Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Herra forseti. Sú ríkisstjórn sem nú situr á við mikinn vanda að stríða, vanda sem á sér langan aðdraganda en hefur versnað mjög á síðustu vikum. Henni er því að sjálfsögðu mikið í mun að fá stuðning við framgang mála sinna á þingi og hefur reyndar hver gengið undir annars hönd til að afla málunum stuðnings. Það er því undarlegt í hæsta máta þegar hv. 3. þm. Vesturl. kemur upp og hirtir hvern þingmanninn á fætur öðrum og hvern þingflokkinn á fætur öðrum líkt og hann haldi að það sé best að berja menn til hlýðni.
    Hann vék m.a. máli sínu að Kvennalistanum og minntist á það að fulltrúi Kvennalistans hefði tilkynnt að hún mundi tala stutt í þessu máli og hefði reyndar staðið við það því að hún vildi ekki tefja málið eða afgreiðslu þess í deildinni. Í þessu sambandi vil ég minna hv. 3. þm. Vesturl. á að einungis lifðu tíu mínútur af þingfundi sl. föstudag þegar hv. 6. þm. Vesturl. komst í ræðustól en fundi ekki fram haldið fyrr en eftir helgi. Það ætti ekki heldur að vera nýmæli fyrir hv. þm. að þingkonur Kvennalistans séu gagnorðar og leggi ekki í vana sinn að þæfa málin.
    Síðan vék hv. 3. þm. Vesturl. að afstöðu Kvennalistans við stjórnarmyndunarviðræður bæði vorið 1987 og einnig nú í haust. Vegna ummæla hans er mér nauðsyn að koma nokkrum leiðréttingum á framfæri.
    Í fyrsta lagi gerði Kvennalistinn ekki að skilyrði að sett yrðu lög um lágmarkslaun. Skilyrðið var að hækkuð yrðu laun þeirra lægst launuðu og ef allt annað þryti og engar aðrar leiðir yrðu færar yrðu sett lög sem tryggðu að laun í landinu færu ekki niður fyrir ákveðið lágmark. Og hvað er hv. þm. eiginlega að meina þegar hann líkir slíkri lagasetningu við afnám samningsréttar? Þarna er um gerólík mál að ræða. Hvernig dettur hv. þm. í hug að verið sé að skerða frelsi manna og afnema réttindi þeirra þegar löggjafinn tekur við þar sem atvinnurekendur bregðast og tryggir að laun í landinu, sem þegar eru of lág, megi ekki fara niður fyrir ákveðin velsæmismörk? Dettur hv. þm. í hug að það séu dýrmæt réttindi að mega semja um lág laun, lægri en þau laun sem gilda og hver vill það?
    Vegna þess að hæstv. menntmrh. minntist á 40 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna væri ekki úr vegi að minna bæði hann og hv. 3. þm. Vesturl. á að það eru grundvallarmannréttindi að geta séð sér farborða á dagvinnulaunum. Og vegna þess að hæstv. menntmrh. var að minnast þessarar merku yfirlýsingar um mannréttindamál langar mig einnig að minna hann á og biðja hann að minna aðra hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar á það að fyrir Alþjóðavinnumálastofnuninni í Genf liggur nú kæra verkalýðsfélaga vegna þess brots á mannréttindum sem afnám samningsréttarins er.
    Í öðru lagi vék hv. 3. þm. Vesturl. að því að þverpólitísk samtök eins og Kvennalistinn mundu hvort eð er ekki ná árangri, enda hefði fulltrúi þeirra lýst því yfir að kvennalistakonur sæktust ekki eftir

völdum heldur áhrifum. Af þessu virðist hann draga þá ályktun að Kvennalistinn sé ekki í alvörupólitík.
    Þá er fyrst til að taka og mætti minna marga fleiri á það að Kvennalistinn er ekki þverpólitísk samtök heldur kvennapólitísk samtök og á því er reginmunur. Þetta er ekki reytingur kvenna úr hinum og þessum flokkum sem þær hafa gefist upp á. Þetta er hópur kvenna með nýjar hugsjónir, með annað erindi en hefur verið rekið í stjórnmálum hingað til.
    Þegar kvennalistakonur lýsa því yfir að þær vilji ekki völd meinum við fyrst og fremst að við leitum ekki eftir völdum fyrir okkur sjálfar eða völdum til að ráða yfir öðrum eins og venjan hefur verið. Við leitumst miklu fremur við að dreifa völdum til fólksins og leitum allra leiða til að finna hugsjónum okkar farveg, leiða til að koma þeim til framkvæmda. Ein leið til þess er að taka þátt í ríkisstjórn. Við flýjum ekki undan þeirri ábyrgð fremur en annarri en við metum á yfirvegaðan og vandlegan hátt hvernig hugsjónum okkar og stefnu er best borgið jafnt í ríkisstjórn sem og annars staðar og höfum ekki áhuga á þátttöku í samstarfi þar sem við eygjum litla von til að hafa áhrif eða koma stefnu okkar í framkvæmd. Og við einar getum metið hvernig því er best farið. Svo einfalt er það mál.