Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Þegar umræða fór fram um þetta mál síðast spurði hæstv. menntmrh. mig ýmissa spurninga í sambandi við stefnuskrá Sjálfstfl. í efnahagsmálum og hvað flokkurinn nú vildi gera við breyttar aðstæður. Ég svaraði því að nokkru í dag við umræður um annað mál reyndar, en um það spunnust eins og menn muna miklar umræður þó að það væri algert aukamálefni og nánast tæknilegt að flytja tvö frumvörp en ekki bara eitt. Það er auðvitað illt í efni að hafa ekki ráðherrann hér þegar maður ætlar að svara honum að einhverju leyti, en mín klukka er nú á mínútunni svo að það er kannski rétt að víkja að einhverju öðru á meðan. Hér er mættur hv. þm. Eiður Guðnason, sem hér talaði allmikið í dag og beindi til okkar í stjórnarandstöðunni ýmiss konar spurningum, og má þá gjarnan nota tímann núna í millitíðinni til að rabba svolítið við þann ágæta vin okkar.
    Þingmaðurinn vék að því sem komið hefði fram hjá Ágústi Einarssyni sem mun vera forustumaður eða formaður í samtökum frystihúsaeigenda eða einhverjum af þessum samtökum í sjávarútveginum. Hann gat réttilega um að á nefndarfundi hefði komið í ljós sú skoðun hans að svo gæti vel farið að hallinn á vinnslunni eða frystihúsarekstrinum yrði allt að því 16--20% strax á næsta vori verði ekkert að gert. Það er vissulega verið að gera aðgerðir núna, en þær eru kannski ekki allar í sama dúr og Ágúst Einarsson vék að, enda aðhyllist ég ekki allar þær kenningar sem hann setti þar fram, en varla held ég að menn geti í sjávarútvegi talið að eitthvað sé verið að gera sem minnki hallann í sjávarútvegi. Það er auðvitað ekki því að leyna að það er verið að veita þó nokkrum fjármunum til sjávarútvegsins, lánsfé að sjálfsögðu, fullverðtryggðu lánsfé, en það bætir ekkert um hallann á frystihúsunum. Það er eingöngu verið að framlengja lífdaga og kannski að strekkja á hengingarólinni. Það er verið að gefa mönnum nógu langt reipi eins og breskur málsháttur segir, nógu langt reipi til að þeir hengi sjálfa sig. Það heitir víst á enskunni: ,,Give them rope long enough to hang themselves.`` Það er verið sem sagt að afhenda útveginum peninga til þess að þeir verði svolítið lengur að hengja sig. A.m.k. fer ekkert á milli mála að það er stefna Alþb. eins og getið hefur verið um að reyna að skipta sem mest um eigendur fyrirtækjanna og væntanlega efast nú enginn um það hvert þeir á þeim bæ, alþýðubandalagsmenn, vilja að eignarráðin hverfi. Það er auðvitað til ríkis og einhverra hálfopinberra bákna en frá einkarekstri og heilbrigðum félagsrekstri.
    Skattahækkanir eru boðaðar 5--6 milljarðar sem er ljóst þegar ríkið, sem þó hefur ekki nema um það bil 1 / 3 af heildarrekstri þjóðarbúsins á sinni hendi, ætlar sér nú að bæta milljörðum á milljarða ofan á sínar tekjur, en atvinnuvegirnir fara þó enn með um það bil 2 / 3 af umsvifum þjóðfélagsins, launagreiðslum og rekstri öllum og það á að dengja þessum peningum ofan á atvinnureksturinn. Og hvar á hann að afla sinna tekna? Ekki hefur hann skattlagningarvald. Það hlýtur því hvert mannsbarn að geta skilið að það sem

er verið að gera er ekki að aðstoða sjávarútveginn eða atvinnuvegi yfirleitt. Það er verið að íþyngja þeim og það er gert með opnum augum. Það er talað um að það þurfi að ná niður hinni gífurlegu þenslu, það þurfi að skapa atvinnuleysi, það þurfi að lækka launin og að Íslendingar hafi lifað um efni fram. Formaður Alþfl. t.d. hefur margsinnis talað um að íslenska þjóðin hafi verið á margra ára fjárfestingarfylliríi. --- Nú kemur ráðherrann hér í gættina. Nei, hann hverfur burt aftur svo að ég sný mér þá aftur að forustumanni Alþfl. í þessari hv. deild, vini mínum, af því að ég veit að hann vill rökræða málin. Þó hann sé ekki sammála mér vill hann hlusta á rök og bera fram sín og það er vel og það höfum við alltaf gert.
    Ráðherrann kemur ekki enn. Hann hefur líklega farið í símann. Við getum vikið að fjárlagahallanum á meðan. Þá býð ég hæstv. menntmrh. velkominn hér til að hlýða á mál mitt ( Menntmrh.: Já, þakka þér fyrir það.) af því að ég ætlaði sérstaklega svona í upphafi að svara spurningum sem hann bar fram og var rétt að byrja á að ræða almennt og ég vona málefnalega um stöðuna eins og hún er nú í efnahags- og atvinnumálum. Ég leyfði mér að halda því fram að skattahækkanir nú upp á 5--6 milljarða kr. mundu ekki bæta hag útvegsins eða útflutningsframleiðslunnar heldur beinlínis verða borgaðar af atvinnuvegunum og fólkinu í landinu, en fólkið hefur ekki annars staðar peninga frá en frá tveim aðilum, þ.e. annars vegar atvinnuvegunum að 2 / 3 hlutum eða svo og frá ríkinu og opinberum stofnunum að 1 / 3 hluta.
