Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Það var ekki ætlan mín að taka aftur til máls við þessa umræðu, ég taldi mig hafa gert því skil sem ég ætlaði að segja varðandi bráðabirgðalögin frá því í maí sl. Mig langaði þó að gera nokkrar athugasemdir við einstök atriði sem hafa komið fram í umræðunni í dag.
    Ég sakna þingflokksformanns Alþfl., hv. 3. þm. Vesturl. ( EG: Hann er hér.) Gott. Það fór eitthvað fyrir brjóstið á honum að ég nýtti mér kafla úr frv. til laga um húsnæðislánastofnanir þegar ég var að gera grein fyrir þeirri brtt. okkar við bráðabirgðalögin frá því í maí þar sem við þm. Borgfl. leggjum til að óheimilt verði að tengja fjárskuldbindingar við hvers kyns vísitölu frá og með 1. apríl nk. Ég leyfði mér að lesa upp kafla úr greinargerðinni með þessu frv. þar sem fjallað er um lánskjör og áhrif vísitölutengingar við fjárskuldbindingar og hvaða aðrar leiðir eru tiltækar. Ég get ekki annað en ráðlagt hv. 3. þm. Vesturl. að lesa þessa greinargerð einu sinni enn því ég veit vel að hér er um dálítið flókna hluti að ræða og er ekki víst að hann hafi náð þessu alveg þegar ég sagði frá þessu í ræðu minni. Því bendi ég honum á að lesa þetta mjög vandlega yfir.
    Það vekur athygli mína að eitthvað virðist fara fyrir brjóstið á þeim alþýðuflokksmönnum að við höfum leyft okkur að koma fram með hugmyndir og flytja nýjar tillögur í húsnæðismálum. Þeir telja sig eina eiga rétt á þeim málaflokki. Hins vegar hefur það ekki verið burðugt sem komið hefur frá þeim hingað til varðandi húsnæðismálin enda eru þau í sama ólestri og verið hefur og lítil bót fyrirsjáanleg.
    Hæstv. menntmrh. auglýsti eftir tillögum stjórnarandstöðuflokkanna og taldi þá lítið hafa haft fram að færa í sambandi við lausn efnahagsvandamála þjóðfélagsins og varaði eindregið við hugmyndum stjórnarandstöðuflokkanna um gengisfellingu, ef ég man rétt. Ég vil mótmæla þessu og bendi á að við þm. Borgfl. höfum margoft lýst ýmsum leiðum sem hægt væri að fara. M.a. höfum við lagt til, þó það kunni að vera lengri tíma mál, að stokka verði fjármál ríkisins algjörlega upp og byrja frá grunni. Til þess að bjarga málum eins og nú horfir er að sjálfsögðu ekkert annað að gera en að skera niður og reyna að halda ríkisútgjöldunum á svipuðu róli og þau voru t.d. fyrir árið 1986. Sú útgjaldaaukning sem varð milli ára þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar kom til valda eftir kosningar 1987 er náttúrlega alveg skelfileg. Þegar fjárlög hækkuðu á milli ára um næstum því 50%, þó svo að þar hafi verið um að ræða verðbólgu upp á kannski 20--30%, var um að ræða mikla magnaukningu í fjárlögum. Þá vaknar spurningin hvort ekki er hægt að skrúfa til baka eitthvað af þessari magnaukningu sem þá átti sér stað og hvað þá heldur að vera að tala um magnaukningu á milli ára núna eins og staðan er í þjóðfélaginu.
