Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það var dapurlegt að hlýða á málflutning formanns fjh.- og viðskn. Við erum að fjalla um frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum um efnahagsaðgerðir og það sem var þungamiðjan í máli þeirra fulltrúa atvinnuveganna sem komu á fund nefndarinnar var í stuttu máli það að þessar efnahagsaðgerðir hefðu algjörlega brugðist. Þegar við báðum þessa fulltrúa atvinnulífsins að horfa fram á veginn og virða fyrir sér þær horfur sem væru í viðkomandi atvinnugreinum var sú mynd satt að segja ekki fögur. Luku allir upp einum rómi um það. Mér kemur þess vegna mjög mikið á óvart að talsmaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli skuli verja megintíma sínum í frekar klaufalegar árásir á sjálfstæðismenn í staðinn fyrir að snúa sér að því efni sem hér er til umræðu og taka það alvarlega. Auðvitað stendur íslenska þjóðin nú frammi fyrir alvarlegum hlutum þegar við völd í landinu er ríkisstjórn sem ekki tekur minnsta tillit til stöðu atvinnuveganna, virðist ekki skenkja því þanka hvað er að gerast. Og vegna þess að hv. þm. vitnaði sérstaklega til Ágústs Einarssonar, fyrrv. þingmanns Alþfl. og fulltrúa Alþfl. í þeirri nefnd sem manna á milli er kölluð forstjóranefndin, tel ég óhjákvæmilegt að rifja upp í upphafi máls míns þá niðurstöðu sem fulltrúar fiskvinnslunnar gáfu eins og hún er bókuð af ritara fjh.- og viðskn. Þar segir:
    Frystingin er nú rekin með 5--6% halla að mati Samtaka fiskvinnslustöðva. Þetta er nokkuð meiri halli en Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir. Hallinn á eftir að aukast í 10--11% þegar greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði þrjóta. Ef auk þess er tekið tillit til aukinnar vaxtabyrðar vegna tapreksturs ársins í ár og þess aflasamdráttar sem búist er við að verði næsta ár, telja forustumenn samtaka fiskvinnslustöðva að hallinn á frystingunni næsta vor geti verið kominn í 16--20%. Þróun launa er óviss en miklar hækkanir gætu enn veikt stöðu frystingarinnar. Mun minni hallarekstur er á söltuninni. Fjórmenningarnir gagnrýndu þá stefnu stjórnvalda að ætlast til þess að sjávarútvegsfyrirtæki væru ætíð rekin á núlli og miða sínar aðgerðir við það. Enginn atvinnurekstur gæti gengið til lengdar nema gert væri ráð fyrir eðlilegum hagnaði. --- Þetta er útdráttur úr því sem forustumenn fiskvinnslustöðva höfðu að segja.
    Ef maður væri hins vegar spurður, eftir að hafa hlýtt á ræðu frsm. meiri hl., um það hvað hann hefði helst að segja um framtíðina fólst það í þeim orðum að hann vitnaði til Ágústs Einarssonar þegar hann var spurður hvaða aðgerða væri þörf til að koma sjávarútvegsfyrirtækjum á traustan rekstrargrundvöll. Í bókun ritara nefndarinnar stendur: ,,Ágúst Einarsson svaraði og tíndi til eftirtalda liði: 1. Gengissig, 2. 10--15% kaupmáttarrýrnun, 3. hærri skattar, 4. hallalaus ríkissjóður, 5. minni fjárfestingar, 6. aukið atvinnuleysi.``
    Ég heyrði það ekki að framsögumaður meiri hl. hefði með öðrum orðum vikið að framtíðinni og hlýt ég að skilja það svo sem hann hafi verið að gera orð

þessa manns að sínum sem var, eins og ég sagði áðan, fulltrúi Alþfl. í þeirri nefnd sem falið var að gera tillögur (Gripið fram í.) til úrbóta á sjávarútveginum og á sæti fyrir Alþfl. í bankaráði Seðlabankans. Ef á hinn bóginn Alþfl. hefur eitthvað annað til málanna að leggja en fram kemur í þessum tilvitnuðu ummælum hygg ég að nauðsynlegt sé að talsmaður hans hér verji tíma sínum fremur til þess að útskýra hver séu viðhorf Alþfl. til atvinnumála þjóðarinnar en geymi sér skæting til samþingmanna sinna til betri tíma.
