Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Nú þykir mér týra á tíkarskottinu eins og þar stendur. Hæstv. forsrh. kemur hér og gefur yfirlýsingu um að stjórnarflokkarnir muni standa að því að fella niður umdeilda grein úr þeim lögum sem hér eru til umræðu og þingmenn Sjálfstfl., svo ég tali þannig að skiljist, bókstaflega umhverfast hér og koma öfugir og snúnir í ræðustól og hafa allt á hornum sér. Ég varð mjög hissa. Ég hélt að þeir yrðu ánægðir með þessa breytingu.
    Það er auðvitað alrangt, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. segir, að hér sé verið að fara á bak við einhvern eða einhverja. Það var gert samkomulag um hvernig atkvæðagreiðslu yrði háttað. Ég ræddi það strax í gær við formann þingflokks Sjálfstfl. og formenn annarra stjórnarandstöðuflokka að við hefðum þann háttinn á að við lykjum umræðum um bæði þessi frumvörp, síðan færu atkvæðagreiðslurnar fram allar í beit. Þetta er löng atkvæðagreiðsla, hún er flókin og hún tekur tíma og það þurfa allir að vera viðstaddir. Þetta var tillaga sem fram var lögð til hagræðis í sambandi við vinnuna. Svo kemur það í ljós í dag að einn af þingmönnum Framsfl. þarf að fara norður í land og þá er óskað eftir því, ég hafði ekki frumkvæði að því, það var formaður þingflokks Framsfl., að atkvæðagreiðslan megi bíða þangað til í upphafi fundar á morgun, fyrst og fremst til þess að allir þingmenn geti tekið þátt í atkvæðagreiðslunni.
    Það er vissulega góð vinnuregla að menn geti skipst út þegar á því þarf að halda. Stundum er líka gott að allir geti greitt atkvæði þannig að það sjáist hverja afstöðu menn hafi og menn séu ekki að víkja út á móti þó að það sé góð regla og nauðsynleg og um það ríki fullt samkomulag. En það er alger rangtúlkun eða misskilningur, vil ég leyfa mér að segja, hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að hér sé verið að fara á bak við einn eða annan og ég sé í rauninni ekki hverju í ósköpunum það breytir hvort við höldum mönnum hér fram á nótt og komum í veg fyrir að þessi hv. þm. færi norður í kjördæmi þangað sem hann átti brýnt erindi eða hvort atkvæðagreiðslan fer fram í upphafi fundar á morgun. Ég er svolítið hissa á þessum viðbrögðum. Mér finnst eins og það sé verið að grípa í hálmstrá. Þetta eru drukknandi menn sem fálma í allar áttir og grípa í einhver hálmstrá og snúa út úr málinu á alla enda og kanta þegar búið er að --- ( EKJ: Hvaða menn eru það?) Ég er að tala um hv. þm. Sjálfstfl. --- gefa yfirlýsingu um að fella burt umdeilda málsgr. úr þessum lögum sem þeir hv. þm. Sjálfstfl. stóðu að því að setja með okkur. ( GHG: Er það öruggt? --- Með ykkur, já.) Það voru að vísu þingmenn í Alþfl. sem höfðu fyrirvara með þessa málsgr. Það er rétt. ( GHG: Heldurðu ekki að það hafi verið í Sjálfstfl. líka?) Það getur vel verið að einstakir þingmenn þar hafi haft fyrirvara, ég skal ekkert um það segja, það má vel vera.
    En mér finnst þetta alveg hreint með ólíkindum og það er í rauninni sorglegt og hér skuli ekki vera fulltrúar fjölmiðla með sjónvarpsmyndavélarnar til að

skrá þessi viðbrögð þingmanna Sjálfstfl. og sýna þjóðinni. Það hefði verið skemmtileg sýning.