    Nú ætlar ríkið sér sem sagt að afla sér þessara milljarða. Hvort þeir verða 5 eða 6 veit ég ekki. Það er eftir að leggja þær tölur saman og reikna út. En þá er spurningin sem ég beini til þessara hv. þm. og vona að þeir svari: Ef ríkið þarf til þess að standa undir sínum rekstri á næsta ári viðbótartekjur upp á 5--6 milljarða og það fer með þriðjung umsvifanna í þjóðfélaginu, hvað þurfa þá atvinnuvegirnir mikið sem fara með 2 / 3 hluta umsvifa í þjóðfélaginu, greiða 2 / 3 hluta launa í þjóðfélaginu og alls annars kostnaðar, hvað þurfa þeir þá mikið? Er það ekki reikningsdæmi upp á að þeir muni þá þurfa 18 milljarða eða svo, 15--18? Það er víst rangt hjá mér.
Það er víst 10--11. Ef það dæmi er rétt að ríkið þurfi þetta og ætli ekki að auka sín umsvif, ætli frekar að reyna að skera eitthvað niður eins og atvinnuvegirnir eru að reyna, þá getum við hugsað okkur að þetta væru um það bil 10 milljarðar.
    Nú vita það víst allir að atvinnuvegirnir hafa ekki skattlagningarvald. Þeir geta þess vegna ekki farið þá auðveldu leið að velta byrðunum yfir á skattborgara landsins, borgarana og einhverja atvinnuvegi sem aðrir væru en þeir sem nú eiga við þetta að búa. Þá getum við líka hugsað okkur að halli fjárlaga sé mjög skaðvænlegur og því halda menn fram hér á Íslandi þó að það sé varla til sú rödd í öðrum vestrænum löndum sem haldi því fram að það sé sáluhjálparatriði að ríkissjóður sé rekinn hallalaust. Þvert á móti veit ég ekki um neitt land í Vestur-Evrópu eða í vesturálfu, Norður-Ameríku, að það sé þar afgangur á

fjárlögum eða svokölluð hallalaus fjárlög. Þvert á móti fjármagna menn alltaf hluta af ríkisútgjöldunum með lántökum hjá borgurunum. Og um halla á fjárlögum, að það eigi að leysa hann með þessum 5--6 milljörðum í nýjum lánum. Það var reynt. Nákvæmlega þessi upphæð var reynd af síðustu ríkisstjórn. Ég neyddist til að styðja þá skattlagningu að hluta til vegna þess að ég bar talsverða ábyrgð á því að ríkisstjórnin fyrrverandi var mynduð. Menn minnast þess --- Nú er hv. þm. Eiður horfinn. Ég ætlaði að reyna að svara þeim í sameiningu báðum. En það berst nú til hans. --- og það er ekkert launungarmál að ég átti drjúgan þátt í að mynda þá ríkisstjórn. Þegar málin stóðu þannig að hæstv. núv. utanrrh. og hæstv. núv. forsrh. höfðu báðir við stjórnarmyndunina gert kröfur um að nýir skattar yrðu lagðir á. Þeir kölluðu það fyrstu aðgerðir. Við sjálfstæðismenn neituðum öllum nýjum skattlagningum við stjórnarmyndunina framan af, en það var ófrávíkjanlegt skilyrði og það kom fram í blöðum af hálfu bæði núv. hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. að fyrstu aðgerðir yrðu framkvæmdar og það kom í minn hlut í þingflokki Sjálfstfl. að flytja tillögu um að hækka skatta um 1 milljarð. Ég sagði einmitt þá og hef sagt reyndar opinberlega að það kom þá vel á vondan. Ég vissi að þetta var röng stefna, en það var þó skárra að hafa ríkisstjórn með mjög takmarkaðri skattálagningu en einhverja stjórn sem kannski mundi dengja yfir þjóðina milljörðum á milljarða ofan í sköttum.
    Þegar sú stjórn var mynduð var skýrt tekið fram í stjórnarsáttmála að það yrði ekki reynt að ná hallalausum fjárlögum nema á þremur árum. Það yrði ekki reynd sú aðferð, sem ofan á varð þó, að dengja á þeim gífurlegu sköttum sem menn kannast við. Og hver varð reynslan af þessu tiltæki sem bæði ég og aðrir vöruðum við? Sá halli sem þá átti að brúa var talinn verða um 3 milljarðar, en til vonar og vara voru þeir hafðir 5 í skattlagningunni og þá átti allt að vera slétt og fellt, hallalaus fjárlög og allt í blóma, ekki síst sjávarútvegur og aðrir atvinnuvegir. Nú er komið í ljós og hefur verið frá því greint af hæstv. fjmrh. einmitt úr þessum ræðustól að hallinn stefni í 5 milljarða og þó væntanlega meira. Hann orðaði það svo að hallinn hækkaði um 1 milljarð í hvert skipti sem hann greindi frá stöðu ríkisfjármála. Nú er kominn hálfur mánuður eða þrjár vikur frá því að hann talaði við okkur síðast og væntanlega, þegar hann gefur skýrslu næst, verður þessi milljarður hans, þessi mánaðarlegi milljarður, kominn í ljós.