    Það voru mikil tímamót og mikil tíðindi, herra forseti, þegar það spurðist að stjórnarandstaðan hefði í grundvallaratriðum komið sér saman um það hvaða stefnu bæri að fylgja nú í þeim erfiðleikum sem atvinnuvegirnir eiga í til þess að ráða bót á því ástandi sem ég hef nú lýst hér með tilvitnun í ummæli eins helsta áhrifamanns Alþfl. á sviði atvinnumála. Ég veit ekki hvort ég á að bæta því við að í nýútkomnu fréttablaði frá Vinnuveitendasambandinu er því spáð að byggðaröskun blasi við og að óhjákvæmilegt sé að 5000--6000 manns missi atvinnuna og aðrir spádómar eru á svipuðum nótum. Það er þess vegna mjög merkilegt, það eru mikil tíðindi að stjórnarandstaðan skuli við þessar aðstæður hafa kjark til þess að útskýra í grundvallaratriðum þá stefnu sem hún vill fara nú til þess að ráða bót á vanda atvinnuveganna og móta nýja stefnu í efnahagsmálum.
    Ég tel óhjákvæmilegt, herra forseti, að lesa upp þann kafla úr nál. minni hl. sem fjallar einmitt um þessi atriði og gerir það nú, með leyfi hæstv. forseta.
    ,,Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í september hafa ekki komið að neinu haldi. Útflutningsgreinarnar eru reknar með vaxandi halla og fyrirtæki í samkeppnisgreinum sömuleiðis, auk þess sem hlutdeild þeirra í markaðnum hefur farið minnkandi og heldur áfram að minnka. Það hefur ekki þýðingu að nefna tölur í þessu sambandi, þær úreldast áður en búið er að reikna þær út. Þó er óhætt að fullyrða að við óbreytt rekstrarskilyrði muni tap sjávarútvegsins á næsta ári nema milljörðum króna. Stöðvun og gjaldþrot fjölda fyrirtækja blasir því við eins og þegar er reyndar komið í ljós.
    Miðað við óbreyttar forsendur er veruleg byggðaröskun óhjákvæmileg og gera má ráð fyrir atvinnuleysi er tekur til þúsunda manna. Ógjörningur er að sjá fyrir afleiðingar þess ef rekstrarstöðvun í sjávarútvegi verður almenn.
    Minni hl. nefndarinnar flytur breytingartillögur á sérstökum þingskjölum sem hér skal gerð grein fyrir.
    Sjávarútvegsráðherra hefur m.a. lýst yfir á þingi Sjómannasambands Íslands og í viðræðum við stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna að endurgreiðsla á láni Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins muni falla á ríkissjóð. Einsýnt er að hafa lagatextann í samræmi við það.
    Minni. hl. tekur fram að ekki er hægt að bæta eiginfjárstöðu fyrirtækja né tryggja eðlilegan rekstur þeirra nema almenn rekstrarskilyrði útflutnings- og

samkeppnisgreina séu þannig að vel rekin fyrirtæki skili hagnaði. Því er ekki til að dreifa nú. Þvert á móti hefur langvarandi hallarekstur etið upp eigið fé fyrirtækjanna svo að mörg þeirra eru ekki lengur rekstrarhæf, jafnvel þótt almenn rekstrarskilyrði yrðu viðunandi. Við þessar aðstæður verður að horfast í augu við þá staðreynd að gengi krónunnar er fallið en lögum samkvæmt ber Seðlabankanum að taka ákvarðanir um gengi krónunnar sem ,,miðast við að halda sem stöðugustu gengi og að ná settu markmiði um viðskiptajöfnuð en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisgreina``. Í lögunum er sú skylda lögð á Seðlabankann að ,,tryggja`` rekstrargrundvöll enda hefur reynslan hvarvetna verið sú að það hefur jafnan haft skelfilegar afleiðingar ef gengi gjaldmiðils hefur verið skráð of hátt og hækkandi til langframa. Um hitt markmiðið, að ná jafnvægi í viðskiptunum við útlönd, þarf ekki að hugsa meðan gjaldeyririnn er á útsölu.
