Lögreglumenn
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Níels Árni Lund:
    Herra forseti. Ég held að hér sé hreyft ágætismáli sem vert er að taka undir. Þá get ég einnig fagnað því sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. um að verið sé að vinna að þessu máli, eflingu Lögregluskóla ríkisins, sem þetta frv. snýst um að verulegu leyti.
    Hér hefur komið fram flest það sem menn vildu láta koma fram í þessu máli. En varðandi Lögregluskólann tel ég að það hljóti að vera nauðsynlegt á þessu sviði sem öðrum að menn sem gegna jafnviðamiklum trúnaðarstörfum í þágu þjóðarinnar og lögreglumenn séu til þess færir og vel menntaðir. Það hlýtur að auka bæði hæfni þeirra og eins verður það eflaust til þess að færri óhæfir menn gerist lögreglumenn eins og því miður dæmin sanna að stundum vill verða. Með því að fara í gegnum skóla mundu slíkar líkur minnka sem væri líka gott.
    Hér hefur verið rætt um að yfir standi mikil fækkun hjá lögreglunni og um það hafa orðið umræður í fjölmiðlum. Maður hefur að sjálfsögðu áhyggjur af slíkri fækkun. Það hlýtur að þýða að það eru auknar kröfur gerðar til þeirra sem eftir standa. Þessi fækkun er að sjálfsögðu vegna þess erfiða ástands sem nú ríkir m.a. í efnahagsmálum okkar og það er samdráttur. Eins hlýtur það líka að leiða til þess að auknar kröfur eru gerðar til þeirra manna sem vinna við þetta og þar af leiðandi auknar kröfur um betri menn til að sinna þessu.
    Það er eitt atriði sem ég vildi líka sérstaklega ræða um. Það er varðandi það sem er í 1. gr. og hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Lögreglumenn, hvort sem þeir eru í föstu starfi eða kvaddir lögreglunni til aðstoðar, eru opnberir starfsmenn og njóta sömu verndar.``
    Ég minnist þess að fyrir örfáum mánuðum gerðist það einmitt hér í borg að lögreglumaður sem var einn á vakt leitaði aðstoðar almenns borgara og almennra borgara, en það var ekki aðeins að honum væri neitað um slíka aðstoð heldur var nánast snúist í lið með þeim sem hann átti í höggi við. Þetta hlýtur að vera mikið alvörumál og ég hef fyrir því sönnur að þar gat þetta farið á mjög alvarlegan veg ef aðrir hefðu ekki komið til og aðstoðað. Ég held þess vegna að með enn þá meiri fækkun í liði lögreglumanna geti einmitt sú staða komið upp, þessi borgaraleg skylda hvers manns að taka þátt í og aðstoða lögregluna við störf og þá verður það að vera tryggt að þeir hinir sömu njóti sömu verndar og þeir sem í lögreglunni eru.
    En ég endurtek: Ég held að hér sé á ferðinni ágætt mál sem ég lýsi mig fullan stuðningsmann við, enda þótt ég átti mig á því, eins og kom fram í máli hæstv. dómsmrh., að það kostar fé að gera þetta og vel má vera að þetta komist ekki á undir eins, en hér er hreyft góðu máli og það er fyrsta skref í rétta átt.