    Hallinn upp á 3 milljarða sem átti að brúa með 5 milljarða skattheimtu verður núna helmingi meiri en þessir 3 milljarðar sem áttu að fylla í gatið. Það er alltaf talað um göt á hverju hausti og ráðherrarnir eru alltaf að rembast við að fylla í þessi göt, en þau stækka. Og nú er boðað að gera eigi nákvæmlega það sama og í fyrra. Það á enn að fylla í gat og menn telja sér enn þá trú um að það verði hallalaus fjárlög á næsta ári. En ef það verða teknir núna 6 milljarðar í nýjum sköttum, þá ætti eftir reynslunni að dæma að

verða a.m.k. 12 milljarða halli á næsta ári á fjárlögunum. Þetta er enn þá frekar hægt að rökstyðja með því, sem raunar hefur verið gert af stjórnarliðum sjálfum, að tekjurnar muni fara minnkandi. Þær muni verða minni en áætlað er. Þær hafi orðið það á þessu ári og því skyldu þær ekki verða það á næsta ári þegar boðuð er kreppa og samdráttur. Ætli tekjurnar verði ekki eitthvað minni. Og það er sagt að útgjöldin hafi aukist líka meir en áætlað var. Það er skýringin á þessum 5--6 milljarða halla á þessu ári. Ætli sama skýring ætti ekki við á næsta ári ef það tekst að koma á kreppunni og atvinnuleysinu. Ætli tekjurnar verði ekki minni en áætlað er og ætli gjöldin fari ekki upp, því að engir hagfræðingar geta hrakið það, hversu miklir snillingar sem þeir eru í sínum háfræðum, að þegar upp er staðið, a.m.k. í þessu ríki, þá eru gjöld ríkissjóðs nánast bara tvennt og það eru bein og óbein laun, beinar og óbeinar launagreiðslur til fólksins í landinu og gengishalli eða gjaldeyrisnotkun öllu heldur. Það eru kaup og þjónusta erlendis frá og það er innlend þjónusta og vinnuafl. Og þegar hvor tveggja launin hækka, sem þau óhjákvæmilega gera auðvitað þegar dembt er yfir þeim gífurlegu sköttum að fólkið getur ekki lifað við þá, hækka þeir og þá hækka launin og þá fellur gengið. Svona einfalt er það nú. Gjaldahliðin á fjárlögunum hækkar alltaf á undan tekjuhliðinni. Hallinn verður þeim mun meiri sem meira er reynt að níðast á fólki, ég segi
níðast á fólki, og atvinnuvegum með óbærilegum sköttum. Þeir eru óbærilegir og þess vegna veltir fólk þeim af sér. Og nú keyrir um þverbak. Þetta er sú einfalda skýring á gangi þessara mála. --- Nú eru báðir viðmælendur mínir farnir í símann og ég sný mér þá á meðan kannski að hæstv. forsrh. því að hann hefur gott af að heyra þetta líka, sem ég var að segja núna, og reyna að skilja það.
    Það er þó hérna einn alþýðuflokksmaður og það er kannski rétt þá að lofa honum að heyra það, ef hann ekki veit það áður, hver ástæðan var til þess að skattarnir voru hækkaðir miklu meira en lofað var í stjórnarsáttmálanum í fyrra. Ætli upptök þess hafi ekki verið í Alþfl. Gæti hann ekki getið sér þess til að þau hefðu verið þar með sömu rökum og nú að það þyrfti að brúa bilið og fylla í gatið á fjárlögunum? Og eru ekki kenningarnar og áróðurinn nákvæmlega það sama nú og þá og hefur ekki formaður Alþfl. margsinnis hælt sér af því að það eina sem upp úr stæði af störfum síðustu ríkisstjórnar væri samræming skattamála, kerfisbreyting, kerfisbylting? Það sé hinn stórkostlegi árangur síðustu ríkisstjórnar þó að atvinnuvegirnir væru að sligast. Og hallinn ætlar raunar að verða meiri á þessu ári en nokkurn tíma áður og verður svo tvöfalt meiri á næsta ári ef haldið er áfram á sömu braut. ( Gripið fram í: Hvers vegna?) Hvers vegna. Ég var að reyna að rökstyðja það áðan. Ég skal endurtaka það. Ég held að þingmaðurinn geti skilið þetta ef hann hefur eyrun opin. Hvað segir reynslan okkur? Í gegnum hálfan annan áratug hefur gengið venjulega verið fellt og bætt á nýjum sköttum í hundraðstölum, ekki bara á

gamla grunninn sem hækkar auðvitað þegar gengið fellur heldur að hundraðstölu ofan á. Það sem ákveðið var í fyrrahaust þegar stjórnarsáttmálinn var brotinn og ríkisstjórnin réð sér með því bana var einmitt þetta. Ég var að reyna að tala við alþýðuflokksmenn, en þeir eru önnum kafnir sýnilega í einhverju sem er meira áríðandi en að hlusta á rök. Það er verið að versla ansi mikið núna þessa dagana með ýmsa hluti og maður hefur fundið það í dag og séð það á svipbreytingunum á þeim sem gjarnan vilja vera lausir við kosningar og svoleiðis að það væri ekki rétt að fella stjórnina alveg strax. Það er höndlað og höndlað og þess vegna hafa menn kannski ekki tíma til að hlusta á rök, en ég ætla að endurtaka þetta samt.