    Jafnframt því sem nauðsynlegt er að leiðrétta gengið er óhjákvæmilegt að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækja og losa um greiðslustöðuna þannig að þeim sé gert kleift að skipta tapinu á mörg ár með skuldbreytingu. En forsendan er auðvitað sú að fyrirtækin geti skilað hagnaði. Með slíkum aðgerðum er unnt að ná viðspyrnu á nýjan leik og leggja grunn að jafnvægi í þjóðarbúskapnum. En það er að sjálfsögðu forsenda batnandi lífskjara og áframhaldandi uppbyggingar.
    Verði gengið fellt er nauðsynlegt að mæta því með lækkun söluskatts á helstu nauðsynjar heimilanna.
    Ekki er fyrir það að synja að mörg fyrirtæki í útflutnings- og samkeppnisgreinum eiga í mjög miklum erfiðleikum af ýmsum toga sem bætast ofan á þá almennu örðugleika sem nú eru í atvinnugreinunum í heild.
    Minni hl. leggur áherslu á nauðsyn þess að með breytingu á skattalögum verði fyrirtækjum auðveldað að skipuleggja fjárfestingu sína fram í tímann og mæta sveiflum. Það yrði annað tveggja gert með greiðslum í verðjöfnunarsjóð á nafni viðkomandi fyrirtækis eða heimild til að geyma fé á bundnum reikningum sem kemur til skattlagningar þegar það er tekið út.
    Minni hl. getur ekki fallist á Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina eins og markmið hans er skilgreint í frv. og eins og stjórn hans er skipuð, sem brýtur í bága við þingræðishefð og er til þess fallið að vekja tortryggni eins og margsinnis hefur komið fram á opinberum vettvangi, ekki síst meðal starfsfólks í fyrirtækjum í sjávarútvegi eða samkeppnisgreinum. Stofnun nýs Atvinnutryggingarsjóðs er auk þess viðbót við sjóðakerfið og hefur óþarfa kostnað í för með sér.
    Minni hl. leggur til að í stað Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina verði stofnuð sérstök rekstrardeild við Byggðastofnun er hafi sjálfstæðan fjárhag og það markmið að treysta fjárhagsstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu, meiri háttar skipulagsbreytingar,

samruna fyrirtækja og annað það sem til hagræðingar horfir.
    Minni hl. getur ekki fallist á að tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs séu skertar. Á hinn bóginn er eðlilegt að rekstrardeild fái heimild til innlendrar lántöku allt að 600 millj. kr. sem endurgreiðist af ríkissjóði og verði hluti af framlagi hans.
    Minni hl. leggur áherslu á nauðsyn þess að komið verði á fót opnum hlutabréfamarkaði hér á landi.``
    Framhald nál. fjallar síðan um tvær breytingar sem sjálfstæðismenn og kvennalistakonur gera tillögur um en þingmenn Borgfl. hafa allan fyrirvara um. Það sem ég hef lesið er fullkomin samstaða um hjá Sjálfstfl., Borgfl. og Samtökum um kvennalista. Hér er í fáum orðum lýst grundvelli þeirrar efnahagsstefnu sem stjórnarandstaðan vill fylgja og er reiðubúin að fylgja. Það er þess vegna ég vil segja ámælisvert að við þessar umræður, bæði um frv. sem hér liggur fyrir og frv. sem var á dagskrá fyrr á þessum fundi, hafa tveir ráðherrar talað úr þessari ríkisstjórn auk framsögumanns fjh.- og viðskn. og enginn þessara manna hefur vikið einu einasta orði að því hvernig bregðast eigi við þeim erfiðleikum sem nú blasa við í íslensku þjóðfélagi. Þegar horft er til þess hversu ótryggt atvinnuástand er víða um land, þegar við horfum á það að eitt frystihúsið á fætur öðru er að stöðvast, þegar við verðum vör við það að hin erfiða rekstrar- og greiðslustaða sjávarútvegsins er farin að hafa
alvarleg áhrif á fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum, ekki síst í fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn, er dæmalaust ef þessi umræða verður svo til lykta leidd að enginn þessara manna og heldur ekki hæstv. forsrh., sem nú er nýkominn til landsins, gera svo lítið að skýra í stuttu máli, ég skal ekki fara fram á það að ræður þeirra séu langar ef þær verða þeim mun efnismeiri, hvernig þeir hugsi sér að mæta þeim erfiðleikum sem blasa við atvinnuvegunum. Ég hygg, herra forseti, að það sé einsdæmi í sögu Alþingis þegar jafnalvarleg mál eins og þessi eru á dagskrá að stjórnarandstaðan og þjóðin fái ekkert að heyra nema hálfvegis skæting þegar svo alvarlegt mál sem þetta er til umræðu.
