forustumaður Sjálfstfl. á Vestfjörðum, Einar Oddur á Flateyri, væri í raun og veru að vinna í þágu síns flokks og sömuleiðis Víglundur Þorsteinsson, einn af frambjóðendum Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi í síðustu kosningum og líklega varaþm. einhverra þeirra sem eru hér í salnum. A.m.k. er honum ekki afneitað opinberlega og heldur ekki á þessum fundi hér.
    Þegar þessir menn eru búnir að sitja yfir tillögusmíð langtímum saman, vikum saman og þjóðin stendur á öndinni: Hvað segir forstjóranefndin? Og það eru a.m.k. tvö viðtöl á dag við hvern nefndarmann um það hvað forstjóranefndin segir. Og einlægt er forstjóranefndin að boða einhver stórkostleg tíðindi. Þau eru alveg að koma. Þjóðin bíður með öndina í hálsinum. Og svo koma þau. Niðurstaðan varð svo sú að sá sem skipaði nefndina vildi ekki úrræðin sem hans eigin nefnd gerði tillögur um.
    Um úrræði forstjóranefndarinnar mætti auðvitað fjöldamargt segja. Ég ætla ekki að fara yfir þau í einstökum atriðum, en það er alveg ljóst að það ríkti fullkomið ráðleysi í herbúðum Sjálfstfl. sumarið 1988. Sjálfstfl. beitti sér fyrir því að sögn að gripið var til

efnahagsráðstafana nokkrum sólarhringum eftir að þingið fór heim í vor. Það er samdóma álit allra, líka talsmanna Sjálfstfl., að þær efnahagsaðgerðir hafi verið ónýtar, gagnslausar, ekki til neins. Niðurstaðan verður svo sú í framhaldi af þeim ráðstöfunum að það er farið að vinna að öðrum ráðstöfunum með þessum hætti sem ég rakti hér áðan. Forstjóranefndin skili tillögum. Niðurstaðan verður svo þessi að Sjálfstfl. ákveður að taka ekkert mark á þessum tillögum. ( Gripið fram í: En hinir flokkarnir?) Hinir flokkarnir tóku misjafnlega mikið mark á tillögunum en með heimilisvanda fráfarandi ríkisstjórnar hef ég ekki að gera. (Gripið fram í.) Og ég vænti þess að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson ( GHG: Alþb. vildi sem sagt niðurfærsluna?) Það er rangt, hv. þm. Þetta er auðvitað dæmigert fyrir útúrsnúninginn hjá íhaldinu, útúrsnúninginn í öllum málum, það er alveg sama hvað það er þegar komið er við kaunin á þeim, vesalingunum. ( GHG: Svavar Gestsson snýr aldrei út úr um neitt?) Ég held að hv. þm. Sjálfstfl. ættu fyrst og fremst að rifja það upp fyrir sér hvernig á því stendur að formaður Sjálfstfl. skilaði forsrn. í september 1988, aðeins nokkrum mánuðum eftir að stjórn hafði verið mynduð og aldrei fyrr hefur það gerst að forsrh. hafi með viðlíka hætti skilað af sér forsrn. í fullkomnu ráðleysi. Í fullkomnu ráðleysi. Svo koma þessir menn hér, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, sá mæti maður, og hv. þm. Halldór Blöndal, yfirleitt alltaf skemmtilegur í ræðustól tek ég fram út af orðum hv. 3. þm. Vesturl., koma þeir hér eins og rammheilagir menn, þessir vikapiltar hv. þm. Þorsteins Pálssonar, ( HBl: Sannheilagir.) ramm- og sannheilagir. ( GA: Ginnheilagir.) Ekki segi ég nú ginnheilagir, en a.m.k. alheilagir að eigin mati. Þessir vikapiltar hv. þm. Þorsteins Pálssonar sem gáfust upp ásamt honum í septembermánuði 1988 með þessum eftirminnilega og átakanlega hætti. Það er kannski ekki ástæða til þess núna þegar menn minnast 40 ára afmælis mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna að ég skuli vera að hella mér yfir þessa menn hér og rifja þetta upp vegna þess að það er sárt fyrir þá. Það ætti kannski að setja einhverja klausu í mannréttindasáttmálann um að það væri ekki farið að mönnum sem skiluðu þjóðarbúinu með þeim hætti sem þeir gerðu hér í september 1988.
