Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég er mjög undrandi á því að hæstv. forsrh. skyldi ekki hafa gert grein fyrir þeim viðræðum sem hann var að lýsa nú að hann hefði átt við verkalýðshreyfinguna um það að rétt væri að fella niður 2. mgr. 4. gr. meðan það frv. var til umræðu hér áðan og get satt að segja ekki skilið hvernig á því megi standa. Ég læt mér raunar detta í hug að það sé óvíst að hann hafi sagt satt um það að það hafi verið í samkomulagi við verkalýðshreyfinguna sem hæstv. forsrh. tók þessa ákvörðun. Ég held að hitt sé nær sanni að þær umræður, sem hafa orðið um þessa 2. mgr. 4. gr. og sá ágreiningur sem Sjálfstfl. dró fram að var milli stjórnarsinna einmitt um þessa grein, valdi því að hæstv. forsrh. kýs nú að hafa þennan háttinn á, að ræða um það að óhætt sé að fella niður greinina fyrst svo er. Fyrst ekki er ástæða til að hafa 2. mgr. 4. gr. í þessu frv. hlýtur að vakna spurning um hvort nauðsynlegt sé að kveða svo á um önnur atriði í bráðabirgðalögunum eins og gert er, hvort ekki sé rétt þá að gefa samningsréttinn frjálsan eftir samningum eins og hann er, og stíga þá skrefið til fulls ef þessar samningaviðræður eiga sér stað milli ríkisstjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar sem hann hefur verið að lýsa. Þetta hlýtur mjög að verða til umhugsunar. Ég vek sem sagt athygli á því, herra forseti, að eitthvað hefur hæstv. forsrh. verið utan við sig hér áðan, ef hann fer rétt með.
    Ég vil líka brýna það fyrir hæstv. forsrh., úr því að hann fékk nú orðið á annað borð, hvort ekki sé rétt að hann haldi þá áfram og hvort hann fjalli þá ekki um það frv. sem hér er til umræðu. Ég geri ráð fyrir því að það yrði mjög til upplýsingar fyrir þá þingmenn sem kynnu að vera á mælendaskrá ef eitthvað heyrðist frá einhverjum talsmanni ríkisstjórnarinnar um það hvaða stefnu ríkisstjórnin vill hafa í efnahags- og atvinnumálum. Það er sennilega tími til kominn og svolítið leiðinlegt að horfa upp á forsrh. alltaf tala um síðasta mál í staðinn fyrir að ræða málið sem er á dagskrá.