    Ég vil minna á það að það er ekki aðeins að stjórnarandstaðan haldi því fram að gengi krónunnar sé rangt skráð. Bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. hafa látið þau sömu ummæli falla. Að vísu hefur hæstv. forsrh. sagt í sömu andránni að atvinnuvegirnir gætu ekki búist við því að fá leiðréttingu fyrr en undir vor. Samt sem áður vil ég nú mjög eggja þessa ráðherra til þess að skýra þingheimi og þjóðinni frá því hvað þeim sé í huga, hvort þeir ætli að sitja og horfa aðgerðalausir á það sem nú er að gerast í íslensku þjóðfélagi.
    Ég hef áður rætt um það hvernig ástandið er í frystingunni, hvernig ástandið er hjá saltfiskinum. Ég þarf ekki að skýra þingheimi frá því hvernig ástandið er í öðrum útflutningsgreinum, ýmist rótgrónum eða nýjum. Ég vil taka sem dæmi þá vonlausu stöðu sem nú er í loðdýrarækt. Ég bendi á versnandi horfur í

sambandi við eldisfiska. Ég minni á það að þannig er ástandið orðið í skipasmíðaiðnaði að forustumenn þar nota hvert tækifæri til að lýsa kvíðboga sínum. Ég vil líka gera að umtalsefni hvernig ástandið er í ýmsum iðngreinum sem ýmist hafa verið að reyna að flytja vörur út úr landinu eða keppa við varning sem kemur til landsins. Ég get til að mynda talað um ný fyrirtæki eins og DMG, Sæplast og ýmis önnur fyrirtæki sem beinlínis þjónusta sjávarútveginn. Ég get líka talað um ýmis fyrirtæki sem keppa á innlendum vettvangi við innflutninginn. Það hefur komið fram hjá fulltrúum iðnaðarins, sem komu á fund fjh.- og viðskn., að íslensku fyrirtækin eru þegar búin að missa umtalsverða markaðshlutdeild og þeir hafa látið í ljós ótta um það að a.m.k. 10% samdráttur í neyslu og notkun á innlendum iðnaðarvörum blasi við á næsta ári ef svo heldur fram sem horfir.
    Hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson vék hér við umræður um hið fyrra málið nokkrum orðum að stöðu ferðaiðnaðarins í landinu. Ég get staðfest að það er rétt sem hann segir. Það eru ekki nema tveir dagar síðan að ég hitti af tilviljun á göngu hér í Reykjavík einn af forustumönnum þess iðnaðar úti á landi og það verð ég að segja að hljóðið í honum var síður en svo bjart.