    Síðan gerist það auðvitað að Sjálfstfl. sér hvers kyns er. Talsmenn Sjálfstfl. og áhrifamestu talsmenn hans um áratuga skeið sjá það auðvitað að það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi hjá íhaldinu. Það stendur ekki steinn yfir steini. Og það gengur svo langt að ritstjórar Morgunblaðsins telja sig nauðbeygða til að setja ofan í við þá alveg sérstaklega í Reykjavíkurbréfi á sunnudaginn var, en þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta, þegar fjallað er um ríkisfjármálin sérstaklega:
    ,,Hitt fer ekki á milli mála að annaðhvort verður að skera ríkisútgjöld niður í stórum stíl eða afla ríkissjóði aukinna tekna. Ábyrgir stjórnmálamenn og fjölmiðlar geta ekki neitað þessum veruleika. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að það virðist ótrúlega

erfitt að ná fram nokkrum niðurskurði á útgjöldum ríkisins. Þeir sem geta ekki með rökum sýnt fram á hvernig draga eigi úr útgjöldum verða að segja til um hvernig mæta á útgjöldum ríkisins, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaðan getur að vísu hafnað tillögum ríkisstjórnarinnar um tekjuöflun, en sú tíð er liðin að stjórnarandstaða geti gert það án þess að skýra almenningi frá því hvernig viðkomandi stjórnarandstöðuflokkar vilja mæta vandanum.``
    Síðan er hér aðeins vikið að tillögum og hugmyndum hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og tekið fram að þær virðist ekki njóta stuðnings meiri hluta Alþingis (Gripið fram í.) hvað sem síðar kann að verða, það er auðvitað ekkert tekið fyrir það. Framtíðina þekkjum við náttúrlega ekki í smáatriðum. En hér er auðvitað verið að setja mjög alvarlega ofan í við hv. þm. Sjálfstfl. Þeir hafa engar tillögur um það hvernig eigi að draga saman í ríkisútgjöldum, engar, 0,0. Og þrátt fyrir þá staðreynd eru þeir á móti öllum sköttum. Það má auðvitað segja að þessi afstaða hafi birst í verki í síðustu ríkisstjórn sem skilaði ríkissjóði þannig að um stórkostlegan halla er að ræða á árinu 1988. (Gripið fram í.) Stórkostlegan halla. ( GHG: Það voru ekki nema 750 millj. hjá fyrrv. fjmrh.) 750 millj. Það stendur nú eitthvað annað í tölunum núna, hv. þm. Getur það verið að hv. þm. Sjálfstfl. hafi látið plata sig? ( Gripið fram í: Sumir.) Já. Það er nefnilega það. Það hafa nú ýmsir menn eins og sögufrægt er látið plata sig. Getur það verið að þm. Sjálfstfl. hafi látið plata sig? Er það hugsanlegt? Það skyldi þó ekki vera. Það væri nú ástæða til þess fyrir hv. þm. Guðmund H. Garðarsson að fara yfir þennan hrakfallaferil, hvernig hann lét hæstv. utanrrh. plata sig á annað ár. Ja, þvílíkt!
    Nei, hér er auðvitað verið að segja það, herra forseti, að það er liðin tíð að stjórnarandstaða geti gengið fram og sagt: Það á að hækka stórkostlega útgjöld í þetta og útgjöld í hitt, án þess að gera tillögur um tekjuöflun eða sparnað þar á móti. Það er sagnfræði. Og ritstjórar Morgunblaðsins eru að vanda um við sína menn hér í þessari grein. Ég hygg að það sé í rauninni alveg einstakt í sögunni að Morgunblaðið telji ástæðu til þess að taka upp hanskann fyrir stjórn sem kölluð hefur verið vinstri stjórn. Öðruvísi mér áður brá.