    Þegar stjórnarsáttmálinn var svikinn, það loforð að reyna ekki að ná hallalausum fjárlögum með skattheimtu nema á þrem árum en ekki einu, og það var dengt yfir 5 milljörðum í sköttum, þar á meðal matarskattinum, þá gerðist það sem núna er að koma í ljós. Það var talið að það yrði 3 milljarða halli og þyrfti að brúa hann og hafa svo borð fyrir báru eins og það er orðað og fara í 5 milljarða. Þá hækkaði gjaldahlið ríkisins meira en tekjuhliðin. Það eru skýringarnar sem við fáum nú. Gjöldin urðu hærri og tekjurnar urðu minni en fjárlögin sögðu. Þess vegna er gatið stærra. Það eru 6 milljarðar, segir hæstv. fjmrh. að það verði. Því var spáð að það yrði 3 í fyrrahaust. Þess vegna var dengt yfir 5 milljörðum. Og það sem gerist núna er að það á að dengja yfir einum 6 milljörðum og miðað við reynslu þessa árs, reynslu sem við höfum fyrir augunum, mundi hallinn verða 12 milljarðar vegna gífurlega hækkandi gjaldahliðar og lækkandi tekjuhliðar miðað við það sem er reiknað í dag. Einmitt nú hækkar tekjuhliðin enn þá minna en gert er ráð fyrir vegna þess að það er boðuð kreppa. Það er kreppa, samdráttur og atvinnuleysi. Hvaðan eiga þá tekjurnar að koma, þessir nýju skattar sem verið er að leggja á okkur? Og hvaðan eiga svo tekjurnar að koma þegar búið er að rústa alla atvinnuvegina með skattlagningu og ofstjórn?
    Það er ein spurning enn. En hæstv. menntmrh. hefur alltaf verið í símanum svo að ég ætla að ávarpa aðeins hæstv. forsrh. á meðan og víkja þá að því sem gerðist kl. korter fyrir sjö í dag. Það var mjög athyglisvert.
    Hæstv. forsrh. greindi okkur frá því að hann hefði rætt um það í ríkisstjórninni í morgun --- og þegar sagt er í morgun er það væntanlega fyrir hádegi --- og þar hefði verið ákveðið að falla frá framlengingu á svohljóðandi ákvæði, sem er í bráðabirgðalögum, einum af þessum mörgu bráðabirgðalögum sem verið er að hræra saman hér, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimilar.``
    Þetta ákvæði átti að framlengja samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar og tillöguflutningi meiri hl. fjh.- og viðskn. og nú er það tilkynnt að á ríkisstjórnarfundi

í morgun hafi verið ákveðið að hætta við þessi áform. Nú eftir hádegið var gert um það samkomulag við stjórnarandstöðu að falla frá því að ljúka málum í kvöld og greiða atkvæði um þau mál sem við erum hér að ræða vegna þess að einn af þingmönnum Framsfl. þyrfti nauðsynlega að fara úr bænum út í sitt kjördæmi á einhvern fund. Vafalaust er það einhver merkilegur fundur, merkilegri en þingfundir, ég veit ekkert um það. Það hefur legið í loftinu að undanförnu og engum dulist að stjórnin væri að biðja um það og ekki síst hæstv. fjmrh., sem er nú ekki hér, að stjórnarandstaðan kæmi til liðsinnis, að menn ræddu saman um að reyna að finna heilbrigðar lausnir á
málum. Ég var t.d. kallaður upp í ráðuneyti fyrir nokkrum dögum hjá hæstv. fjmrh. þar sem varaformaður Framsfl., hæstv. dómsmrh., var og þar sem formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., var líka og þar var rætt við okkur hvort við gætum ekki náð samkomulagi um einhver efni, ekki síst skattamál og efnahagsmál. Við óskuðum eftir því að við fengjum í hendur þau skattlagningarfrumvörp sem fyrirhuguð væru. Fyrr en við sæjum hvað stjórnin ætlaði sér og hvað hún treysti sér til að sameinast um sjálf gætum við engin svör gefið og við höfum hvorki sagt já eða nei við einu eða neinu af því.
    En nú gerist það að ekki er þegið að einn af okkar mönnum gangi út í kvöld á móti þeim manni sem þurfti nauðsynlega að fara norður í land eins og altítt er ef veikindi eru eða lögmæt forföll og þótti engum tiltökumál. Það er reyndar mikill sómi Alþingis, hefur verið a.m.k. í seinni tíð, að menn hafa alltaf hliðrað til þegar þannig hefur staðið á. Þetta mátti ekki gera. Það er alveg ljóst að það var verið að vinna tíma. Það átti ekkert að tala við stjórnarandstöðuna nema kannski einhverja sem ætti að vera að semja við. Ekki stjórnarandstöðuna í heild. Ekki Sjálfstfl. Það er alveg á hreinu.
    Þetta á allt eftir að koma í ljós og þetta verður kannski skemmtileg framhaldssaga. Ég efast ekkert um að úr því að nú má ræða málin og koma þeim til atkvæða sé búið að vinna þessa orustu ef það er hægt að kalla svona nokkuð orustu, það eru önnur orð yfir þessi vinnubrögð sem ég ætla ekkert að viðhafa hér. Þó að ríkisstjórnin standi af sér þessa atkvæðagreiðslu, sem verður þá ekki fyrr en á morgun og skiptir það ekki meginmáli, og hafi væntanlega líka tryggt að þessi lög, ef lög skyldi kalla, þessi hrærigrautur laga og þar á meðal laganna frá í maí, sem eru auðvitað öll fyrir lifandi löngu í raun fallin úr gildi, nái fram að ganga, þá eru allt aðrar aðstæður í dag og að fara að klastra upp á þau er bara til þess að flækja mál og láta líta út fyrir jafnvel að einhverjir af okkur, t.d. í Sjálfstfl., viljum halda í einhver ákvæði sem samkomulag varð um við allt aðrar aðstæður.
