Ríkisreikningar 1981-1986
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð sérstæður atburður í þingsögunni þótt lítið fari fyrir honum í dag að mælt skuli vera fyrir frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningum fyrir árin 1981, 1982, 1983, 1984, 1985 og 1986. Ef allri venju væri fylgt og því sem æskilegt væri ætti auðvitað að koma til slíkra umræðna einu sinni á ári svo að þingheimur hefði möguleika til að fjalla um málin í eðlilegu samhengi við atburðina og minni manna. Ég tók hins vegar þá ákvörðun fljótlega eftir að ég kom í fjmrn. að beita mér fyrir því að hér yrði lagt fram á Alþingi frv. um samþykkt á ríkisreikningum fyrir öll þessi ár og það mundi ekki dragast lengur enn að gera það. Jafnframt hef ég lagt hér fram frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1979 og mun það koma fyrir síðar á þessum fundi. Vona ég að eftirmenn mínir, sem verða væntanlega margir og góðir, þurfi ekki að standa í þeim sporum hér að mæla fyrir samþykkt á ríkisreikningi um það bil tíu árum eftir að atburðirnir áttu sér stað og útgjöldin.
    Það frv. sem hér er lagt fyrir og ég mæli fyrir nú fyrir árin 1981--1986 er samið eftir ríkisreikningum fyrir þessi ár, en þeir hafa verið lagðir fyrir Alþingi í þrennu lagi eins og fram kemur í grg. með frv. Reikningurinn fyrir árið 1981 var lagður fyrir Alþingi með bréfi fjmrh. til forseta sameinaðs þings í febrúar 1987, en reikningurinn fyrir árið 1982 á sama hátt með bréfi í febrúar 1987. Reikningarnir fyrir árin 1983--1986 eru hins vegar lagðir fyrir þingið nú. Fylgirit með ríkisreikningi fyrir 1986 samkvæmt ákvæðum laga nr. 31/1982 er á lokastigi í vinnslu í prentsmiðju og verður dreift sem sérhefti að venju, væntanlega fyrir þinghlé um jólin. Fylgiritin fyrir árin 1984--1985 eru hins vegar endurbirt í viðkomandi heftum.
    Eins og hv. alþm. er kunnugt berst ríkisreikningurinn fyrir hvert ár tvisvar, í fyrra sinnið eins og hann liggur fyrir eftir uppgjör ríkisbókhalds og í síðara sinnið með prentuðum athugasemdum yfirskoðunarmanna, svörum fjmrh. við þeim og loks tillögum yfirskoðunarmanna um hvernig við skuli brugðist. Sjálfar niðurstöðurnar breytast ekki við þessa meðferð heldur lúta athugasemdir yfirskoðunarmanna fremur að því hvernig markmið og stefna nái fram að ganga en færslu einstakra liða.
    Samkvæmt nýjum lögum um Ríkisendurskoðun frá árinu 1986 verður sá háttur hafður á í framtíðinni að sérstök endurskoðunarskýrsla frá Ríkisendurskoðun mun fylgja fullbúnum ríkisreikningi í stað athugasemda og tillagna yfirskoðunarmanna sem tíðkast hafa. Ríkisreikningurinn fyrir 1986, sem hér liggur fyrir, dregur dám af þessu nýja fyrirkomulagi.
    Því ber ekki að leyna, virðulegi forseti, að fram til þessa hefur það yfirleitt verið reglan að frv. um þetta hefur ásamt frv. til fjáraukalaga verið lagt fyrir Alþingi fyrir eitt ár í senn. Við þá tiltekt sem ég vék að áðan og við ákváðum í fjmrn. að beita okkur fyrir er hins vegar farin sú leið að leggja það fram í einu lagi í stað þess að vera með sex sjálfstæð frumvörp

fyrir þau sex ár sem hér um ræðir. Þessi kostur hefur verið valinn eftir samráði við lögfróða menn og vænti ég þess að hv. alþm. hafi ekkert við þetta að athuga. Það sparar bæði tíma og eykur vinnuhagræði hér í þinginu og vænti ég þess að menn kunni að meta það.
    Það þarf heldur ekki að óttast fordæmi af þessum sökum þar sem afgreiðsla ríkisreiknings mun í framtíðinni hljóta væntanlega og vonandi skjótari og liprari meðferð með breyttu verklagi eins og ég vék að áðan.
    Virðulegi forseti. Það mætti auðvitað margt um þetta mál segja, en ég ætla ekki að gera það hér. Þetta eru merk söguleg plögg sem við erum hér að fjalla um og kannski allt of lítið af því gert að menn skoði þau og líti til baka og meti reynsluna heldur eru menn oft uppteknir af því sem setur svip á hvern dag eins og sjá má í salnum við þessa umræðu. Vissulega hefði verið tilefni og lærdómsríkt að fjalla hér ítarlega um reynsluna af framkvæmd fjárlaga og þær stærðir sem ríkisreikningarnir sýna og ýmsar venjur og siði sem skapast hafa í okkar stjórnkerfi í þessum efnum. Ég held þó að það sé æskilegt að stefna að því að það verði meiri skikkur á þessu máli í framtíðinni og bæði þingið sjálft og eins stjórnstofnanir hafi á þessu meiri reglu. Ég vildi hins vegar gera hreint borð hvað þetta snertir og ákvað þess vegna að leggja málin fyrir með þeim hætti sem hér er gert.