Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Eins og ég greindi frá við 1. umr. þessa máls í hv. Nd. hefur komið í ljós á undanförnum mánuðum að sá tími sem ætlaður var til þess að undirbúa gildistöku laga um virðisaukaskatt hefur á engan hátt verið nægilegur. Í ljós hefur komið að ýmiss konar tæknileg vinna tekur mun lengri tíma en ætlað var og má í því sambandi nefna undirbúning sérstakra tölvuforrita sem eiga að tryggja það að framkvæmd þessa veigamikla nýmælis í okkar skattamálum geti tekist eins og nauðsynlegt er. Ég hugsa að flestir hv. alþm. hafi á sínum tíma ekki frekar en aðrir gert sér nægilega vel grein fyrir því að þetta væri það flókið mál í undirbúningi en reynslan undanfarna mánuði hefur ótvírætt sýnt það að svo er. Í því sambandi má einnig vekja athygli á því að mikill fjöldi, svo tugþúsundum skiptir, aðila í okkar þjóðfélagi munu með beinum hætti þurfa að taka þátt í þessari skattkerfisbreytingu. Það hefur einnig tekið mun lengri tíma en ætlað var að undirbúa það kynningarstarf og gera um það áætlanir til að tryggja að réttur skilningur verði hjá öllum þeim sem að framkvæmdinni koma. Enn fremur hefur komið í ljós að endurskoða þarf ýmsar ákvarðanir eða útfæra nánar sem kunna að vera meira pólitískt álitamál. Ég lýsti því yfir við meðferð þessa máls í hv. Nd. að vel gæti komið til greina, þótt það hafi ekki verið ákveðið formlega endanlega enn, að allir þingflokkar tækju þátt í þeirri vinnu og mun ég áður en meðferð málsins lýkur hér í þessari hv. deild lýsa endanlegri formlegri ákvörðun í því máli en ég hef kynnt þann vilja minn að gera um það tillögu að svo verði.
    Ég hef, virðulegi forseti, vakið athygli á þessum atriðum hér í upphafi vegna þess að eðlilega munu kannski flestir telja að ástæða þessarar frestunar sé fyrst og fremst tekjuþörf ríkissjóðs um þessar mundir. Það er ekkert óeðlilegt að menn haldi það og vissulega má segja að það komi til góða að þessi frestun þurfi að eiga sér stað þegar horft er á tekjustöðu ríkissjóðs á næsta ári. En um leið og því er ekkert leynt að þessi frestun kemur til góða í þessu efni er þó rétt að láta það koma alveg skýrt fram að jafnvel þótt engin slík ástæða væri fyrir hendi þá væri óhjákvæmilegt af tæknilegum ástæðum og vegna þess að undirbúningsvinnan er miklu flóknari og viðameiri en talið var í upphafi að fresta gildistöku virðisaukalaganna.
    Ég vænti þess að þessi hv. deild muni kynna sér þá þætti málsins einnig eins og gert var í fyrri deild, en þar var málið afgreitt fljótt og vel, enda held ég að allir hafi sannfærst um það við meðferð málsins að hvað sem líður tekjustöðu ríkissjóðs og tengslum þessa frv. við það þá sé hin ástæðan ærin.
    Ég vil svo að lokum endurtaka það sem ég sagði hér áðan að áður en málið kemur til endanlegrar afgreiðslu hér í hv. deild mun ég hafa lokið þeirri umfjöllun sem ég taldi óhjákvæmilega innan ríkisstjórnarinnar um eðli þess endurskoðunarstarfs sem þarf að eiga sér stað með samvinnu allra þingflokka.

    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.