    Við erum engir gengisfellingarmenn, þm. Borgfl. en við hljótum að viðurkenna staðreyndir eins og aðrir þingmenn. Raungengi íslensku krónunnar er allt of hátt enda kemur það fram í geigvænlegum

viðskiptahalla og miklum erfiðleikum hjá öllum útflutningsfyrirtækjum. Ég hef margsinnis bent á þetta og vísað í útreikninga sem við höfum látið gera þar sem ljóslega kemur fram, þegar þróun mála er skoðuð frá því að lánskjaravísitala var fyrst tekin upp 1. júní 1979, að líklega er raungengi íslensku krónunnar orðið helmingi of hátt miðað við þróun annarra helstu gjaldmiðla sem við eigum viðskipti í. En það er alveg ljóst að ekki er bara hægt að fella gengið með þeim hætti sem gömlu flokkarnir hafa gert hér ár eftir ár. Það rifjast t.d. upp fyrir mér að í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í maí sl. var engu líkara en þetta væri í einhverjum karlaklúbbi þar sem greidd voru atkvæði um tillögur. Einn bað um 10% gengisfellingu, annar bað um 15% og þriðji bað um 20% og svo var bara rétt upp hönd og sú tillaga sem fékk flest atkvæði var valin. Það nær náttúrlega engri átt að stýra efnahagsmálum einnar þjóðar með þessum hætti. Við höfum margoft bent á að ef fella þurfi gengið verði það gert á þann hátt að fyrst sé reiknaður út allur efnahagsmálapakkinn og því stillt upp í debet og kredit, ef svo má að orði komast. Gengisfellingin er síðan hrein afgangsstærð þegar búið er að gera dæmið upp og reikna það til botns. Þá kann að vera að hreyfa þurfi gengið lítillega til þess að fá dæmið endanlega til að ganga upp, en að gera það eins og hingað til hefur verið gert, með því að slöngva fram einhverjum tölum og greiða atkvæði um þær í ríkisstjórninni, eins og virtist vera gert hér sl. vor, er náttúrlega algjörlega fráleitt. Það er mikill munur á því, hæstv. menntmrh., hvort gengið er fellt með þessum hætti, eins og vel kann að vera að núv. hæstv. ríkisstjórn fyrirhugi að gera eftir áramótin, eða hvort gengisfellingin er reiknuð afgangsstærð eftir að búið er að fara ofan í saumana á efnahagsmálunum.
    Það var mjög athyglisvert að hlýða á orðaskipti hæstv. sjútvrh. og hv. 4. þm. Vesturl. Eftir að hafa hlýtt á ræður þessara hv. þingmanna er ég ekki í neinum vafa um að þar kom berlega í ljós hversu röng fiskveiðistefnan er. Það rifjast upp fyrir mér að þegar við ræddum hér fiskveiðistefnuna um þetta leyti fyrir ári síðan var m.a. bent á að í frv. komu orðin ,,ráðherra ákveður``, ,,ráðherra ákvarðar`` eða ,,ráðherra er heimilt`` líklega 30 eða 35 sinnum fyrir.
Skyldi því engan undra þó að mál eins og hér var til umræðu áðan skuli koma upp.
    Mig langar í þessu sambandi rétt að rifja upp tvær tillögur sem við þm. Borgfl. fluttum í sambandi við fiskveiðistefnumálið. Það var í fyrsta lagi að settur yrði á stofn fiskveiðidómstóll þangað sem hægt væri að skjóta ágreiningsmálum, eins og kannski því ágreiningsmáli sem hér hefur verið til umræðu. Það er algjörlega fráleitt að hæstv. ráðherra og embættismenn hans í ráðuneytinu séu að ráðskast með þessi mál með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Ég fer að sjá að þessi tillaga er líklega mikilvægari en við töldum sjálfir þegar við lögðum hana fram í fyrra. Það verði stofnaður fiskveiðidómstóll til þess að fjalla um slík ágreiningsmál sem hér hefur verið lýst. Önnur tillagan sem við lögðum fram í sambandi við fiskveiðistefnuna

var sú að kosin skyldi sjö manna framkvæmdanefnd um stjórnun fiskveiða af hinu háa Alþingi, með svipuðum hætti og húsnæðismálastjórn og stjórn Byggðastofnunar eru kosnar, til þess að stjórna fiskveiðum í umboði ráðherra. Ráðherra verður að vísu æðsti yfirmaður þessara mála eins og hlýtur að vera, hann er jú handhafi framkvæmdarvaldsins, en þessi mál verða samt sem áður stjórnunarlega í höndum framkvæmdanefndar sem er kosin beinni kosningu á Alþingi.
    Ég ætla ekki að tefja þessar umræður frekar, virðulegi forseti. Ég veit að hér bíða fleiri mál og við höfum næg tækifæri til þess að láta gamminn geisa þegar við tökum fyrir seinni bráðabirgðalögin, svokölluð Steingrímslög.