Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að ég fyrir hönd okkar þingmanna Borgfl. í Ed. taki þátt í þessum umræðum. Þetta er tillaga sem við höfum flutt við 4. mgr. Þorsteinslaganna, þ.e. að seinni mgr. 4. gr. verði felld niður þar sem er einmitt ákvæði um að banna verkföll og verkbönn.
    Það er ansi fróðlegt að heyra þau orðaskipti sem hér hafa orðið og ég verð að segja eins og er að ég hef síður en svo á móti því að ríkisstjórnin sjái nú loksins að sér og taki undir þessa brtt. með okkur. Ég veit að vísu ekki hvernig þeir ætla að koma þessari breytingu í kring, hvort þeir ætla einfaldlega að samþykkja þessa brtt. Borgfl. eða hvort þeir ætla að flytja þessa brtt. sjálfir við 3. umr. eða hvernig.
    Ég vil hins vegar mótmæla því sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan. Það er verið einatt hér í þinginu að tala um afstöðu stjórnarandstöðunnar þegar fulltrúar sjálfstæðismanna hafa verið hér í ræðustól eins og þeir tali fyrir munn okkar allra. Stjórnarandstaðan er þrír flokkar sem eru í stjórnarandstöðu. Þeir hafa ekki gert neitt samkomulag sín á milli. Það er enginn einn flokkur sem stjórnar stjórnarandstöðunni. T.d. er formaður Sjálfstfl. ekki sjálfkjörinn leiðtogi stjórnarandstöðunnar þó að sumir fjölmiðlar hafi viljað láta að því liggja, einkum þó ríkisfjölmiðlarnir. Kann að vera að það sé einhver óskhyggja af þeirra hálfu að svo sé. Ég veit ekki hvort það er vilji ýmissa fréttamanna ríkisfjölmiðlanna að þessi umræddi hv. formaður Sjálfstfl. verði snarast aftur forsrh. Það kann svo að vera. En ég vil frábiðja mig því að verið sé að bendla Borgfl. og þingmenn hans við ýmsar staðhæfingar og fullyrðingar í nafni stjórnarandstöðunnar þegar þingmenn Sjálfstfl. eru að gera upp sakir við fyrri samstarfsmenn sína.
    Ég vil að lokum ítreka það, sem ég hef margoft vakið athygli á hér áður, að við erum hér hvað eftir annað vitni að uppgjöri gömlu flokkanna. Þeir eru að hnakkrífast hér, gömlu flokkarnir, sín á milli og við sitjum hjá, fulltrúar hinna nýju stjórnmálaafla í landinu. Væntanlega og vonandi eins fljótt og hægt er tökum við við stjórn landsins og förum að hvíla gömlu flokkana því að mér heyrist þessar umræður einmitt ítreka það og styðja þá skoðun mína að það sé best fyrir þjóðina að fara að losna við þá sem allra fyrst.