    En nú kastar svo tólfunum að Morgunblaðið telur alveg óhjákvæmilegt að taka upp hanskann fyrir vinstri stjórn og segir við sína menn á Alþingi: Komið þið með niðurskurðartillögur eða komið þið með tekjuöflunartillögur, því að ekkert kemur frá þeim annað en væl, annað en almenn gagnrýni um hlutina aftur á bak og áfram eins og þetta séu bæði alheilagir og ginnheilagir menn sem eru hér að tala.
    Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, í þessari umræðu um efnahagsráðstafanir á árinu 1988 að rifja upp þessa hrakfallasögu íhaldsins þegar það bætist svo ofan á að einn hv. þm. Sjálfstfl. í deildinni upplýsir að þeir hafi verið plataðir svo af fyrrv. fjmrh. að nemur ekki mörg hundruðum heldur þúsundum

milljóna kr.
    Eitt af því sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa gagnrýnt hér sérstaklega er Atvinnutryggingarsjóðurinn. Það er gagnrýnt mjög harðlega að þessi sjóður skuli settur á laggirnar. Hvað er þessi Atvinnutryggingarsjóður? Atvinnutryggingarsjóður er tilraun til að rétta við vanda þeirra fyrirtækja sem verst hafa farið út úr frjálshyggjustefnunni á undanförnum árum. Þeirri stefnu hafa margir lýst úr þessum stól og ég ætla ekki að endurtaka það. Frjálshyggjustefna undanfarinna ára skildi þannig við fyrirtækin, grundvallaratvinnuvegina í landinu að það varð að stofna sérstakan sjóð til að reyna að rétta þessi fyrirtæki við. Í rauninni er það rangt, sem gert hefur verið, að kenna þennan sjóð sérstaklega við hv. þm. Stefán Valgeirsson. Staðreyndin er sú að það ætti kannski frekar að kenna þennan sjóð við hv. þm. Þorstein Pálsson af því að þessi sjóður hefur sérstaklega þann tilgang að reyna að rétta fyrirtækin við eftir frjálshyggjustjórnarstefnu undanfarinna ára. Það var óhjákvæmilegt í haust, þó að Sjálfstfl. vilji ekki viðurkenna það, að grípa til ráðstafana sem kosta mörg þúsund millj. kr. Og ég spyr hv. þm. Guðmund H. Garðarsson: Taldi hann ekki þörf á því að gripið yrði til ráðstafana?
    Ég held, herra forseti, að í rauninni séu allir sammála um að það hafi verið algerlega óhjákvæmilegt að grípa til ráðstafana í efnahagsmálum í haust til að rétta fyrirtækin af. Það var gert m.a. með þessu, með því að þessi
Atvinnutryggingarsjóður yrði til. Okkur er hins vegar fullljóst, sem stöndum að núv. hæstv. ríkisstjórn, að það hefur ekki verið róið fyrir hverja vík. Engum dettur það í hug. Og það er barnaskapur að ráðast að ríkisstjórninni fyrir það að hún hafi ekki tekið á vandanum þannig að hann sé leystur að fullu, í eitt skipti fyrir öll. Ég auglýsi eftir þeirri ríkisstjórn í sögunni sem leysti öll vandamál í eitt skipti fyrir öll, enda væri þá lítið að gera í pólitíkinni ef svoleiðis ríkisstjórnir yrðu einhvern tíma til. Auðvitað er það ekki þannig. Auðvitað þarf stöðugt að taka á vanda atvinnuveganna, sérstaklega eins og staðan er núna þar sem um samdráttarmerki er að ræða, þar sem það er að gerast að verð á okkar útflutningsafurðum er að lækka. Það er vandamál sem þjóðin stendur frammi fyrir og verður að taka á og það þýðir ekki fyrir Sjálfstfl. að ætla sér að koma hingað, hver talsmaður hans á fætur öðrum, og ætla með almennum orðum að víkja því til hliðar að hér sé um stórfelldan vanda að ræða. Ég kannast að vísu við það áður úr stjórnarandstöðutíð Sjálfstfl., sem er óábyrgasti flokkur í stjórnarandstöðu sem til er á Íslandi, það skal tekið fram, að Sjálfstfl. hafi talið vandamálin ævinlega mjög lítil og mjög ómerkileg þegar hann var í stjórnarandstöðu.