    Við sjálfstæðismenn getum vel endurtekið það hér við þessa umræðu, eins og við höfum gert raunar jafnan áður og eins og við gerðum um hið fyrra málið, að þegar þjóðarnauðsyn krefst getur verið nauðsynlegt að grípa inn í kjarasamninga. Ekki til þess að skerða kjörin, heldur til þess að treysta undirstöður atvinnugreinanna vegna þess að við vitum að íslenskt þjóðfélag getur ekki staðist nema hjól atvinnulífsins snúist, nema framleiðslan í landinu sé í lagi. Einungis undir slíkum kringumstæðum, þegar þeir menn sem ráða landinu hafa í huga að grípa til einhverra aðgerða sem dugi til þess að koma atvinnuvegunum á réttan grundvöll, er það réttlætanlegt að hrófla við gerðum kjarasamningum. Ef það er á hinn bóginn aðeins gert til að sýnast og án þess að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að treysta undirstöður atvinnuveganna er það ekki einungis ámælisvert heldur er það skaðlegt bæði í bráð og lengd vegna þess að slíkt kæruleysi stjórnvalda dregur mjög úr trausti alls almennings á því að aðgerðir af þessu tagi geti orðið til uppbyggingar síðar meir. Þess vegna verð ég að segja að einmitt þetta tómlæti hæstv. ríkisstjórnar fyrir atvinnulífinu í landinu er kannski einhver hættulegasti hluturinn sem ríkisstjórnin hefur gert fram að þessu vegna þess að þá grefur ríkisstjórnin beinlínis undan tiltrú fólksins á stjórnvöldum, á Alþingi, á hinu þingræðislega stjórnskipulagi. Það er af þessum sökum sem þessi ríkisstjórn á sér dapurlega sögu, þó hún sé ekki löng, og því miður eru allar horfur á því að ekki réttist úr kútnum þegar fram í sækir.
    Við sjálfstæðismenn höfum sagt þegar við tölum um það að nauðsynlegt sé að gera efnahagsaðgerðir sem fela í sér leiðréttingu á gengi eins og nú er nauðsynlegt, fela í sér aðgerðir sem kannski fyrst í

stað koma illa við, að nauðsynlegt sé um leið að létta undir með heimilunum með aðgerðum sem fela það í sér að vöruverð á helstu nauðsynjum lækki.
    Það er auðvitað algjörlega óskiljanlegt þegar horft er til baka, þegar rifjað er upp hvernig Sjálfstfl. hefur áður staðið að efnahagsaðgerðum, ýmist með Framsfl. eða Alþfl., að þessir tveir flokkar skyldu nú í haust sýna það skilningsleysi að þeir í fyrsta lagi skyldu ekki fást til þess að stíga nógu stórt skref fyrir atvinnureksturinn í landinu heldur hafna þeirri hugmynd algjörlega og kalla það rýtingsstungu þegar við segjum að um leið og nauðsynlegt er að lækka gengi og þannig framkalla hækkun vöruverðs í landinu, þá skuli bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. segja að það sé hnífsstunga í bak annars þeirra og hafna með öllu þeirri hugmynd að þegar gripið er til
sársaukafullra aðgerða beri fyrst og síðast að hugsa til þess hvernig við getum komið til móts við þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, það fólk sem hefur minnst launin, þær fjölskyldur sem hafa flesta munnana að seðja. Ég vil svo sannarlega vona að þessir tveir menn skilji það, og ef það kemur í þeirra hlut að gera ráðstafanir til þess að rétta gengi krónunnar, þá sýni þeir ekki sama skilningsleysið á lífskjörum fólksins og þeir gerðu sl. haust, þá hafi þeir meiri samúð með þeim sem minna mega sín en hefur komið fram í þeirra umræðum, heldur en þeir hafa hagað sér upp á síðkastið.
    Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessar umræður mjög. Kjarninn í stefnu okkar sjálfstæðismanna liggur fyrir. Við teljum að nauðsynlegt sé að gera víðtækar ráðstafanir sem auðvitað felast í því fyrst og síðast að leiðrétta gengi krónunnar og draga úr áhrifum þess hjá þeim sem minnst mega sín. Það er hornsteinninn í nýjum aðgerðum og með öðrum hætti gera viðeigandi hliðarráðstafanir til þess að atvinnulífið geti aftur styrkst, til þess að eigið fé geti aftur orðið til í fyrirtækjunum vegna reksturs þeirra, vegna þess að þau eru rekin með hagnaði og hafa til þess full skilyrði.
