Lögreglumenn
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Hér er fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 56 frá 1972, um lögreglumenn, með síðari breytingum. 1. flm. er hv. 3. þm. Norðurl. e., en ég er meðflm. ásamt nokkrum öðrum hv. þm.
    Hv. frsm. hefur gert svo ítarlega grein fyrir þessu máli að ekki er þörf á að hafa um það mörg fleiri orð. Ég ætla aðeins að bæta örfáum atriðum við.
    Aðalbreytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögum um lögreglumenn frá árinu 1972 samkvæmt þessu frv. eru tvær. Það er í fyrsta lagi að tryggja það að eftir 1. janúar 1990 verði enginn ráðinn eða skipaður lögreglumaður nema hann hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Það er auðvitað afar mikilvægt að menntun lögreglumanna sé í lagi. Lögregluskóli hefur starfað hér í Reykjavík áratugum saman. Ég hef ekki fylgst með honum nákvæmlega hin síðari ár, en að mínum dómi var þetta þegar fyrir mörgum áratugum hin merkasta menntastofnun og veitti góða menntun á sínu sviði. En nú er talið að allstór hópur þeirra manna sem starfa að löggæslumálum í Reykjavík hafi aðeins notið kennslu á fárra daga námskeiði. Það er auðvitað ekki nógu gott og það er hverju orði sannara að það þarf að efla Lögregluskólann sem allra mest.
    Í öðru lagi gerir frv. þetta ráð fyrir breytingum á bótaskyldu ríkissjóðs gagnvart lögreglumönnum sem slasast eða verða fyrir öðru tjóni vegna starfs síns. Þetta er einnig mjög mikilvæg breyting og nauðsynleg. Lögreglustarfið er oft og tíðum hættulegt og ýmsir sem gegna því verða fyrir áföllum. Það er með öllu óhæfilegt að þeir menn sem slasast við vinnu sína verði kannski að eyða mörgum árum í að leita réttar síns fyrir dómstólum. Þess vegna tel ég að sú breyting sem hér er gert ráð fyrir horfi til mikilla bóta.
    Hitt er svo annað mál að lög um lögreglumenn eru frá 1972 eins og komið hefur fram svo að það er vafalaust þörf á því að gera fleiri breytingar á þeim. Ég vek sérstaka athygli á því að það er þörf á að skoða þau nánar en hér er ráð fyrir gert.
    Í lögum um lögreglumenn segir að ríkið haldi uppi starfsemi lögregluliðs sem hafi það verkefni að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, stemma stigu við lögbrotum og vinna að uppljóstran brota sem framin eru samkvæmt því sem nánar greinir í lögum um meðferð opinberra mála.
    Við höfum ekki fjölmennu liði öryggisvarða á að skipa, Íslendingar. En þess má geta að skipshafnir varðskipanna og tollverðir teljast til lögreglumanna ríkisins samkvæmt 4. gr. laganna frá 1972. Við gleymum stundum hvað þessir öryggisverðir eru okkur mikilvægir. Við ætlumst til þess að þeir vaki meðan við sofum og þeir séu viðbúnir þegar við erum að skemmta okkur og komi óðara á vettvang ef við þurfum á að halda.
    Skipshafnir varðskipanna hafa aldrei haft verkfallsrétt svo að ég viti til, en fyrir nokkrum árum var talið nauðsynlegt að lögreglumenn fengju slíkan rétt, verkfallsrétt. En að mínum dómi reyndist þessi verkfallsréttur nánast óbærilegur fyrir lögreglumenn.

Og ég vildi láta það koma fram hiklaust að ég tel að lögreglan eigi ekki að hafa og raunverulega geti ekki haft verkfallsrétt. En þeim mun betur verðum við að sjá um að vel sé gert við þá í launum og öðrum aðbúnaði og staðið við þá samninga sem við þá eru gerðir.
    Við þurfum ekki að kosta miklu til her- og landvarna, Íslendingar. Ef við lítum í fjárlög nágrannaþjóðanna og annarra lýðræðisþjóða, Evrópuþjóða, sjáum við fljótt að það er ekki svo lítill skerfur af opinberu fé sem fer til land- og hervarna. Þennan kostnað þurfum við ekki að bera. Það hefur því alltaf verið álit mitt að við ættum með þetta í huga að geta haldið úti góðu lögregluliði og gert vel við okkar öryggisverði. Að minni hyggju ættum við að sjá sóma okkar í því að búa vel að löggæslumönnum okkar og öðrum öryggisvörðum. Þar þarf fyrst til að koma góð löggjöf sem svarar kalli tímans, en síðan að sú löggjöf sé framkvæmd af myndarskap.