    Sumarið 1979, fyrir tæpum tíu árum, gerðist það að olíuverð á heimsmarkaði þrefaldaðist í verði. Þetta töldu Morgunblaðið og Sjálfstfl. á þeim tíma hreint smámál og auðvelt að leysa það. Í versta falli væri þetta í raun og veru uppáfinning Rússa og þáv. viðskrh. og þetta mundi leysast óðara er þjóðin væri

laus við viðskiptasamböndin við Sovétríkin og þáverandi viðskrh. ( HBl: Enda birti strax upp eftir að viðskrh. hætti.) Það birti fljótlega upp úr því, en eins og hv. þm. veit af því að hann er sanngjarn maður var ekki beint samhengi þar á milli sem hann viðurkennir örugglega núna en hefði ekki viðurkennt þá. Það er af því að hann hefur lært talsvert á þessum tíu árum eins og gengur.
    En staðan er þannig og það verða allir flokkar og allir þingmenn að átta sig á að þjóðarbúið stendur frammi fyrir verulegum vanda og hefur orðið fyrir áfalli á þessu ári gagnstætt því sem var á síðustu árum þegar um var að ræða einhvern mesta hagvöxt sem þjóðin hefur upplifað um áratuga skeið. En þrátt fyrir þennan mikla hagvöxt er viðskilnaðurinn þannig: Ríkissjóður er á hausnum, fyrirtækin eru á hausnum, heimilin eru að sligast undan vaxtaokri, stórkostlegur viðskiptahalli gagnvart útlöndum. Hafa þingmenn Sjálfstfl. ekki velt því fyrir sér að kannski hafi eitthvað verið að í þeirra efnahagsstjórn á síðustu árum? Hafa þeir ekki velt því fyrir sér að kannski hefði mátt taka þarna öðruvísi á málum? Ætli það ekki. Ætli það sé ekki þannig að allir sanngjarnir menn þar á bæ viðurkenni að það var illa með góðærið farið og niðurstaðan er sú að þjóðin þarf í senn að taka á stórkostlegum þensluvanda eftir góðærið og vaxtahækkanirnar á sama tíma og við stöndum frammi fyrir samdrætti í þjóðarbúskap og þjóðartekjum. Það má því segja að vandinn komi á þjóðina með tvöföldum þunga nema menn vilji framvísa þessum vanda öllum á framtíðina, á börnin okkar og þá sem taka við stjórn þessa samfélags á næstu árum og áratugum. Þetta er kjarni þess vanda sem við stöndum frammi fyrir, herra forseti.
    Í tengslum við þau atriði sem hér hafa verið nefnd hefur nokkuð verið rætt um að það sé skoðun Sjálfstfl., ef ég man rétt og ég held ég hafi heyrt það frá þeim einhverjum, að það eigi að fella gengið. Ég held að það sé alveg yfirlýst stefna Sjálfstfl. að það eigi að fella gengið. Hvað er gengisfelling? Gengisfelling er verðhækkun á lífsnauðsynjum líka og líka aðföngum atvinnuveganna. Gengisfelling leysir í raun og veru engan vanda. Hún er aðeins frestun á vanda, getur verið frestun á vanda. ( SalÞ: Er gengið rétt skráð?) Þess vegna er það í raun og veru þannig, hv. þm., að þegar menn meta hvort gengið er rétt skráð eða rangt mega þeir ekki aðeins horfa á afkomu útflutningsatvinnuveganna og stöðu þeirra heldur verður líka að horfa á afkomu og kaupmátt heimilanna í landinu. Er það skoðun Sjálfstfl. með öðrum orðum að það þurfi að skerða kaupmátt launa í þessu landi? (Gripið fram í.) Er það afstaða Sjálfstfl.? Þorir hann að segja það öðruvísi en í frammíköllum? ( GHG: Var það ekki forsrh. þinn sem boðaði það? Það var ekki Sjálfstfl.) Það er alveg augljóst mál að bæði frá hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. hafa komið fram ýmsar yfirlýsingar varðandi þessi mál. Það er rétt. En Sjálfstfl. þorir ekki að segja hlutina fullum fetum. Hann segir gengislækkun en neitar að viðurkenna að það er kauplækkun, kjaraskerðing. Tillaga Sjálfstfl. um

að fella gengið er tillaga um að lækka kaupið. Það skulu menn horfast í augu við. Og það var það sem niðurfærslutillögurnar strönduðu á m.a. í haust gagnvart verkalýðshreyfingunni að hún var ekki tilbúin að skrifa upp á þær kjarabreytingar sem niðurfærslan hefði haft í för með sér.