    En þá er komið að því að svara því hver sé stefna Sjálfstfl. og svo vill til að það er ekki bara stefna Sjálfstfl. sem liggur ljós fyrir núna á nál. 207. Það er sameiginleg stefna allrar stjórnarandstöðunnar uppárituð af henni allri um að fara algerlega

þveröfugar leiðir við ríkisstjórnina, í að bjarga atvinnuvegunum og vinna bug á þeim erfiðleikum sem við búum við í dag. Þetta er raunar sagt í örfáum orðum sem ég skal lesa, með leyfi hæstv. forseta, í þessu nál. sem er undirritað af Halldóri Blöndal, Júlíusi Sólnes, Eyjólfi Konráð Jónssyni og í lok nál. segir að Danfríður Skarphéðinsdóttir, þingmaður Samtaka um kvennalista, hafi setið fundi nefndarinnar og sé samþykk nál. þessu. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Jafnframt því sem nauðsynlegt er að leiðrétta gengið er óhjákvæmilegt að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækja og losa um greiðslustöðuna þannig að þeim sé gert kleift að skipta tapinu á mörg ár með skuldbreytingu. En forsendan er auðvitað sú að fyrirtækin geti skilað hagnaði. Með slíkum aðgerðum er unnt að ná viðspyrnu á nýjan leik og leggja grunn að jafnvægi í þjóðarbúskapnum. En það er að sjálfsögðu forsenda batnandi lífskjara og áframhaldandi uppbyggingar.
    Verði gengið fellt er nauðsynlegt að mæta því með lækkun söluskatts á helstu nauðsynjar heimilanna.``
    Þetta segir í rauninni allt sem segja þarf. Þetta er þveröfug stefna við það sem hæstv. ríkisstjórn fylgir. Hún ætlar að fara þveröfuga leið. Hún ætlar að stórauka skatta sem atvinnuvegirnir verða auðvitað að borga, það eru engir aðrir til að borga þá, og hún ætlar að skerða kjör allra, líka láglaunafólks, og auðvitað bitna mest á láglaunafólki t.d. verðhækkanirnar sem verða við vörugjaldið, hækkun þess, og hækkun neysluskatta ofan á alla þá skatta sem fyrir eru. Þetta gerir auðvitað tvennt: knýr áfram verðbólgu, knýr upp verðlagið strax á fyrsta degi og þar að auki verður fólkið að krefjast meira kaups en það hefur. Það getur ekki lifað á kaupinu þegar búið er að hækka vöruverðið. Þannig kemur kauphækkunin strax í kjölfarið og fólkið verður að fá meiri tekjur.
    Og gengið verður auðvitað fellt einhvern tíma því að hæstv. forsrh. hefur marglýst því yfir að gengið sé rangt um 15%. Það vitum við. En hann hefur hins vegar ekki, hæstv. ráðherra, beint gert grein fyrir því hvernig hann ætlar sér að vega upp á móti þessu óskráða gengi með lækkun á þjónustu og verðlagi, tilkostnaði innan lands. Og getur hæstv. forsrh. haldið því fram, ég ætla að varpa til hans ákveðnum spurningum á eftir, í sinni eigin samvisku, sinni eigin hugsun hvað þá gagnvart öðrum, að það auðveldi að færa niður innlendan kostnað að dengja yfir þessum sköttum, beinum og óbeinum sköttum? Sá maður sem héldi því fram að það auðveldaði þessar aðgerðir, sem er verið að boða, að halda genginu kyrru en ná niður kostnaði innan lands, sá maður sem héldi þessu fram í alvöru hlyti að vera eitthvað brenglað hugsandi og ég veit að það er hæstv. forsrh. svo sannarlega ekki. Þess vegna hlýtur hann að gera sér grein fyrir því að þessar gífurlegu hækkanir sem á að dengja yfir gera auðvitað gersamlega útilokað að ná einhverjum árangri í sambandi við að skrá gengið rétt með niðurfærslu innan lands. Hún gerir gengisfellinguna miklu stærri
þessi 15% skekkja sem hann talaði um núna og ég

hef talað um reyndar líka. Hún verður ekki 15, hún verður 20, hún verður 25 og þaðan af meira eftir því sem lengra líður og eftir því sem meiri sköttum er dengt yfir þjóðina.
    Af því sem hæstv. menntmrh. hefur heyrt af mínu máli vona ég að hann geri sér a.m.k. grein fyrir því að það hefur gerst hér sem menn áttu ekki von á, ég átti ekki von á því, að öll stjórnarandstaðan hefur markað heilbrigða, frjálslynda stefnu í ríkisfjármálum, í skattamálum og í þeim aðgerðum sem verið er að vinna að núna til að treysta atvinnuvegina, allir sem einn. Og þessi stefna er alger andstæða núverandi stjórnarstefnu. ( Menntmrh.: Er það stefna stjórnarandstöðuflokkanna að reka ríkissjóð með 8 milljarða halla?) Nei, ég var að segja að stefna stjórnarandstöðunnar væri að nálgast hallalaus ríkisfjárlög vegna þess að sú stefna sem hæstv menntmrh. fylgir leiðir örugglega til --- ja, ég mundi segja 12 milljarða halla en ekki greiðsluafgangs, nákvæmlega eins og gerðist á þessu ári, en hæstv. ráðherra var víst í símanum þegar ég var að skýra þetta.
