Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Ég held að ef einhver misskilningur hefur orðið í þessu efni, þá sé hann eingöngu í huga Halldórs Blöndals, hv. 2. þm. Norðurl. e. Mér sýnist á öllu að hv. þm. hafi ekki alveg áttað sig á því hvað hér er verið um að tala. Lögin frá 20. maí framlengdu alla kjarasamninga til 10. apríl 1989. Það ákvæði breytist eins og þetta liggur fyrir núna þannig að samningar framlengjast aðeins til 15. febr. Það eina sem gerist er að þessi tími samningsbindingarinnar styttist verulega og niður er felld seinni mgr. 4. gr., ,,Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimil.`` Þessi setning fellur brott og ég satt að segja fullyrði að hér er ekki um neinn misskilning að tefla nema þá hjá hv. þm. Halldóri Blöndal sem mér heyrist á öllu að hafi ekki alveg áttað sig á því sem við erum að gera hér, enda er þetta töluvert flókið mál og ekkert óeðlilegt að menn ruglist í ríminu þegar er verið að ræða um tvenn bráðabirgðalög eða þrenn sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar setti og ein sem núv. ríkisstjórn setti.
    Hv. þm. biður um að nú verði málinu öllu frestað um sinn. Ég geri ráð fyrir því að það sé sjálfsagt að verða við því ef það er vilji stjórnarandstöðuflokkanna allra, þ.e. Sjálfstfl., Borgfl. og Kvennalista. En ég satt að segja átta mig ekki á því, slíkt ofurkapp sem stjórnarandstöðuflokkarnir allir hafa lagt á að þetta mál kæmi hér til atkvæða og afgreiðslu. Í fjh.- og viðskn. hefur málinu verið flýtt svo sem verða mátti. Raunar er umræðan öll töluvert á undan þeirri upphaflegu vinnuáætlun sem sett var. Þegar það svo gerist að hæstv. forsrh. lýsir því yfir fyrir hönd stjórnarflokkanna að við munum fallast á eina af brtt. stjórnarandstöðuflokkanna þ.e. brtt. Borgfl., það sé samkomulag um það að þessi setning, sem óneitanlega hefur verið umdeild, falli niður, þá er það vissulega gott, en þá er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja eða átta mig á hvers vegna þá er nauðsynlegt að fresta málinu, sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur lagt manna mest kapp á að kæmi hér til afgreiðslu, umræðu og atkvæðagreiðslu og ég hef gert mér sérstakt far um að greiða fyrir að gæti orðið.
    Þegar það er nú til umræðu að fella þessa umdeildu setningu niður, kemur þá eitthvert hik á menn hér? Hvers vegna göngum við ekki hreint til verks og höldum þeirri vinnuáætlun sem við höfðum sett okkur? Ef um er að ræða mjög eindregnar óskir allra stjórnarandstöðuflokkanna um að fresta málinu nú af þessari ástæðu, að það á að fella niður þessar tvær umdeildu línur, þá er auðvitað sjálfsagt að taka það til vinsamlegrar athugunar. Ég hygg raunar að hæstv. forseti hafi í hyggju að gera fundarhlé svo menn geti rætt málið hér utan fundar. En ég satt að segja viðurkenni alveg hreinskilnislega að ég trúi ekki að þetta sé afstaða allra flokkanna í stjórnarandstöðunni. Ég trúi því ekki. Þetta kemur í opna skjöldu og þetta kemur ákaflega mikið á óvart eins og raunar fleira

hefur gert í dag.