    Ég vil, herra forseti, víkja örfáum orðum að þeim brtt. sem við sjálfstæðismenn, Borgfl. og Kvennalisti flytjum við það frv. sem hér er til umræðu. Við 1. gr. frv. er brtt. sú að síðasta málsgrein orðist svo:
    ,,Lán skv. 1. mgr. þessarar greinar skal undanþegið stimpilgjaldi. Skal það endurgreitt á þremur árum með greiðslum úr ríkissjóði.``
    Ég vil í leiðinni aðeins víkja nokkrum orðum að því að það hefur sætt mikilli gagnrýni, bæði frá útvegsmönnum og sjómönnum að þessi leið skuli farin, að greiða inn í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins með þessum hætti, með ríkisframlagi, til þess að mæta taprekstri frystihúsanna frá 1. júní sl. Sú er skoðun þeirra að í rauninni sé búið að kippa fótunum undan verðjöfnunarsjóðnum með þessu háttalagi. Það kom skýrt fram hjá Kristjáni Ragnarssyni, formanni Landssambands ísl. útvegsmanna, að hugmynd hans stendur til þess að fyrirtækjunum verði gert kleift, annaðhvort með því að leggja fé inn á

Verðjöfnunarsjóð á nafni fyrirtækis eða með bundinni innstæðu í bönkum, að geyma fé frá góðu árunum til vondu áranna. Það er ekki aðeins að aðgerð af því tagi mundi almennt leiða til meiri stöðugleika í þjóðfélaginu heldur mundi það um leið stuðla að hagkvæmari fjárfestingu en nú er og þar með meiri framleiðni og betri rekstri fyrirtækjanna. Þess vegna þykir mér það mjög dapurlegt, einmitt þegar við stöndum í þessum sporum, að ríkisstjórnin skuli í dag leggja fram frv. til laga um breytingu á skattalögum sem gengur í þveröfuga átt, gengur í þá átt að þrengja enn að fyrirtækjunum eins og kostur er þegar staða þeirra er sem verst og erfitt að sjá fyrir hvert framhaldið verður.
    Hæstv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, hefur orðað afstöðu ríkisstjórnarinnar til fyrirtækjanna svo í útvarpsþætti: ,,Það þarf að sameina fyrirtækin. Það þarf að stokka upp eignarhaldið á sumum. Það þarf að tengja þau saman með ákveðnum aðferðum og fara þannig yfir þetta lið fyrir lið, byggðarlag fyrir byggðarlag, fyrirtæki fyrir fyrirtæki, til þess að breyta skipulaginu, rekstrargrundvellinum, samvinnufyrirtækja [það er þannig útskriftin, samvinnufyrirtækja] og jafnvel eignarhaldinu. Og þegar búið er að stokka þennan strúktúr upp og laga hann, þá geta menn farið að skoða hvort einhverjar almennar aðgerðir þurfi þá til viðbótar. En ef þessi uppstokkun verður ekki framkvæmd byggðarlag fyrir byggðarlag, fyrirtæki fyrir fyrirtæki, þá er alveg sama hvað menn fella gengið mikið, 10, 20, 30, 40, 50%, þá mun það ekki duga.`` Þegar þessi ummæli eru lesin fer ekki hjá því að sú ályktun sé dregin að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að hún vitandi vits vilji koma fyrirtækjum úti á landsbyggðinni, sem eru í fiskvinnslu eða útgerð, á kné. Síðan eigi með opinberum aðgerðum --- eða eins og hæstv. fjmrh. sagði í sjónvarpsþætti í septembermánuði: með þeirri stjórn sem nú er í Atvinnutryggingarsjóðnum. Hann sagði að það væri nauðsynlegt að stjórnin yrði skipuð fulltrúum ríkisstjórnarinnar en ekki fulltrúum Alþingis til þess að hægt væri að knýja þessa stefnu fram. --- Síðan á að nota þann sjóð og aðra þá peninga sem ríkisvaldið ræður yfir til þess að byggja fyrirtækin upp með öðrum hætti af öðrum mönnum. Þetta er m.ö.o. tilraun og yfirlýsing um hinn argasta sósíalisma sem ég hef heyrt fyrr og síðar um þjóðnýtingu atvinnutækjanna úti um landið.