    Sannleikurinn er nefnilega sá að ef hjólin fara að snúast í atvinnulífinu og ef t.d. söluskattur væri lækkaður um 5%, ég hef sýnt það dæmi, ef söluskattur væri lækkaður úr 25 í 20% og gengið fellt um 13% nú í dag, það er enn hægt að gera þetta, þá mundi 5% lækkun söluskatts að fullu vega upp verðlagshækkanir um 13% gengisfellingu. Ég held að enginn sem hefur reiknað þetta dæmi vefengi það vegna þess að grunnurinn undir söluskattinum er svo miklu stærri, öll þjónustugjöldin og öll innlenda varan og allt það. Ef þetta yrði gert mundi fólkið una við óbreytt laun. Þá mundi gjaldahlið ríkisins ekki vaxa. En tekjuhliðin mundi auðvitað æða upp þegar öll hjól færu að snúast og atvinnuvegirnir að skila tekjum, kannski ekki á fyrsta missirinu en þó á öðru, þannig að það er alveg öruggt að halli yrði minni eftir þeim leiðum sem við viljum fara stjórnarandstæðingar, Sjálfstfl., Borgfl., Kvennalistinn. Það er alveg öruggt. Ég mundi leggja hausinn að veði upp á það ef það væri nokkurn tíma hægt að sanna það. Það mundi ég hiklaust gera. Það verður líklega aldrei sannað. En gerðum við þetta mundi ég leggja hausinn að veði upp á það að hallinn yrði minni eftir þeim leiðum sem ég er að tala um en hinum. Alla vega hefur það ekki verið reynt, en a.m.k. í hálfan annan áratug hefur hitt verið reynt, aldrei þó jafnhrikalega og nú á að gera, bæði að drepa atvinnuvegina og líka að hafa mesta halla í sögunni.
    Ég endurtek að ógæfa síðustu ríkisstjórnar var að hún sveik sitt loforð um að hækka ekki skatta og reyna ekki að ná hallalausum fjárlögum á næstu þremur árum. Hún sveik það þegar hún dengdi sköttunum yfir í fyrrahaust og réð sér þar með bana eins og ég hef sagt áður og setti sjávarútveginn á vonarvöl. Og hvað haldið þið að gerist þá nú? Hv. þm. Karl Steinar Guðnason hristir höfuðið og það er allt í lagi að gera það, en ef menn ekki vilja læra af reynslunni, af hverju á þá að læra? Ekki af

kennisetningum hagfræðinganna.
    Það er þetta sem ég er að reyna að leiðbeina hv. stjórnarsinnum með og þar með hæstv. menntmrh. sem spurði hver væri þessi reginmunur á stefnunum. Það er svart og hvítt. Ef við viljum kalla það niðurfærsluleið sem ég er að tala um má gjarnan gera það mín vegna. En hitt er alla vega uppfærsluleið og endemisleið. Það hafa reynst orð að sönnu.
    Já, ég sagðist ætla að bera fram nokkrar spurningar til hæstv. forsrh. Ég er reyndar með þær skrifaðar og ég get afhent þær. Þetta er örstutt sem ég mundi vilja gjarnan að hann svaraði. Ég vil svo mjög gjarnan að það sé gagnrýnt sem ég er að segja. Ef hæstv. menntmrh. vill hrekja það sem ég er að segja er ég mjög fús að hlusta á hans rök.
    En ég spyr hæstv. forsrh.: Telur ráðherra að afgreiðsla þess máls sem hér er til umræðu, skattafrumvarpanna og fjárlaga eins og þau eru nú hugsuð muni í einhverju bæta stöðu atvinnuveganna? --- Ég endurtek: Telur hæstv. forsrh. að afgreiðsla þessa máls, skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar og afgreiðsla fjárlaga muni í einhverju bæta stöðu atvinnuveganna? Getur hann fært einhver rök að því að staða atvinnuveganna muni batna við afgreiðslu þessara mála? Á ég þá auðvitað ekki við þessa tilfærslu peninga sem er samkvæmt þessu frv. Við vitum öll að það bætir ekki stöðuna. Það hefur hann sagt sjálfur. Það eru tímabundin úrræði.
    Önnur spurning: Hvernig hyggst forsrh. rétta af rangt gengi sem hann telur vera alveg eins og ég? Telur hann að stórfelldar nýjar skattaálögur á fyrirtæki og almenning geri einhvers konar niðurfærslu kostnaðarliða auðveldari en ella? --- Ég endurtek: Hvernig hyggst forsrh. rétta af rangt gengi sem hann hefur talið vera nálægt 15% en er í mínum huga auðvitað 20, 30--40 eftir að þetta var dunið yfir? En ég spyr: Hvernig hyggst hæstv. forsrh. rétta af rangt gengi? Telur hann að stórfelldari nýjar skattaálögur á fyrirtæki og almenning geri einhvers konar niðurfærslu kostnaðarliða auðveldari en ella? Er einhver sem telur það? Það má líka hver annar stjórnarsinna sem hér er svara spurningunum ef forsrh. vefst eitthvað tunga um tönn. Ég hefði mjög gaman af því t.d. að hæstv. menntmrh. svaraði þessu líka og t.d. hv. þm. Eiður Guðnason. Þeir geta fengið ljósrit af þessu. Þetta er
skrifað hér.
