Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Í tilefni af þessari síðustu athugasemd þyrfti auðvitað að skoða það mál allt saman frá grunni og verður raunar að gera.
    Ég endurtek aðeins það, sem ég veit að enginn dregur í efa, að í fjh.- og viðskn. létum við stjórnarsinna algerlega um það hverju þeir vildu reyna að halda inni af þessum gömlu lögum, það voru orðin eiginlega fern bráðabirgðalög sem voru á ferðinni í einu, og það var greitt fram úr því á lögfræðilegan hátt með þeim hætti að formaður nefndarinnar hafði samráð við starfsmenn þingsins.
    Að sjálfsögðu stóðum við ekki að flutningi neinnar af þessum tillögum, við sjálfstæðismenn eða stjórnarandstaðan yfirleitt, heldur þvert á móti. Það gat auðvitað alveg eins verið að við greiddum atkvæði gegn þessu máli. Við höfðum ekki gefið það út, við sjálfstæðismenn, hvernig við mundum taka afstöðu til þessa þáttar málsins einmitt vegna þess að stjórnarsinnar voru sífellt að tala um að reyna að ná einhvers konar samkomulagi og ræða saman og það var síðast gert í dag.
    Það liggur algerlega ljóst fyrir og hlýtur hvert mannsbarn að skilja þegar málið er lagt fram og hver einasti maður hér inni vissi hvað var að gerast í dag. Það var eitthvað á seyði. Það átti að reyna að koma í veg fyrir að ákveðin atriði í bráðabirgðalögunum, eins og stjórnarflokkarnir báru þau fram, yrðu felld hreinlega í þessari deild. Það hefur hæstv. forsrh. tekist að gera sýnist mér. Ég veit ekki hvort ég á að óska honum til hamingju með það. Ég held ekki af því að ég sé ekki að það hafi verið drengilega gert að láta okkur halda það þegar við leyfum að fresta atkvæðagreiðslum til morguns vegna þess að einn framsóknarþingmaður þurfti að fara. --- Eru ráðherrarnir búnir að tala saman? ( Forsrh.: Já, já.) Var verið að leysa eitthvað núna áríðandi? ( Menntmrh.: Það var nú mál sem kemur ekki upp alveg strax.) Nei, ég gæti trúað að þeir þyrftu að halda næturfundi, myrkraverkafundi.
    En þegar hæstv. forsrh. kom upp til að biðja afsökunar hélt ég að hann ætlaði að biðja okkur þingmenn Sjálfstfl. afsökunar á ummælum um okkur, að við værum steinrunnir. Hér hafa engir menn æst sig upp nema hæstv. forsrh. sem missti tök á tungu sinni og svo tveir kratar, en þeir gera það oft. En þeim hefur sem sagt tekist að fá hv. þm. Skúla Alexandersson til að greiða atkvæði á móti samvisku sinni.