    Þetta er sá hugsunarháttur að það séu menn við skrifborð hér í Reykjavík, kontóristar ríkisstjórnarinnar, sem eigi að taka við fyrirtækjunum af þeim mönnum sem hafa byggt þau upp og af þeim mönnum sem betur þekkja en þessir kontóristar hvert er eðli íslensks sjávarútvegs, hvernig best sé að standa að útgerð og hvernig hægt sé að standa að fiskvinnslu. Ef það er málsvörn hæstv. ríkisstjórnar að þessir menn hafi ekki staðið sig, að þessir menn kunni ekki til verka, að fyrirtækin í sjávarútveginum hafi verið illa rekin, þá skora ég á þessa menn í þessari ríkisstjórn að rifja upp hver hagvöxtur og framleiðni hefur verið í sjávarútvegi á sl. árum, og spyr þá: Hefur

hagvöxturinn verið annars staðar meiri? Þurfum við Íslendingar eitthvað að kvarta undan þeim skerfi sem sjávarútvegurinn hefur borið á borð hjá íslensku þjóðinni? Mitt
svar er nei. Mitt svar er að við Íslendingar getum verið stoltir af þeim mönnum sem sækja sjóinn. Við getum verið stoltir af þeim mönnum sem hafa sýnt þann dug og þá djörfung sem hefur gert okkur mögulegt að mæta nýjum áföllum í sjávarútvegi með því að færa út kvíarnar og sækja út til nýtingar á nýjum nytjastofnum hverjum á fætur öðrum. Ég vil segja fyrir hönd míns flokks: Við afþökkum þessa köldu hönd. Við viljum ekki þessa köldu hönd ríkisstjórnarinnar á hið lifandi líf hringinn í kringum landið.
    Við sjálfstæðismenn, Borgfl. og Samtök um kvennalista flytjum sameiginlega brtt. um það að allur kaflinn um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina verði felldur niður. Ég þarf ekki að árétta það, það hefur komið svo skýrt fram í máli mínu áður, að það er auðvitað ekki hægt að rétta við eiginfjárstöðu fyrirtækja á meðan fyrirtækin standa ekki undir sér. Í 2. gr. reglugerðar um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina stendur, með leyfi forseta:
    ,,Fyrirtæki koma því aðeins til álita við lánveitingu eða skuldbreytingu samkvæmt reglugerð þessari að grundvöllur teljist vera fyrir rekstri þeirra að loknum skipulagsbreytingum á fjárhag þeirra og rekstri.``
    Nú gerðist það að stjórnarmenn í Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina neituðu að starfa í sjóðnum eins og þessi grein var óbreytt vegna þess að þeir sögðu að eins og grundvöllur sjávarútvegsins er núna hefur ekki eitt einasta fyrirtæki rekstrargrundvöll, er ekki eitt einasta fyrirtæki á landinu lánshæft. Það var af þessum sökum sem gripið var til þess á meðan hæstv. forsrh. var á förum erlendis að breyta reglugerðinni. Það var sett þarna inn ,,til lengdar`` eða ,,til lengri tíma litið`` eða eitthvað því líkt til þess svona aðeins að svæfa samviskuna í stjórnarmönnum Atvinnutryggingarsjóðsins til þess að þeir fengjust fremur til að lána fyrirtækjunum og veita þeim fyrirgreiðslu. Það er satt að segja aumasta yfirklór sem ég veit dæmi um í íslenskri stjórnmálasögu.