    Í þriðja lagi: Gerir hæstv. forsrh. sér grein fyrir þeim grundvallarmun sem er á skattlagningarleið ríkisstjórnar hans og þeirri stefnu sem stjórnarandstaðan í heild boðar m.a. með eftirfarandi orðum í nál.: ,,Verði gengið fellt er nauðsynlegt að mæta því með lækkun söluskatts á helstu nauðsynjavörur.`` Vill ráðherrann skýra þennan mun frá sínu sjónarmiði? Þetta er spurning sem ég vildi gjarnan líka að hæstv. menntmrh. skýrði og ég skal þá einu sinni enn segja hver þessi reginmunur er frá mínu sjónarhorni.
    Ef okkar stefnu, stjórnarandstöðunnar, er fylgt, við skulum segja að við ákveðum í dag að fella gengi um 13% og lækka söluskatt um 5% og lækka síðan

matarskattinn t.d. í 5% eða svo, þá mundi verðlag í landinu á einum degi lækka allt um 5%. Það væri hægt að fylgja því fram mjög harkalega t.d. um áramót að allt vöruverð í landinu og öll þjónusta lækkaði um 5%. ( EG: Dettur þingmanninum í hug að verslunin mundi gera það?) Verslunin? Því skyldi hún ekki gera það? ( Menntmrh.: Og verð á innflutningi mundi lækka líka.) Ég skal klára það. Því skyldi hún ekki gera það, hv. þm. Eiður Guðnason? ( EG: Ég hef mínar efasemdir.) Efasemdir? Hún tekur það ekki frá sér. Það á að lækka söluskattinn og ef hún ekki gerði það ætti að setja við því gífurlega ströng viðurlög. Heldurðu að fólkið í landinu mundi ekki fylgja því eftir ef það væri ákveðið að á einum degi mundi öll vara og þjónusta í landinu hækka um 5%? Þá er eftir þetta með erlendu vöruna. Auðvitað hækkar hún sem nemur gengisfellingunni, en það má líka hafa mjög strangt aðhald, svo það góða orð sé nú notað, í því efni. Það fer ekkert á milli mála. Eitthvað er til af erlendri vöru í landinu og verður, en um leið og hún fer að flytjast inn verður að hafa tímabundið verðlagseftirlit með henni. Ég er alveg klár á því. En við höfum upp á að hlaupa að lækka söluskattinn á matvöru miklu meira en almenna söluskattinn.
    Nú er rétt að menn viti það í eitt skipti fyrir öll því það virðist ekki komast inn í höfuðið á þeim sumum að við erum alltaf að tala um að nálgast Evrópubandalagið og fylgja svipuðum skattalögum og þar. Þar má enginn virðisaukaskattur í framtíðinni í neinu landanna vera hærri en 20% og almenni skatturinn á að vera lágmark 14 og hámark 20%. Skattur á matvörur, húshitun, almenningsfarartæki og ýmiss konar vöru, algengar bráðar nauðsynjar, má aldrei vera hærri en 9% og aldrei lægri en 4%. Að vísu segir Margrét Thatcher: Ég ansa því aldrei. Ég set aldrei einseyring í skatt á matvörur og barnaföt og brýnustu lífsnauðsynjar. Þó að henni sé boðið upp á 4% segir hún: Það skal vera núll. En spekingarnir í Alþfl. hafa sagt: Það verður að vera einn skattstigi. Það er ekki nokkur lifandi leið að ,,kontrólera`` annað. Samræmdir skattar, skattkerfisbylting. Með þessum líka glæsilega árangri! (Gripið fram í.) Það höfum við upp á að hlaupa til að bæta upp vegna verðhækkananna á gjaldeyrinum. En jafnvel þó að vörurnar lækkuðu ekki að meðaltali um 5% til frambúðar eða þjónustan, jafnvel þó að það stæði í stað þegar kemur eitthvað fram á árið, að meðalverð væri núll, hefði ekkert lækkað og ekkert hækkað, gera menn sér ekki grein fyrir hvað gífurlegur árangur hefði náðst? Verðbólgan væri þó í núlli og það varanlega og fólkið hefði sömu kjör og það hefur í dag og atvinnuvegirnir mundu blómstra. Þetta er svo augljóst í mínum huga og ég held að allir sem vilja hugsa sjái hve augljóst þetta er, að hitt sem nú á að gera er auðvitað að bjóða voðanum, kreppunni, atvinnuleysinu og tekjuskerðingunni í þjóðfélaginu heim.
    Og menn segja: Það hefur allt of mikið verið fjárfest á Íslandi. Það er út af fyrir sig alveg rétt að það hefur verið fjárfest of mikið í öllum mögulegum

hlutum, ekki þó í íbúðarhúsnæði, það vantar enn íbúðir, fjárfesta má meira í þeim. Það hefur verið fjárfest of mikið í verslunarhúsnæði, í sjávarútvegi, í landbúnaði. Og þetta er ekki bara í Reykjavík. Það hefur verið byggt allt of mikið líka af ýmiss konar verksmiðjuhúsum úti um allt land. En ætli þetta sé eyðsla til langframa? Þetta segir okkur eingöngu að við getum fjárfest minna á næstu árum. Við getum bætt lífskjörin með því að draga úr fjárfestingunni, nota þá fjárfestingu sem fyrir er til að byggja upp ný atvinnufyrirtæki. Þetta eru ekki ónýt hús. Hvað halda menn að sé þá mikið hægt að auka þá peninga sem fólk hefur undir höndum til að kaupa fæði, klæði og sjá sér sæmilega farborða og sínum fjölskyldum?