    En þetta er eins og annað. Sjálfstfl. gengur núna fram undir þessu flaggi: Gengið er vitlaust skráð. Gengið er rangt skráð. En hann vill ekki viðurkenna að það þýðir kauplækkun í landinu.
    Ég hef heldur ekki orðið var við það, herra forseti, að Sjálfstfl. hafi flutt eina einustu tillögu í þinginu um lagfæringu á stöðu atvinnuveganna.
Hvar eru þær? Ekki eina einustu tillögu. ( EKJ: Nefndarálit.) Nefndarálit liggja ekki frammi til afgreiðslu í þinginu eins og hv. þm. veit. Greinargerðir eru aldrei bornar upp, nefndarálit ekki heldur. Og það er kostulegt að hv. 8. þm. Reykv. skuli halda það, svona þingvanur maður, að nefndarálit séu borin upp til samþykktar eða synjunar. En komið þið með tillögur. (Gripið fram í.) Vandinn er sá að hv. þm. Sjálfstfl. hafa ekki komið með neinar tillögur af því að þeir eru ekki sammála um neitt í sínum eigin flokki. ( GHG: Það er nýtt.) Það er nefnilega ekki nýtt. ( GHG: Það er nýtt. Það hlýt ég að vita, hæstv. ráðherra.) Brandarasmiður mikill er hv. 14. þm. Reykv. ( GHG: Ekki situr hæstv. ráðherra í þingflokki Sjálfstfl.) Nei, guði sé lof. ( GHG: Já, ég tek undir það.) Við erum þá sammála um eitthvað, hv. þm.
    Ég skora á hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson að koma með tillögu um ráðstafanir í efnahagsmálum og að þeir skrifi upp á hana báðir, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Þá hygg ég, herra forseti, að það yrði glatt á hjalla víða. Einkum þætti það fyndið í Varðarfélaginu ef þeir næðu saman um tillögu um lausn á efnahagsvandanum. (Gripið fram í.) Við skulum sjá hvaða tillögu þeir þora að flytja. Þeir hafa enga tillögu flutt. Hafa þeir flutt tillögu um að lækka vexti? Hafa þeir flutt tillögu um að bæta afkomu atvinnuveganna? Hafa þeir flutt tillögu um skattlagningu til að styrkja stöðu ríkissjóðs? Hafa þeir flutt tillögu um niðurskurð á útgjöldum ríkisins? Nei. Þeir flytja engar tillögur. Það er almennt snakk út og suður sem engu skiptir og engan vanda leysir en er kannski út af fyrir sig einhver útrás fyrir þá hvern fyrir sig sem einstaklinga. En það er þá í raun og veru mál sem snertir ekki stjórnmálin heldur aðra hluti.
    Þessi umræða af hálfu Sjálfstfl. og tillöguleysi þeirra eftir skipbrotið í september sýnir vel að það var rétt ákvörðun sem Þorsteinn Pálsson tók í september sl. að segja af sér. Það var skynsamleg niðurstaða. Það er í rauninni eina skynsamlega niðurstaðan sem Sjálfstfl. hefur komist að um langt árabil, herra forseti.