    Auðvitað höfnum við algjörlega hugmyndunum um Atvinnutryggingarsjóðinn eins og þær eru settar hér fram í þessu frv. En ég vil spyrja af gefnu tilefni, saknaði þess raunar að frsm. nefndarinnar skyldi ekki víkja að því einu einasta orði, hvort hæstv. forsrh. sé reiðubúinn til samræðu og viðtals við stjórnarandstöðuna um breytta skipan á þeim kafla sem fjallar um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina. Stjórnarandstaðan hefur komið sér saman um þá skipan og þau markmið sem hún vill hafa á þessum kafla. Og við vitum að í Nd. eru atkvæði jöfn. Ef bæði stjórnarandstaða og stjórnarsinnar fara sínu fram og eru ekki til viðtals og vilja bara láta skömm skella, þá fellur Atvinnutryggingarsjóðurinn eða deildin við Byggðasjóðinn á jöfnum atkvæðum. Hvort tveggja. Þess vegna vil ég mjög beina því til hæstv. forsrh. að

hann athugi það hvort ekki sé hægt að finna samkomulagsgrundvöll við stjórnarandstöðuna einmitt um þetta mál til þess að greiða fyrir framgangi þess og til þess að koma í veg fyrir óhöpp. Ég skal af þeim sökum geyma mér frekari umræðu um sjóðinn eins og hann er. En ég ítreka að í tillögum okkar í stjórnarandstöðunni leggjum við meiri áherslu en gert er í tillögum ríkisstjórnarinnar á það að reynt sé að auka eigið fé í fyrirtækjum og við höfnum því að Atvinnuleysistryggingasjóður leggi sjóðnum til fé. Á hinn bóginn teljum við nauðsynlegt að sjóðurinn sé deild við Byggðastofnun. Og ég vil rifja upp að við 1. umr. þessa máls sögðu a.m.k. tveir af þingmönnum stjórnarliðsins að þeir væru sammála stjórnarandstöðunni um það að eðlilegt væri að þessi starfsemi væri undir stjórn Byggðastofnunar.
    Ég veit ekki hvort ég á að leggja lykkju á leið mína --- leggjast svo lágt að svara frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. út af því sem hann sagði um Byggðasjóð hér áðan. Ég vil aðeins minna hann á það að ég veit ekki betur en að Stefáni Valgeirssyni hafi verið boðið að verða formaður í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina án þess að hann segði af sér þingmennsku um leið.
    Hv. 6. þm. Vesturl. Danfríður Skarphéðinsdóttir mun gera grein fyrir þeim brtt. sem við flytjum sameiginlega, þingmenn Sjálfstfl. og Kvennalista, en Borgfl. var ekki sammála okkur um þær.
    Ég vil svo að síðustu ítreka, herra forseti, það sem ég sagði við 1. umr., að ég álít að 20. gr. bráðabirgðalaganna stangist fullkomlega á við beint og skýrt ákvæði stjórnarskrárinnar um að óheimilt sé að setja bráðabirgðalög nema brýna nauðsyn beri til. Í gildistökuákvæðinu er kveðið á um að 20. gr. skuli ekki öðlast gildi fyrr en 1. nóv. 1988 eða þrem vikum eftir að Alþingi kom saman. Það er því öldungis ljóst að brýna nauðsyn bar ekki til þess að setja þessa grein inn í bráðabirgðalögin og það er í rauninni ámælisvert af stjórn þingsins að hún skyldi ekki hafa hlutast til um það að þessi sérstaka grein gæti komið til atkvæðagreiðslu og afgreiðslu í þinginu fyrir þennan tíma til þess að ítreka þá skoðun að auðvitað dugir ekki að ríkisstjórnir séu að ráðskast með þessum hætti fram í tímann og taka þannig í sínar hendur það löggjafarvald sem við hljótum allir að vera sammála um að eigi að vera Alþingis en ekki ríkisstjórnarinnar, ekki framkvæmdarvaldsins, þegar lagagreinin á ekki að taka gildi fyrr en þrem vikum eftir að Alþingi kemur
saman.
    Herra forseti. Það féll aðeins úr minni mínu vegna þess að ég sá ekki hæstv. fjmrh. hér inni, en það er náttúrlega mjög óviðkunnanlegt að hæstv. fjmrh. skuli hvorki vera við 1. né 2. umr. þessa máls vegna IV. kafla frv. sem fjallar um heimildir til hans til að veita eftirgjöf á vöxtum af vangoldnum skattakröfum. Ég skal ekki gera það að kröfu minni að hæstv. fjmrh. útskýri hvað fyrir honum vakir með þessum kafla, en vil biðja hæstv. forseta að hlutast til um að hæstv. fjmrh. verði við 3. umr. á morgun til þess að hann

geti þá svarað spurningum einstakra þingmanna varðandi þennan kafla.