    Ætla einhverjir að segja mér að fólk sem er jafnvel með 100 þús. kr. í laun á mánuði eigi mikið eftir þegar búið er að skerða kjörin um 8%, 10% eða 15 sem kinnroðalaust hefur verið talað um og þar á meðal af ráðherrum? Ætlar hv. þm. Karl Steinar Guðnason að segja mér hvað fólk sem hefur háar meðaltekjur hefur mikið eftir þegar það er búið að borga fyrir húsnæðið sitt, annaðhvort húsaleigu eða afborganir af dýrum húsnæðisstjórnarlánum, þegar það er búið að borga ljós og hita, síma, útvarp, sjónvarp, bíldruslu og allt sem allir verða að hafa? Hvað á það mikið eftir þá til að kaupa fyrir föt og mat? ( KSG: Þetta er arfleifð Sjálfstfl.) Er það arfleifð Sjálfstfl.? Hv. þm. Eiður Guðnason sagði áðan --- og það er líka ljós hlið á málunum, eins og ég er að segja höfum við fjárfest svo mikið að það er hægt að bæta kjörin --- að það
væri nú þannig að fólk flygi út um allan heim og hefði það svo óskaplega gott að engin önnur þjóð hefði það betra. Ég segi: Ég er sammála hv. þm. um að engin þjóð í heimi er ríkari en íslenska þjóðin. En hún hefur það ekki betra um þessar mundir því að við erum að ganga í gegnum kreppu, heimatilbúna kreppu, og arfleifð Sjálfstfl. er sú að hafa fallist á skattana sem kratarnir heimtuðu að yrðu lagðir á í fyrrahaust. Undir því verðum við auðvitað að standa. Og það játa ég að ég greiddi atkvæði með hluta af því, þó ekki öllu, og reyndi að berjast gegn því. ( KSG: Aumingjar eruð þið.) Hverjir? Þeir sem áttu skattahugmyndirnar? ( KSG: Að samþykkja það sem þið eruð á móti.) Jæja, þessi var nokkuð góður miðað við aðstæður í dag. Hvernig ferðu með sjúkrahúsið þarna suður frá eða elliheimilið? ( KSG: Það fer allt vel.) Það fer allt vel, já.
    Menn hafa talað mikið um þessa skattkerfisbreytingu og það er gaman kannski að því að alþýðubandalagsmennirnir skýri það fyrir okkur hvort þeir telja það enn þá gersamlega útilokað að t.d. matarskattur verði eitthvað svipaður og í Evrópubandalaginu sem þeir eru nú mjög hrifnir af, alþýðuflokksmennirnir. Er það enn þá útilokað?
    Og hv. þm. Eiður Guðnason var að tala um Sjálfstfl. og stjórnarmyndun í fyrra. Ég hafði nefnilega þó nokkur afskipti af því að mynda fyrrv. ríkisstjórn og var eiginlega nokkuð montinn af því. Við féllumst á það í Sjálfstfl. að lokum að verða við tilmælum

hæstv. núv. utanrrh. og hæstv. núv. forsrh. að gera fyrstu ráðstafanir, fyrstu aðgerðir var það kallað, til að rétta við ríkishalla sem menn áætluðu þá að gæti orðið 2--3 milljarðar og hefði kannski orðið það. Það kom í minn hlut, og ég skýrði frá því áður en hv. þm. kom inn, að flytja í þingflokki Sjálfstfl. tillögu um að koma til móts við þessi sjónarmið Alþfl. og Framsfl. og hækka skatta um 1 milljarð gegn því loforði að lengra yrði ekki gengið og það var sett í stjórnarsáttmálann að það yrði ekki reynt að ná hallalausum fjárlögum nema á þremur árum. Þetta var svikið og menn geta svo metið það hver fyrir sig hvaðan þeir halda að pressan hafi komið, hvort hún hefur komið þá frá hæstv. þáv. fjmrh. eða einhverjum öðrum. Og þegar Karl Steinar Guðnason ætlar að kenna Sjálfstfl. einum um þetta held ég að hann ætti að líta svolítið nær sér með það. En allir sem studdu þá stjórn bera auðvitað ábyrgð nákvæmlega eins og Karl Steinar ber ábyrgð á þessari stjórn meðan hann styður hana og hennar aðgerðum, þar á meðal því að maska endanlega meginatvinnuveg þjóðarinnar, að skerða kjör fólksins, að stefna í glórulausan halla ríkissjóðs þegar tekjurnar hverfa en útgjöldin hækka. Ég veit að sá hv. þm. skilur hvað ég er að segja og hann er sannfærður um að sú stefna sem nú er boðuð gengur alls ekkert upp. En þá á hann líka að sýna þann manndóm, úr því að hann ásakar aðra fyrir að hafa stutt það sem var á móti þeirra geði, að hætta við að stefna út í þessi lifandis ósköp og skelfingu sem núna er fram undan og menn boða kinnroðalaust.
    En nú skal ég ekki af því að tíminn líður eyða meiri tíma að sinni a.m.k., en ég vænti þess að hæstv. ráðherrar reyni nú að svara þeim spurningum sem ég til þeirra beindi og koma þá með gagnrök.